Allegro – Suzuki tónlistarskóli

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Allegro – Suzuki tónlistarskóli 

fyrir einstakan metnað og árangur í tónlistarstarfi

Skólinn var stofnaður árið 1998 af foreldrum og kennurum og þar fer fram tónlistarkennsla með Suzuki-aðferðinni fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri. Suzuki-aðferðin byggir á nánu samstarfi foreldra, barna og kennara og í skólanum er rík áhersla á foreldrasamstarf og samvinnu. Gæði einkenna starf skólans og kennarahópurinn er skipaður fagmönnum. Nemendur skólans fá markvissan stuðning við að koma fram og njóta samspils í hópi jafningja og fyrir foreldra og fjölskyldur. Í skólanum er lögð áhersla á það veganesti að öll börn geti náð markmiðum sínum ef unnið er stöðugt að þeim, hvort sem þau hafi tónlist að aðalstarfi síðar meir eða ekki. 

Úr umsögnum um skólann: 

Nemendur Allegro fá gott veganesti út í lífið, t.d. að læra að það geta allir náð takmarki sínu ef unnið er stöðugt að því og það skilar sér í allt sem nemendurnir taka sér fyrir hendur seinna á lífsleiðinni. Það er ekki markmið skólans að allir nemendur verði atvinnutónlistarfólk en lögð áhersla á góðan grunn ef þau skyldu kjósa það. 

Margir nemendur skólans hafa náð afbragðs góðum árangri í tónlist og hefur árangur nemenda Allegro í grunn- og miðprófi í hljóðfæraleik alltaf verið fyrir ofan landsmeðaltal. Allegro hefur unnið til fjölmargra verðlauna í tónlistarkeppnum, t.a.m. í Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna, og í píanókeppni EPTA. Nemendur úr Allegro hafa skilað sér vel í framhaldsnám og hafa fiðlunemendur úr Allegro verið meira en helmingur allra fiðlunemenda í Menntaskóla í tónlist (MÍT) þrátt fyrir smæð skólans. Fyrrum nemendur Allegro hafa farið áfram í fjölbreytt tónlistarstörf, t.d. hjá Íslensku óperunni, Sinfóníuhljómsveit Íslands, tónlistarkennslu, tónsmíðar og meira að segja tekið þátt í Eurovision. Það má því með sanni segja að nemendur úr skólanum hafi í áraraðir auðgað tónlistar- og menningarlíf landsins, þrátt fyrir að skólinn sé lítill og fjármagn af skornum skammti.

Metnaður og virðing, ásamt hlýju og kærleika eru mikilvæg gildi í starfi Allegro. Allegro er lítill skóli og því vel haldið utan um nemendur, kennslan er persónuleg og engin/nn týnist í fjöldanum.