Nánar um málstofur
Arnór Benónýsson, Hallur Birkir Reynisson og Hanna Sigrún Helgadóttir
Af hverju tónlist? – Verkefnadrifið nám í viðburðarstjórnun
Tónkvíslin er árlegur menningarviðburður og söngkeppni Framhaldsskólans á Laugum. Keppnin hefur verið haldin í íþróttahúsi skólans frá árinu 2006. Auk nemenda FL keppa nemendur grunnskóla á norðausturlandi í grunnskólahluta Tónkvíslarinnar. Nemendur FL hafa frá upphafi séð um framkvæmd og skipulagningu viðburðarins en frá árinu 2012 hefur kennari haldið utan um áfanga í viðburðastjórnun þar sem lokaverkefnið er Tónkvíslin sjálf. Tónkvíslin hefur undanfarin 3 ár verið í beinni útsendingu í sjónvarpi og er því að mörgu að hyggja. Skipuð er framkvæmdastjórn, framkvæmdastjóri og gjaldkeri úr hópi nemenda. Meðlimir framkvæmdastjórnar sjá um alla skipulagningu viðburðarins, s.s. áætlanagerð, fjármögnun, markaðssetningu og samninga við utanaðkomandi aðila. Þeir eru einnig tengiliðir við vinnuhópa sem aðrir nemendur geta valið að taka þátt í, en meðal verkefna þessara hópa má nefna að leika í hljómsveit, skrifa handrit og kynna keppnina, sjá um hár og förðun allra sem fara á svið, sjá um samskipti við foreldra grunnskólakeppenda og halda utan um keppendurna þegar þeir eru á svæðinu, sjá um miðasölu og gæslu, taka upp og klippa innslög, manna myndavélar á viðburðinum og smíða svið og breyta íþróttahúsinu í tónleikasal. Nemendur taka mismikinn þátt í uppsetningunni og ljúka þeir því ekki allir sama áfanganum. Hægt er að vinna sér inn 1-5 framhaldsskólaeiningar, allt eftir fjölda vinnustunda hvers og eins, og halda nemendur vinnudagbók. Framkvæmdastjóri og gjaldkeri ljúka áfanganum á 3. þrepi, aðrir meðlimir framkvæmdastjórnar auk tónlistarstjóra og hljómsveitarmeðlima ljúka áfanganum á 2. þrepi og aðrir nemendur sem velja sér viðfangsefni mismunandi hópa ljúka áfanganum á 1. þrepi. Markmið áfanganna eru mismunandi eftir ábyrgð og umfangi. Allir nemendur öðlast þjálfun í uppsetningu og skipulagningu viðburðar, skilning á mikilvægi samvinnu og dreifingu verkefna og því hversu mikilvægt er að taka tillit til ólíkra þarfa, viðhorfa og getu í fjölbreyttum nemendahópi. Erindið kynnir þetta verkefni og fjallar um hvernig og hvers vegna við notum tónlistina sem kveikju. Sjá nánar: https://www.youtube.com/watch?v=m8uKVB1mRlo
Ása Lind Finnbogadóttir
Mikilvægi siðfræði fyrir fagmennsku kennara.
Rannsóknin miðar að því að kanna hversu mikilvæg siðfræði og siðferðilegar samræður eru fyrir kennara og fagmennsku þeirra. Í starfi sínu tekst kennarinn óhjákvæmilega á við ýmis samskipti og atvik sem hafa siðferðilegar hliðar og spurning er hvort hann fái til þess nægan undirbúning í kennaranámi og ekki síður hvort skólarnir hlúi nógu vel að siðferðisþreki starfsmanna sinna og álitamálum sem koma upp. Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar er innan siðfræði fagmennsku (professional ethics) og þá einkum áhersla dyggðasiðfræðinnar á mannkosti kennara eins og sést m.a. hjá höfundum David Carr og Chris Higgins. Rannsóknin er að hluta til heimildarannsókn á efninu en líka eigindleg rannsókn. Tekin voru hálfopin einstaklingsviðtöl við 6 starfandi framhaldsskólakennara til að heyra uppplifun þeirra og reynslu af siðferðilegum áskorunum í starfi og hvers konar stuðning eða farveg slík mál fengu í skólunum sem þau hafa starfað við. Einnig nýtir rannsakandi að einhverju leyti eigin reynslu af kennslu í framhaldsskóla til 15 ára. Úrvinnsla á gögnum er langt komin og er ritgerðin í smíðum. Óhætt er að segja að niðurstöður bendi til þess að töluvert vanti upp á siðferðilegt samfélag kennara í skólunum sem viðmælendur hafa starfað við og undirbúningur í kennaranáminu til að takast á við siðferðileg álitamál virðist ekki hafa verið þannig að þeim hafi fundist hann nægur stuðningur út í starfið.
