Viðurkenning fyrir framúrskarandi menntaumbótastarf

Stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun hefur að undanförnu, í samvinnu við fjölmarga aðila, unnið að því að koma á fót viðurkenningu fyrir framúrskarandi menntaumbætur. Þegar ljóst varð að mikill áhugi var á þessu máli var neðangreint erindi sent til menntamálaráðherra.

Til mennta- og menningarmálaráðherra

Erindi: Ósk um stuðning við árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi  menntaumbætur

Á árunum 2005 til 2010 veitti forseti Íslands verðlaun sem kennd voru við embættið. Verðlaunin voru veitt grunnskóla, námsefnishöfundi og tveimur grunnskólakennurum, öðrum ungum en hinum við starfslok. Verðlaunin voru styrkt af sparisjóðunum en lögðust af í kjölfar hrunsins þegar ekki fannst nýr bakhjarl. Mörgum var eftirsjá að þessum verðlaunum, enda var vel að þeim staðið og þau vöktu athygli á góðu skólastarfi.

Að undanförnu hafa fulltrúar nokkurra stofnana og félaga sem starfa á sviði menntamála hist til að ræða möguleika á að efna til nýrra verðlauna eða árlegrar viðurkenningar fyrir framúrskarandi  menntaumbótastarf. Kannað hefur verið hvort forsetaembættið hefði áhuga á að endurreisa Íslensku menntaverðlaunin eða stofna til nýrra, en ekki munu vera tök á því, en áhugi á að styðja við sambærilegan viðburð.

Hugmynd hópsins er að veitt verði árleg viðurkenning í tveimur flokkum:

 1. Framúrskarandi menntaumbætur: Ein viðurkenning veitt stofnun, félagasamtökum, hópi eða einstaklingi sem lagt hefðu af mörkum við að stuðla að menntun sem þykir skara fram úr.
 2. Framúrskarandi þróunarverkefni: Allt að fjórar viðurkenningar, ein fyrir hvert af fyrstu þremur skólastigunum og ein sem tengist frístundastarfi eða öðru starfi með börnum og ungmennum sem hefur ótvírætt uppeldis- og menntagildi.

Með þessu erindi beinum við þeirri fyrirspurn til mennta- og menningarmálaráðherra hvort til greina komi að ráðherra eða ráðuneytið standi að viðburði sem þessum eða styrki hann. Í fylgiskjali eru drög að samkomulagi sem lýsir hugmyndinni nánar. Á síðasta fundi var ákveðið, áður en lengra yrði haldið, að kanna hvort áhugi væri á því að mennta- og menningarmála­ráðuneytið myndi veita þessu verkefni fulltingi sitt.

Neðangreindar stofnanir og félagasamtök hafa komið að undirbúningi þessa máls og hafa lýst áhuga á að leggja því lið með einhverjum hætti. Lokaákvarðanir um það yrðu teknar við áframhaldandi mótun hugmyndarinnar.

Við erum að sjálfsögðu reiðubúin til að veita allar þær upplýsingar sem eftir kann að verða óskað.

Fyrir hönd hópsins,

Þrúður Hjelm
formaður Samtaka áhugafólks um skólaþróun

 

Eftirtaldar stofnanir og samtök hafa átt fulltrúa í undirbúningshópi:

 • Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa
 • Félag um menntarannsóknir
 • Kennaradeild Háskólans á Akureyri
 • Kennarasamband Íslands
 • Mennta- og menningarmálaráðuneyti
 • Menntamálastofnun
 • Menntavísindasvið Háskóla Íslands
 • Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri
 • Samband íslenskra sveitarfélaga
 • Samtök áhugafólks um skólaþróun
 • Sprotasjóður

Fylgiskjal

Samkomulag um árlegar viðurkenningar fyrir framúrskarandi menntaumbætur og þróunarverkefni á vettvangi skóla- og frístundastarfs

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Grunnur, félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Félag um menntarannsóknir, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Sprotasjóður hafa gert með sér samkomulag um að stofna til árlegra viðurkenninga fyrir framúrskarandi skóla- eða annað menntaumbótastarf.

