Elísabet Ragnarsdóttir

Íslensku menntaverðlaunin 2022

Elísabet Ragnarsdóttir, Leikskólanum Heiðarborg

Elísabet Ragnarsdóttir er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2022 fyrir einstaka fagmennsku við leikskólakennslu.

Elísabet útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands 1987 og hefur síðan starfað við ýmsa leikskóla í Reykjavík. Hún er nú deildarstjóri við leikskólann Heiðarborg þar sem hún hefur starfað síðan 2014. Elísabet hefur verið ötul sækja sér endurmenntun og hefur sótt ókjör námskeiða um fjölbreytt viðfangsefni. Í starfi sínu leggur hún áherslu á frumkvæði, sköpun, sjálfstæð vinnubrögð, valdeflingu barna og að örva forvitni þeirra og áhuga. Hún þykir hafa sérstakt lag á að virkja ímyndunarafl barnanna, veita þeim nýja sýn á fyrirbæri og hvetja þau til að leika sér með ólíka möguleika. Elísabet segir gleðina mikilvægasta í starfinu með börnunum: „Glatt barn er jákvætt, opið, hrifnæmt, áhugasamt, vingjarnlegt og móttækilegra fyrir að læra nýja hluti og hræðist ekki mistök, enda eru þau bara til að læra af.“

Úr umsögnum sem fylgdu tilnefningum:

Sérstakur styrkleiki Elísabetar er að grípa áhuga barnanna og hvetja þau áfram í að rækta hæfileika sína. Hvort sem áhugi barns eða barna er fyrir tækjum, tónlist, sögum eða myndefni nær hún að virkja þann áhuga, vinna áfram með hann  og skapar tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum.

Skapandi starf ræður ríkjum í kringum Elísabetu og alltaf á forsendum og áhuga barnanna. Öll börn fá tækifæri til að njóta styrkleika sinna í návist hennar. Föndur úr verðlausum efnivið verður að ryksugum, flugvélum, jólaþorpi, allt eftir því hverju börnin hafa áhuga þá stundina. Sögur og ljóð vakna til lífsins í leikritum, skuggaleiksýningum eða brúðuleikhúsum. Þegar áhugi og frumkvæði barnanna eru gripin á þann hátt sem Elísabet gerir, eykst námsáhugi þeirra og þau finna að þau hafa eitthvað með nám sitt að segja. Þegar áhugi kviknar á sólkerfinu eða eldgosum, er hann gripinn og unnið er með hann í samverustundum, útiveru, listsköpun, frjálsum leik og hvenær sem tækifæri gefst … Ef erfið atvik koma upp í barnahópnum getur hún tekið á þeim samdægurs með ótrúlegri fagmennsku og frjórri hugsun. Hún grípur bók til að lesa, spinnur sögu, grípur persónubrúðurnar og nýtir námstækifærið um leið og það kemur upp.

Elísabet er frábær í samstarfi …. Hún sér styrk í mannauði skólans, tekur eftir styrkleikum samstarfsfólksins og er dugleg að hvetja og leiðbeina. Hún er frábær fyrirmynd og leiðtogi sem deilir á áreynslulausan hátt með samstarfsfólki sínu þeirri þekkingu og reynslu sem hún býr yfir þannig að allir græða. Hún hefur verið hvatning margra til kennaranáms og er fyrirmynd sem allir vilja læra af. Ég hef heyrt kennaranema hafa á orði að þeir ætli að læra allt sem þeir geta af Lísu á meðan þeir hafa tækifæri til.

Elísabet er fyrirmyndarkennari með einstakan mannskilning. Hún ber ómælda virðingu fyrir samferðafólki sínu á öllum aldri og gefur af sér af fagmennsku, einlægni og gæsku.


Scroll to Top