Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022
Ásta Kristjana Guðjónsdóttir, kennari við Reykholtsskóla í Bláskógabyggð
Ásta Kristjana Guðjónsdóttir, kennari við Reykholtsskóla í Bláskógabyggð, er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2022 fyrir framúrskarandi árangur við að einstaklingsmiða kennslu og koma til móts við nemendur með fjölbreyttar þarfir
Ásta lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1990, diplómunámi í tölvu og upplýsingatækni frá sama skóla 2003. Síðan sneri hún sér að sérkennslufræðum og lauk meistaragráðu á því sviði 2009. Hún hefur kennt í Reykholtskóla frá 2014, en hafði áður kennt við skóla víða um land, auk ritstjórnarvinnu hjá Námsgagnastofnun. Ásta hefur verið ötul við að sækja sér endurmenntun á mörgum sviðum og hefur unnið að margþættum þróunarverkefnum, einkum verkefnum sem tengjast upplýsingatækni í skólastarfi. Undanfarin ár hefur hún unnið að innleiðingu upplýsingatækni í Reykholtsskóla með það að markmiði að auðvelda nemendum aðgengi að verkfærum sem stuðla að fjölbreyttari námsleiðum og verkefnaskilum. Ásta hefur haldið fyrirlestra og námskeið fyrir kennara um tölvu- og snjalltækni í skólastarfi.
Í kennslu sinni leggur Ásta áherslu á að koma til móts við námsþarfir nemanda sinna með því að nýta snjalltæknina. Nemendur vinna fjölbreytt verkefni, ýmist með því að hlusta eða lesa, skrifa eða taka upp. „Gamla vinnubókin verður þannig að lifandi plaggi með texta, hljóði, upptöku, litum og myndum, stílabókin í Book Creator appinu með hljóði og myndskeiðum, borgir verða til í Minecraft og í náttúrufræðinni ganga risaeðlur um stofuna með AR appinu.“
Í umsögn um Ástu sagði m.a.:
Á meðan aðrir kennarar hvíla sig á striti hversdagsins situr Ásta við og kynnir sér nýjustu kennsluöppin, les greinar um nýjar rannsóknir um lestrarnám og lestrarhamlanir eða æfir sig við tæknilegar lausnir sem koma henni að gagni í starfinu. Ástríða hennar fyrir starfinu og ákveðni hennar í því að finna aðferðir sem virka fyrir hvert og eitt barn svo það geti tileinkað sér nám og nýja þekkingu er aðdáunarverð. Fagmennskan er í fyrirrúmi; nærgætni, þolinmæði og skilningur á leshömlun, hegðunarröskununum og tilfinningavanda eða hverju sem veldur námserfiðleikunum.