Samkomulag þetta er til þriggja ára.

Markmið viðurkenninganna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi. Stefnt er að því að veita viðurkenningarnar ár hvert og skulu þær bera ártal þess. Viðurkenningarnar eru veittar í tveimur aðalflokkum:

 1. Framúrskarandi menntaumbætur. Ein viðurkenning er veitt í þessum flokki.

Viðurkenning fyrir framúrskarandi menntaumbótastarf er veitt stofnun, félagasamtökum, hópi eða einstaklingi sem lagt hefur af mörkum við að stuðla að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.

 1. Framúrskarandi þróunarverkefni. Allt að 4 viðurkenningar eru veittar í þessum flokki, ein fyrir hvert af fyrstu þremur skólastigunum og ein sem tengist frístundastarfi eða öðru starfi með börnum og ungmennum sem hefur ótvírætt uppeldisgildi.

Viðurkenningar fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veittar verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu.

Framkvæmd

Skipan viðurkenningarráðs

Þeir aðilar sem standa að viðurkenningunum tilnefna hver um sig einn fulltrúa í viðurkenningarráð til þriggja ára. Hver aðili ber kostnað af fulltrúa sínum.

Starfsreglur

Ráðið hefur heimild til að setja sér nánari starfsreglur.

Umsýsla 

Kannað verður hvort einn af aðstandendum viðurkenningarnar getur tekið að sér umsýslu verkefnisins.

Tilnefningar

Fyrir 15. mars ár hvert auglýsir viðurkenningarráð eftir tilnefningum til viðurkenninganna. Tilnefningar skulu berast fyrir 1. júní ár hvert. Ráðinu er einnig heimilt að hafa frumkvæði að því að afla sér upplýsinga um starf eða verkefni sem til greina koma.

Tilnefningum fyrir framúrskarandi menntaumbætur í A-flokki skal fylgja skriflegur rökstuðningur.

Tilnefningum um þróunarverkefni í B-flokki skulu fylgja gögn sem gera kleift að leggja faglegt mat á verkefnið (skýrslur, vefsíður, kvikmyndir, greinar).

Sama verk má ekki tilnefna til viðurkenningar í báðum flokkum.

Val

Viðurkenningarráð velur þrjár til fimm tilnefningar í A-flokki og þrjár til fimm tilnefningar í hverjum undirflokki í B-flokki til kynningar á alþjóðadegi kennara 5. október. Viðurkenningarráði er heimilt að skipta með sér verkum við mat á tilnefningum og leita utanaðkomandi umsagna eða ráðgjafar, enda sé um það trúnaður. Minnst fimm manns skulu koma að mati á viðurkenningum í hvorum flokki og skal þess gætt að kynjahlutföll séu sem jöfnust og að viðurkenningarnar tengist ekki hagsmunum þeirra sem að matinu koma.

Forsendur

Við það er miðað að það starf eða verkefni sem viðurkenningu hlýtur geti fengið hana á mismunandi forsendum. Nefna má umbótastarf í samræmi við grunnþætti menntunar eða lykilhæfni (sbr. Aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla), starf í anda menntunar fyrir alla, áhugaverð nýmæli, skapandi starf, nýsköpunarstarf, menntun til framtíðar eða árangursríkt samstarf.

Afhending viðurkenninga

Stefnt er að því að veita viðurkenningarnar við hátíðlega athöfn í nóvember ár hvert í skóla eða öðrum viðeigandi stað.

Kynning

Samstarfsaðilar skuldbinda sig til þess að kynna viðurkenningarnar með fréttaflutningi í samfélagsmiðlum, fundum, ráðstefnum eða með öðrum hætti. Stefnt verður að því að koma upp sérstakri vefsíðu fyrir viðurkenningarnar. Leitað verður til fjölmiðla um að kynna viðburðinn og þær menntaumbætur og skólaþróunarverkefni sem viðurkenningu hljóta hverju sinni.

Leave a Reply