Aðalfundur Samtaka áhugafólks um skólaþróun 2021

Fundurinn var haldinn mánudaginn, 8. nóvember 2021

Fundurinn var haldinn á Hilton Reykjavík Nordica. Fundinn sóttu 36 félagsmenn. Hluti fundarmanna sótti fundinn í gegnum fjarfundabúnað.

Dagskrá og afgreiðsla

1. Fundarsetning

Formaður samtakanna, Hulda Dögg Proppé, setti fundinn.

2. Kosning starfsmanna fundarins, fundarstjóra og fundarritara

Haraldur Axel Einarsson var kosinn fundarstjóri og Ingvar Sigurgeirsson fundarritari. Haraldur Axel útskýrði fyrirkomulag í ljósi þess að fundurinn var hvort tveggja stað- og fjarfundur.

3. Skýrsla stjórnar fyrir síðustu tvö ár kynnt og rædd

Hulda Dögg Proppé, formaður samtakanna, gerði grein fyrir skýrslu stjórnar, sjá hér. Niðurlagsorð hennar voru þessi:

Við, sem setjum skólaþróun á oddinn, getum ekki annað en glaðst yfir þeirri grósku sem skólasamfélagið hefur sýnt undanfarin misseri. Í lifandi samfélagi geta auðveldlega skapast aðstæður sem setja allt úr skorðum, þó það sé blessunarlega langt síðan við á Íslandi upplifðum slíka tíma. Það hefur verið lærdómsríkt að horfa á kennara þessa lands, sama hvaða aldri þeir kenna, takast á við þær breytingar sem nauðsynlegar voru, börnunum til heilla. Skólafólk hikaði ekki við að taka höndum saman, deila hugmyndum og aðferðum, og mynda heild sem hvaða starfsstétt sem er væri stolt af. Við ættum þegar um hægist á vettvangi að reyna að fá sem mest af greinum þessu tengdu inn í Skólaþræði því það er mikilvægt að halda utan um það góða sem við lærðum og nýta það áfram sem stökkpall fyrir aðrar hugmyndir og verkefni. Krafturinn, eljan og samstaðan mun vonandi færa okkur ný tækifæri svo kennarar þessa lands haldi áfram að þroskast og börnin okkar njóti góðs af.

4. Endurskoðaðir reikningar fyrir síðustu tvö ár kynntir og afgreiddir

Ómar Örn Magnússon, gjaldkeri, gerði grein fyrir reikningum félagsins, sjá hér, og voru þeir samþykktir. Félagið stendur mjög vel fjárhagslega eins og sjá má af reikningum. Árangurinn má m.a. þakka sjálfboðastarfi, þ.m.t. sparnaði við innheimtukostnað.

5. Starfsáætlun til tveggja ára og langtíma stefnumörkun

Sú hefð hefur skapast að færa þennan lið undir önnur mál og var það samþykkt.

6. Lagabreytingar kynntar, ræddar og afgreiddar

Ingvar Sigurgeirsson, ritari, gerði grein fyrir tillögum um lagabreytingar, sjá hér. Lagabreytingarnar voru allar samþykktar nema fellt var, eftir talsverðar umræður, að breyta nafni félagsins. Vógu þar þungt þau sjónarmið að ekki væri gott að taka áhugafólk út úr nafninu.

7. Tillaga að árgjaldi kynnt, rædd og afgreidd.

Ómar Örn Magnússon, gjaldkeri, gerði grein tillögu stjórnar um óbreytt árgjald og var það samþykkt.

8. Ályktanir kynntar, ræddar og afgreiddar.

Engar ályktanir lágu fyrir fundinum.

9. Kosningar

a)  Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein.

Fráfarandi stjórn gaf öll kost á sér og var endurkjörin.

 • Aðalheiður Stefánsdóttir, leikskólastjóri, leikskólanum Reynisholti
 • Bryndís Jóna Magnúsdóttir, skólastjóri Heiðarskóla
 • Hulda Dögg Proppé, kennari við Sæmundarskóla og Háskóla Íslands
 • Ingvar Sigurgeirsson, skólaráðgjafi
 • Ómar Örn Magnússon, kennari við Hagaskóla og Háskóla Íslands
 • Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor við Háskóla Íslands
 • Þrúður Hjelm, skólastjóri Krikaskóla

b)  Kosning uppstillinganefndar.

