Anna Gréta Guðmundsdóttir

Framúrskarandi kennari

Anna Gréta Guðmundsdóttir, kennari við leikskólann Sæborg, er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2021 fyrir skapandi og lýðræðislegt leikskólastarf.

 

Anna Gréta er leikskólakennari við leikskólann Sæborg. Hún er fyrsti nemandinn sem útskrifast úr nýju námi við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Anna Gréta hefur djúpa þekkingu á skapandi starfi og uppeldisfræðilegum skráningum sem birtast í námsbók hvers barns í Sæborg. Hún hefur leitað eftir hugmyndum barna um gildi skráninganna fyrir börnin, hvað þau telja mikilvægt að sé skráð og hvernig megi bæta skráningar í námsbókum út frá viðhorfi þeirra. Til Önnu Grétu er oft leitað til að halda fyrirlestra og námskeið fyrir starfsfólk leikskóla. Hún er frábær fyrirmynd sem deilir með samstarfsfólki sínu þeirri þekkingu og reynslu sem hún býr yfir. Anna Gréta var nýverið ráðin í hlutastarf sem leiðtogi við Menntavísindasvið þar sem hún mun koma að kennslu leikskólakennaranema og þróun námsins.

Úr umsögn sem fylgdi tilnefningu:

Anna Gréta hefur fagleg sjónarmið í forgrunni í öllu sínu starfi. Hún er með næmt listrænt auga og hefur góða skipulagshæfni. Hún hefur verið listasmiðjustjóri í Sæborg lengi og ber listasmiðjan mikil merki um fagurfræðilega hugsun hennar. Allir hlutir eru settir fram á mjög heillandi og fallegan hátt og þar vilja allir dvelja og vinna. Anna Gréta hefur einstakt lag á börnum og virðist draga það besta fram í öllum Hún gefur hverju og einu barni tíma og hefur einstakt lag á að mæta hverju barni þar sem það er statt. Hún ber mikla virðingu fyrir einstaklingnum og er lagin við að taka eftir og skynja þarfir hvers og eins.

Hjarta Önnu Grétu liggur í listasmiðjunni og að tengja listasmiðjuna við alla anga í starfi leikskólans. Hún hefur djúpa þekkingu á starfi í anda Reggio Emilia og það endurspegla verkefnin og starf hennar sem hún vinnur með börnunum í Sæborg.  Hún hefur gott auga á að finna hluti i umhverfinu sem hægt er að nýta til listsköpunar með börnum. Hún hefur byggt upp einstaka efnisveitu í Sæborg sem við njótum öll góðs af börn og starfsfólk.

 

Scroll to Top