Bungubrekka, frístundamiðstöð Hveragerðisbæjar

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2023

Bungubrekka, frístundamiðstöð Hveragerðisbæjar 

fyrir fagmennsku í frístundastarfi, metnaðarfulla innleiðingu á gæðaviðmiðum og miðlun á starfi sínu innan sem utan Hveragerðis  

Frístundamiðstöðin Bungubrekka hefur yfirumsjón með frístundastarfi í Hveragerði. Þar má nefna frístundaheimilið Brekkubæ, sem er þjónusta fyrir börn í 1.-4. bekk grunnskólans, félagsmiðstöðina Skjálftaskjól, sem er þjónusta fyrir börn og unglinga í 5.-10. bekk, Rafíþróttaklúbbinn C3LL4R sem býður upp á skipulagt rafíþróttastarf og auk þess er skipulagt frístundastarf yfir sumartímann fyrir fjölbreytta aldurshópa; sumarnámskeið, viðburði og vinnuskóla.

Sérstaða Bungubrekku er áhersla frístundamiðstöðvarinnar á innra mat og starfshætti sem miða að virkri innleiðingu á gæðaviðmiðum stjórnvalda um framúrskarandi fagstarf frístundaheimila. Í sameiginlegri vinnu sveitarfélagsins um innra mat, sem unnin var þvert á leik-, grunnskóla og frístundastarf sýndi Bungubrekka frumkvæði til að bæta starfið út frá skýrum markmiðum og ferlum. Bungubrekka miðlar markvisst umbótastarfi sínu til foreldra og samfélagsins í Hveragerði, nýtir til þess viðhorfskannanir og önnur gögn sem varpa ljósi á fagstarfið og þátttöku barna og unglinga. Bungubrekka hefur verið leiðandi á landsvísu í eflingu gæðastarfs og fagmennsku og miðlað til frístundavettvangsins af örlæti sínum starfsháttum.

Frístundamiðstöðin býður börnum og ungmennum upp á afar vandaða dagskrá sem skipulögð er í lýðræðislegu ferli, þar sem tillit er tekið til fjölbreytileika og áhugasviðs ólíkra hópa barna og ungmenna. Þessi listi yfir viðburði sem börnum og ungmennum hefur staðið til boða undanfarin misseri gefur hugmynd um fjölbreytnina: Kósý-kvöld, kahoot-kvöld, pylsupartý, hoppukastali, útivera, götuskreytingar, ævintýrafrístund, ratleikir, rafíþróttaklúbbur, sundlaugarpartí, grillveislur, utanvegahjólreiðar, hópíþróttir, jaðaríþróttir, spilakvöld, leikir, spjall, trúnó, skapandi starf, rökræður og smiðjur.

Forstöðumaður frístundamiðstöðvarinnar er Ingimar Guðmundsson, tómstunda- og félagsmálafræðingur og forstöðumaður frístundamála Hveragerðisbæjar.

Í umsögn sem fylgdi tillögu um tilnefningu frístundastarfsins sagði m.a.:

Starfsemin byggir á sterkum grunni gæðaviðmiða um frístundastarf sem hafa verið samtvinnuð með nýstárlegum hætti við skólastefnu bæjarins. Bungubrekka er eflaust ein fárra frístundamiðstöðva á landinu sem heldur úti jafn öflugu innra mati með virkri aðkomu alls starfsfólks auk þess að tryggja aðgengi að matinu og viðmiðum á heimasíðu frístundamiðstöðvarinna … Allt umhverfi frístundamiðstöðvarinnar jafnt innan sem utan er sérlega aðlaðandi og miðað að aldri notenda, barna annars vegar og unglinga og ungmenna hins vegar.

Tenglar:

Scroll to Top