Íslensku menntaverðlaunin 2020
Framúrskarandi skólastarf
Dalskóli fyrir þróun þverfaglegra skapandi kennsluhátta, meðal annars í svokölluðum smiðjum og starfsþróunarverkefni þar sem kennarar rannsaka eigið starf.

Dalskóli í Úlfarsárdal í Reykjavík er um þessar mundir tíu ára. Þar hefur frá upphafi verið lögð rækt við sveigjanlega kennsluhætti, leiðsagnarnám, sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði, skapandi starf og samvinnu nemenda. Áhersla hefur verið lögð á að rækta með börnum ábyrgð á námi sínu og framkomu. Skólanum er lýst sem menningarskóla sem leggur rækt við skemmtilegt og skapandi skólastarf. Tónlistarnámi og frístundastarfi er fléttað inn í starf allra aldurshópa. Einkunnarorð skólans eru Hamingjan er ferðalag. Skólastjóri Dalskóla er Hildur Jóhannesdóttir.
Eitt af einkennum Dalskóla eru svokallaðar smiðjur þar sem nemendur fást með skapandi hætti við þematengd eða þverfagleg viðfangsefni. Þar reynir á hæfni þeirra til þess að leysa vandamál og skapandi og gagnrýna hugsun í anda aðalnámskrár. Byggt er á leitaraðferðum, útikennslu og aðferðum list- og verkgreina, auk þess sem börnin læra í gegnum leik. Efnið er gjarnan tengt samfélags- eða náttúrugreinum og oftast unnið í aldursblönduðum hópum. Sem dæmi um þemu má nefna Ísland áður fyrr, Óravíddir himingeimsins, Stórir og litlir heimar, Vísindin efla og tefla, Ísland – land sem lifir, Læsi í Dalnum og Lestur er bestur. Skýrslur um þetta starf má finna á heimasíðu skólans.
Í Dalskóla hefur verið þróað öflugt lærdómssamfélag starfsfólks sem byggir á þverfaglegu samstarfi þar sem lögð er rækt við að læra í sameiningu. Starfsþróun skólans er meðal annars byggð á starfendarannsóknum, það er rannsóknum kennara og stjórnenda á eigin starfi. Sem dæmi um rannsóknarefni má nefna hvernig betur sé unnt að koma til móts við nemendur í námsvanda, hvaða leiðir henti best til að efla færni í skapandi skrifum, hvernig unnt sé að gera námið merkingarbærara fyrir nemendur, hvernig best sé að meta nám í skapandi greinum eða hvernig sé hægt að bæta tímastjórnun, spurningatækni, hæfnimiðað nám eða samstarf nemenda.
Á hverju vori eru haldnar opnar ráðstefnur í skólanum þar sem allir rannsakendur og rannsóknarteymi gera grein fyrir niðurstöðum rannsókna sinna. Um þetta er hægt að lesa nánar í sjálfsmats- og umbótaætlun skólans.
