Íslensku menntaverðlaunin 2022
Átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar
Þróunarverkefni sem beinist að því að efla jákvæð og virk tengsl skóla og samfélags, þekkingu nemenda á heimabyggð sinni og auka fjölbreytni í námi
Átthagafræðin hefur verið viðfangsefni í skólastarfi Grunnskóla Snæfellsbæjar frá árinu 2009. Hugmyndin kviknaði þegar unnið var að skólastefnu Grunnskóla Snæfellsbæjar með aðkomu skólafólks og bæjarbúa. Í kjölfar þeirrar vinnu var áhugi meðal starfsfólks skólans að auka þekkingu nemenda á heimabyggð sinni og í framhaldi af því leit átthagafræðin dagsins ljós.
Skólinn fékk styrk úr Vonarsjóði árið 2009 til að vinna að gerð námskrárinnar og tilraunaútgáfa hennar kom út í janúar 2010. Námskráin hefur síðan verið í stöðugri þróun.
Í átthagafræði er unnið með fræðslu um grenndarsamfélagið þar sem lykilþættirnir eru náttúra, landafræði og saga bæjarins. Áhersla er lögð á vettvangsferðir, kynningar, viðtöl, miðlun, tjáningu, samvinnu, sköpun og upplifun. Þá fá nemendur tækifæri til að kynnast samfélagi nútímans og þeim möguleikum sem þar búa til framtíðar.
Í upphafi ársins 2021 var tekin ákvörðun um formlegt samstarf milli skólans og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls í verkefnum sem tengjast þjóðgarðinum, sjá hér.
Við skólann starfar þróunarteymi sem heldur utan um námskrána ásamt skipulagi og framvindu verkefna ásamt því að birta efni á heimasíðu átthagafræðinnar. Kennarar vinna greinargerð um nálgun og framkvæmd verkefna hverju sinni og þannig verður til verkefnasafn sem er kennurum skólans aðgengilegt.
Námskrá í átthagafræði er fjölbreytt og gefur möguleika á ólíkum útfærslum og uppbroti í kennslu og eru verkefni nemenda tengd hæfniviðmiðum aðalnámskrá grunnskóla.
Markmið átthagafræðinnar er að við lok grunnskóla hafi nemendur okkar öðlast góða þekkingu og fengið að upplifa einstaka náttúru og mannlíf í heimabyggð sinni.
Úr umsögn með tilnefningu:
Verkefnið er frumkvöðlaverkefni sem tekur mið af náttúruvernd, umhverfi og hvetur nemendur til að þekkja heimabyggð sína og vera meðvitaðri um sitt nærumhverfi. Námið gefur möguleika á uppbroti hefðbundins náms með sérstaka áherslu á upplifun sem lykilþátt í náminu. Auk þessa er auðvelt að aðlaga námið að styrkleikum hvers nemanda.
Að þekkja heimahaga sína er mikilvægur þáttur í uppeldi barna. Börnin læra að bera virðingu fyrir náttúrunni og sínu svæði. Kennarar geta nýtt sér frumlegar kennsluaðferðir og sköpun við vinnslu á námsþáttum.
Vettvangsferðir eru stór þáttur í átthagafræðináminu og þannig er lagt mikið uppúr virkum og jákvæðum samskiptum og hefur námið leitt til aukins samstarf við félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga í Snæfellsbæ.
Átthagafræðin í Grunnskóla Snæfellsbæjar er eitt af því sem Snæfellingar eru hvað stoltastir af. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, Svæðisgarðurinn Snæfellsnes (www.snæfellsnes.is) og umhverfisvottun Snæfellsness (nesvottun.is) eru dæmi um verkefni á Snæfellsnesi, sem í gegn um átthagafræðina, er hægt að kynna vel fyrir nemendum, öllum í hag.
Heimasíða átthagafræðinnar er á þessari slóð: https://www.atthagar.is/
Aðrar heimildir um átthagafræðina:
Svanborg Tryggvadóttir. (2018). Að kynnast umhverfi sínu – átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar. Skólaþræðir – Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2018/04/20/atthagafraedi-i-grunnskola-snaefellsbaejar/
Ingvar Sigurgeirsson í samstarfi við Rósu Erlendsdóttur. (2020). Þegar nemendur leggja af mörkum til samfélagsins … Skólaþræðir – Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathraedir.is/2020/04/18/thegar-nemendur-leggja-af-morkum-til-samfelagsins/