Fréttabréf 20. október 2019

Takið þátt í að móta starfið – mætið á aðalfundinn

Aðalfundur Samtaka áhugafólks um skólaþróun verður haldinn á Kaffi Reykjavík, Vesturgötu 2, 101 Reykjavík, mánudaginn 4. nóvember, kl. 17.00-18.00/18.30. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf (sjá lög félagsins á þessari slóð: http://skolathroun.is/log-samtakanna/).

Fyrir fundinum liggur tillaga um nokkrar lagabreytingar, m.a. um kjör ritstjórnar Skólaþráða, veftímarrits samtakanna og tillaga um heimild til að kjósa heiðursfélaga. Sjá nánar tillögu um lagabreytingar hér. Veitingar í boði félagsins.

VIÐ HVETJUM YKKUR EINDREGIÐ TIL AÐ MÆTA OG TAKA ÞÁTT Í UMRÆÐUM UM ÞRÓUN STARFSINS

Skráning á aðalfundinn er hér

Starfsþróun kennara – hvar eru tækifærin?

Minnt er á ráðstefnuna um starfsþróun kennara sem haldin verður í Menntaskólanum við Sund, miðvikudaginn 6. nóvember 2019, kl. 15.00. Athugið að ráðstefnugjald er ekkert fyrir félagsmenn í samtökunum. Á ráðstefnunni verða ræddar þær leiðir sem kennarar og annað fagfólk í skólum getur farið til starfsþróunar – einkum það sem vel hefur gefist!

Heiðursgestur ráðstefnunnar er dr. Hafþór Guðjónsson. Hafþór er fyrrverandi dósent við Menntavísindasvið HÍ og hefur verið brautryðjandi í innleiðingu starfenda- og kennararannsókna í skólum hér á landi. Hann hefur skrifað fjölda pistla í Skólaþræði sem mikla athygli hafa vakið. Hafþór flytur aðalerindi ráðstefnunnar og fjallar þar um mikilvægi sjálfsrýni í kennararannsóknum.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og skráning á þessari slóð: http://skolathroun.is/starfsthroun-kennara-hvar-eru-taekifaerin/

Samkomulag um Íslensku menntaverðlaunin undirritað á Bessastöðum 5. nóvember nk.

Nú hefur endanlega verið ákveðið að efna til Íslenskra menntaverðlauna að nýju, en þau voru upphaflega stofnuð af Ólafi Ragnari Grímssyni árið 2005, en lögðust síðar af í kjölfar hrunsins og voru síðast veitt 2010. Fjölmargir aðilar koma að þessu verkefni en forsetaembættið leggur til umgjörðina, m.a. verðlaunagripina, auk annars stuðnings, mennta- og menningarráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytin og fleiri aðilar veita fjárstyrki og samstarfsaðilar vinna saman að framkvæmd.

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi og auka veg menntaumbótastarfs. Verðlaunin verða veitt í þremur flokkum. Ein verðlaun verða veitt skóla eða annarri menntastofnun fyrir framúrskarandi starf. Í annan stað verða kennara sem stuðlað hefur að framúrskarandi menntaumbótum veitt verðlaun. Þriðju verðlaunin verða veitt þróunarverkefni á sviði menntunar sem stenst ítrustu gæðakröfur. Að auki verður veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem lagt hafa af mörkum við að stuðla að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.

Guðni Th. Jóhannesson hefur skipað Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur, skáld og rithöfund, formann viðurkenningarráðs, sem halda mun utan um framkvæmd verðlaunaveitinganna.

Samstarfsaðilar munu undirrita samkomulag um verðlaunin á Bessastöðum þann 5. nóvember nk. Auk Embættis forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytis og samgöngu- og sveitar-stjórnarráðuneytis, koma að verkefninu Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.

Leave a Reply