Austur – Vestur: Sköpunarsmiðjur

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2021:

Austur – Vestur: Sköpunarsmiðjur: Þróunarverkefni í Ingunnarskóla, Selásskóla og Vesturbæjarskóla sem beinist að því að efla skapandi hugsun, frumkvæði og nýsköpun

Í Ingunnarskóla, Vesturbæjarskóla og Selásskóla hefur verið unnið að því að koma á fót sköpunarsmiðjum (e. makerspaces) þar sem nemendur og kennarar geta notað ímyndunaraflið, verið forvitnir, uppgötvað, leikið sér og tekist á við ýmsar áskoranir sem tengjast tækni og hugviti, stærðfræði, tungumálum, listsköpun og þemavinnu. Sköpunarsmiðjur byggja á sköpunarmenningu (e. maker culture) sem verið er að innleiða í allt skólastarfið.

Tilgangur verkefnisins er að beina athyglinni að aukinni þörf fyrir sköpun og tækni í skólastarfi, tengslum náms við samfélagið, breytingastarfi og því hvernig skólinn fer að því að mæta í verki ákalli um nútímalegt og uppbyggilegt skólastarf.

Markmiðið er að auka víðsýni og þekkingu nemenda á fjölbreyttum tækifærum sem kunna að bíða þeirra og skapa vettvang fyrir nemendur til að prófa og takast á við margbreytileg viðfangsefni sem reyna á hæfni þeirra og hugvit.

Verkefnið fellur vel að áherslum Aðalnámskrár grunnskóla á sköpun, lykilhæfni og markmiðum Menntastefnu Reykjavíkur um skapandi hug og hönd.

Verkefnið hefur haft mikil áhrif á skólastarfið í skólunum þremur og stuðlað að uppbyggingu lærdómssamfélags sem hvetur til virkni og þátttöku nemenda og fagmennsku og samstarfs kennara í hringferli stöðugra umbóta og þróunar. Vel hefur tekist að kynna möguleika tengda sköpunar- og tæknismiðjum í námi og kennslu og vekja áhuga kennara á að nýta þá með ýmsu móti. Kennarar móta kennsluhugmyndir og nám með skapandi kennsluaðferðum og tækni.

Margir kennarar hafa lýst ánægju sinni með verkefnið eins og ummæli þessara kennara sýna:

 Það sem þetta verkefni gerir fyrir mig að ég prófa ýmsa hluti með nemendum sem ég hefði annars ekki gert. Ég fæ tækifæri til að sjá hvað aðrir skólar eru að gera í upplýsingatækni og fæ að prófa ýmislegt á menntabúðunum sem ég hefði annars ekki skoðað.

Við getum ekki þakkað nógsamlega fyrir þetta verkefni. Það hefur svo sannarlega fengið okkur til að prófa ýmis tæki og tól tengd upplýsingatækni sem við hefðum ekki annars prófað og ekki hugsað út í að gæti nýst yngsta stiginu við kennslu (sem námstæki).

Heimasíða verkefnisins: https://sites.google.com/rvkskolar.is/austurvestur/heim

Rannsóknarstofa um upplýsingatækni og miðlun (RANNUM) og Rannsóknarstofa um skapandi skólastarf (RASK) á Menntavísindasviði hafa rannsakað verkefnið, sjá um það hér.

 

Scroll to Top