Birte Harksen

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2020

Framúrskarandi kennari

Birte Harksen, kennari við Heilsuleikskólann Urðarhól í Kópavogi, fékk Íslensku menntaverðlaunin 2020, fyrir framúrskarandi kennslu og frumkvæði við að efla skapandi og leikmiðaða starfshætti í leikskólum með vefsvæðunum Börn og tónlist, Leik að bókum og Stafagaldur.

 

Birte Harksen er leik- og grunnskólakennari að mennt. Hún hefur starfað í leikskóla síðan hún flutti til Íslands frá Danmörku árið 2000. Undanfarin ár hefur hún sérhæft sig í tónlistarstarfi í Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi, en þar er hún fagstjóri í tónlist. Birte hefur haldið fjölmörg tónlistarnámskeið fyrir leikskólakennara og átt frumkvæði að mörgum þróunarverkefnum, auk þess að gefa út tónlistarefni. Hún er kunn fyrir opin vefsvæði sem hún hefur þróað:

Í umsögn um kennslu Birte segir samstarfsmaður hennar meðal annars:

Birte er ávallt með það að leiðarljósi að efla og kenna leikskólabörnum í gegnum leik, tónlist og sköpun. Hún er með óþrjótandi hugmyndir að útfærslum að námsefni sem hún býr til úr allskyns verðlausu og endurvinnanlegu efni. Hún nær að kveikja áhuga barnanna á efninu með því að gefa sig alla í kennsluna. Hún hefur sjálf mikinn metnað fyrir að gera vel og gefur sig alla í starfið svo geislar af henni og best sést það í að börnin laðast að kennsluaðferðum hennar. Hún er óeigingjörn á efni sitt sem hún miðlar til annarra kennara með opnum netsíðum og ávallt fús til að hjálpa til við að innleiða efnið í aðra leikskóla.

ÍSLENSKU MENNTAVERÐLAUNIN