Stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun leyfir sér að beina þeirri áskorun til stjórnvalda að Sprotasjóður verði efldur til muna. Sjóðnum er ætlað að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá. Til úthlutunar á næsta ári verða 59 milljónir. Undanfarin ár hefur svipðum upphæðum verið úthlutað eða þær hafa jafnvel farið lækkandi. Sjóðurinn þjónar fyrstu þremur skólastigunum og má því sjá að lítið er til skiptanna.
Þá leyfir stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun sér einnig að benda á mikilvægi þess að Sprotasjóði verði gert kleift að kynna þau verkefni sem sjóðurinn styrkir með öflugri hætti. Stjórninni er kunnugt um að svigrúm Sprotasjóðs til kynningarstarfs er mjög takmarkað. Afar áríðandi er að kynna vel niðurstöður þróunarverkefni svo þau nýtist fleirum en þeim sem styrki hljóta.