Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2023
Fiona Elizabeth Oliver kennari við Víkurskóla í Reykjavík
Fiona Elizabeth er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2023 fyrir þróun verkefnamiðaðs náms og leiðsagnarnáms í Víkurskóla.
Fiona er fædd í Kanada en lauk B.Ed- prófi frá Háskóla Íslands 2011 og meistaragráðu 2017. Hún er nú kennari og verkefnisstjóri við Víkurskóla í Reykjavík. Hún hefur tekið virkan þátt í þróun skólans sem nýsköpunarskóla og verið verkefnistjóri um innleiðingu og þróun leiðsagnarnáms, en námsmat er eitt af helstu áhugasviðum hennar. Um þessar mundir leiðbeinir hún á endurmenntunar-námskeiði fyrir kennara á vegum Menntafléttunnar samhliða kennslu.
Fiona hefur náð miklum árangri í kennslu sinni, meðal annars með því að nota aðferðir leiðsagnarnáms sem byggjast á uppbyggjandi leiðsögn, sjálfsmati, hvatningu og fjölbreytileika. Fiona hefur tekið virkan þátt í að móta verkefnamiðað nám í skólanum, m.a. við þróun samþættingarverkefna sem í skólanum eru kennd við Uglur.
Í umsögn sem fylgdi tillögu að tilnefningu Fionu sagði meðal annars:
Fiona er framúrskarandi kennari sem mætir nemendum sínum af virðingu og fagmennsku … Hún er frábær samstarfsfélagi, styðjandi í teymisvinnu, umburðarlynd og hefur smitandi hlátur sem gleður alla sem í kringum hana eru.
Fiona nær vel til nemenda sinna, hefur mikinn metnað fyrir þeirra hönd, er hvetjandi og sér styrkleika hvers nemenda og vinnur með þá. Fiona nýtur mikillar virðingar nemenda sinna og þeir bera traust til hennar, leita til hennar og hún leiðbeinir þeim á jákvæðan og uppbyggjandi hátt í að ná markmiðum sínum.
Úr umsögn nemanda sem fygldi tillögu um tilnefningu: Fiona hefur verið kennarinn minn í 3 ár og ef það er einhver sem á skilið þessi verðlaun þá er það hún fyrir að standa alltaf þétt við bakið á nemendum sínum og sína öllum umburðarlyndi og virðingu.
Sjá einnig:
- Kynning á kennsluháttum í Víkurskóla: https://vimeo.com/793021860
- http://uglur.online/
- Umsögn Fionu um bókina Leiðsagnrnám, hvers vegna, hvernig, hvað?