Framhaldskólinn í Mosfellsbæ 

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2023

Íslensku menntaverðlaunin 2023

Framhaldskólinn í Mosfellsbæ 

fyrir þróun verkefnamiðaðra kennsluaðferða og leiðsagnarnáms 

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ (FMOS) var stofnaður haustið 2009 og er yngsti framhaldsskólinn á höfuðborgarsvæðinu.  

Skólinn hefur verið leiðandi í innleiðingu verkefnamiðaðra kennsluhátta og leiðsagnarnáms. Hugmyndafræði skólans byggir á að virkja nemendur til þátttöku og koma til móts við þarfir þeirra allra. Niðurstöður úr ytra mati  benda til samhljóma álits meðal starfsfólks og nemenda um að skólanum hafi tekist vel að innleiða stefnu sína. 

Þegar skólinn var stofnaður voru ráðnir nýútskrifaðir kennarar sem komu með ferskar hugmyndir og voru tilbúnir til að feta ótroðnar slóðir við að innleiða hugmyndafræði skólans. Í innleiðingarferlinu gegndu kennarafundir lykilhlutverki í að skapa kennurum skilyrði til starfsþróunar. Á fundunum hittist hópurinn reglulega til sameiginlegrar ígrundunar og gagnkvæms stuðnings. Samhliða reglulegum þróunarfundum, unnu kennarar að starfendarannsóknum og litu í kennslu hver hjá öðrum. 

Síðustu ár  hafa kennarar skólans kynnt hugmyndafræði skólans víða. Í þessu sambandi má nefna þátttöku kennara frá skólanum á innlendum ráðstefnum og kennslu á námskeiðum Menntafléttunnar. Margir skólar og kennarar hafa prófað og innleitt hugmyndir sem eiga fyrirmynd í starfsháttum Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Þess má geta, að starfsfólk skólans stóð að ráðstefnu um leiðsagnarnám í febrúar árið 2022, sem var ætluð fyrir alla framhaldsskóla landsins.  

Guðbjörg Aðalbergsdóttir var skólameistari skólans frá stofnun hans þar til hún lét af störfum 1. ágúst 2023. Settur skólameistari er Valgarð Már Jakobsson. 

Í einni af umsögnum með tillögu að tilnefningu skólans til menntaverðlaunanna sagði meðal annars: 

Skólinn notar óvenjulegar aðferðir til kennslu; leiðsagnarnám og verkefnamiðað nám …  þetta er eitt af lykileinkennum skólans. Með því að nota þessar aðferðir einkennist skólabragurinn af miklu trausti milli nemenda og kennara …. Nemendur tala um hversu góð tengsl kennarar hafa við sig og hversu vel þessar aðferðir hjálpi þeim að ná árangri. Kennarar vinna mikið í margskonar þróunarstarfi til að auka gæði náms og kennslu við skólann. Það eru alltaf einhver þróunarverkefni í gangi á hverri önn og svo hafa kennarar verið duglegir að birta niðurstöður. 

 

Scroll to Top