Uppstillingarnefnd gaf kost á sér áfram og var samþykkt:

 • Ármann Halldórsson, framhaldsskólakennari, Verzlunarskóla Íslands
 • Haraldur Axel Einarsson, grunnskólafulltrúi, Reykjanesbæ
 • Lena Sólborg Valgarðsdóttir aðstoðarleikskólastjóri, Miðborg

c)  Kosning tveggja félagslegra endurskoðenda.

Birgir Edwald og Jónína Ágústsdóttir gáfu ekki kost á sér áfram og voru þeim þökkuð vönduð störf fyrir samtökin. Nýir endurskoðendur voru kosnir:

 • Sigríður Valdimarsdóttir, aðstoðarskólastjóri Austurbæjarskóla
 • Guðný Helga Gunnarsdóttir, fv. lektor við Háskóla Íslands

d) Kosning ritstjórnar fyrir vefrit félagsins. Kjósa skal að lágmarki fimm manna ritstjórn.

Úr ritstjórn gekk Valgerður Bjarnadóttir. Aðrir ritstjórnarmenn gáfu kost á sér áfram:

 • Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnt, Háskóla Íslands
 • Inga Mjöll Harðardóttir, grunnskólakennari, Hagaskóla
 • Ingvar Sigurgeirsson, prófessor emiritus, Háskóla Íslands
 • Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Hafnarfjarðarbæ

Ný í ritstjórn er Þórunn Blöndal, málfræðingur og fv. dósent við Háskóla Íslands.

e. Samkvæmt nýjum lögum átti að kjósa umsjónarhóp með kynningarstarfi á samfélagsmiðlum

Kjósa þarf að lágmarki þriggja manna hóp, einn af hverju skólastigi. Þessi gáfu kost á sér og voru kosin:

 • Ármann Halldórsson, kennari við Verzlunarskóla Íslands
 • Fjóla Þorvaldsdóttir, verkefnisstjóri sérkennslu á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.
 • Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands (Ragnar mun ganga til liðs við hópinn þegar hann hefur látið af störfum hjá KÍ).
 • Ingvar Sigurgeirsson, ritari samtakanna, mun vinna með hópnum.

10. Önnur mál

 1. Íslensku menntaverðlaunin verða afhent í vikunni. Samtökin hafa umsjón með verðlaununum í samstarfi við 12 aðra aðila. Hafþór Guðjónsson, fv. dósent við Háskóla Íslands, er fulltrúi samtakanna í viðurkenningarráði. Ritari samtakanna og gjaldkeri vinna einnig við verðlaunin. Sjá nánar um verðlaunin á þessari slóð: https://skolathroun.is/menntaverdlaun/
 2. Stefnumótun í menntamálum til 2030. Hvað geta samtökin lagt af mörkum?
  Gestir fundarins voru þau Donata H. Bukowska og Ingvi Hrannar Ómarsson, sérfræðingar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, en þau hafa tekið að sér að fylgja eftir menntastefnu til 2030. Donata og Ingvi Hrannar höfðu inngang að samræðunni, sjá hér. Ræddu þau einkum áætlanir um stuðning við skólaþróun og fjölmenningarkennslu í fyrstu aðgerðaáætlun, sjá hér. Vonir standa til að talsverðum fjármunum verði veitt til skólanna til þróunarstarfs og nýsköpunar. Fram kom að Sprotasjóður mun starfa áfram og verða fjárveitingar til hans auknar. Donata og Ingvi Hrannar leggja mikla áherslu á að starfa sem mest með skólafólki á vettvangi. Líflegar umræður urðu um stefnumörkunina og möguleika skólaþróunarsamtakanna til að leggja af mörkum. Meðal annars var bent á að samtökin gætu stuðlað að gerð kynningarefnis um þróunarverkefni og miðlað því. Eins gætu þau veitt styrki til verkefna.

3. Ármann Halldórsson vakti athygli á verkefninu Norður-Atlantshafsbekkurinn (Nord-Atlantisk gymnasiumklasse), NGK, sjá hér.

4. Starfsáætlun til tveggja ára og langtíma stefnumörkun. Vísað til stjórnar.

11. Fundarslit

Hulda Dögg Proppé, formaður samtakanna, sleit fundi og þakkaði fundarmönnum góða samræðu.

Scroll to Top