Bjarnheiður Kristinsdóttir
Notkun hljóðlausra myndbanda í stærðfræðikennslu
Um ýmis stærðfræðihugtök gildir að auðveldara getur reynst að útskýra þau með kvikri mynd þar sem gildi breyta má ákveða með rennistikum og myndin breytist í kjölfarið. Dæmi um þetta er t.d. snertill við feril falls. Hljóðlaus myndbönd eru stuttar teiknimyndir sem sýna stærðfræði á kvikan hátt án orða eða texta. Nemendur fá það verkefni í tveggja manna hópum að undirbúa og taka upp talsetningu við hljóðlaust myndband. Þeim er bent á að útkoman gæti gagnast einhverjum þeim sem vilji skilja betur stærðfræðina sem sést í myndbandinu. Í kjölfarið getur kennari síðan valið úr úrlausnum til að sýna í næsta tíma og ræða nánar, auk þess sem tækifæri gefst til að beina sjónum nemenda að ýmiss konar algengum misskilningi tengdum viðkomandi stærðfræðihugtaki eða -hugtökum. Verkefni sem þessi eru ný af nálinni og markmið rannsóknarinnar er að kanna væntingar kennara til þeirra og reynslu þeirra af því að nota þau. Beitt verður eigindlegum aðferðum þar sem tekin verða viðtöl við fjóra til sex stærðfræðikennara í jafnmörgum framhaldsskólum á Íslandi; fyrir, á meðan og eftir að verkefni með hljóðlausu myndbandi er unnið í tíma. Rannsóknin er á byrjunarstigi og því verður einungis greint frá rannsóknarefni og -fyrirætlunum í þessu erindi.
Björg Eiríksdóttir
Efling myndlistarkennslu á framhaldsskólastigi
Í málstofunni er sagt frá rannsókn sem hafði þann tilgang að efla myndlistarkennslu á framhaldsskólastigi og koma til móts við þörf fyrir námsefni í teikningu fyrir íslenska skóla. Námsefni var mótað í samvinnu við nemendur á listnámsbraut í framhaldsskóla með aðferðum starfenda- og listrannsókna. Í rannsókninni leitaðist höfundur við að sameina þrjú sjónarhorn: sjónarhorn kennara, rannsakanda og myndlistarmanns. Fanga var einnig leitað í myndlist, kennslufræði lista og erlendu námsefni. Niðurstöður rannsóknarinnar voru settar fram sem námsefni, rannsóknarskýrsla þar sem greint er frá starfenda- og listrannsókninni og myndlistarsýning. Niðurstöðurnar gefa til kynna hvers konar námsaðstæður efla nemendur í teikningu og sköpun. Þær eru: Skýr markmið, kveikja, sjálfstæð vinna og ígrundun og efling fjögurra hæfniþátta í teikningu; sjónrænnar rannsóknar á umhverfi, tengingar sjónrænnar rannsóknar við hreyfingu handar, þekkingu og skilning á sýnilegu umhverfi og notkun ímyndunarafls. Í verkefnum námsefnisins áttu nemendur í sjónrænum samskiptum við umhverfi sitt sem dýpkaði skynjun þeirra, þekkingu og skilning á því. Þeir efldust í að teikna eftir fyrirmynd og samkvæmt ímyndum sínum og í að setja sjónræna hugsun sína fram. Námsefnið jók líkur á að þeir ættu í fagurfræðilegum samskiptum við umhverfi sitt og kæmust í hugarástandið flæði.
Björn Bergsson
Vinnulag í hópvinnu í félagsfræði
Ég hef kennt félagsfræði við MH í 32 ár og hef tekið stoðina um sköpun í námsskránni mjög alvarlega. Verklag mitt er að nemendur vinna í hópum þrjú stór verkefni á önninni. Ég hef haldið stutt erindi hjá fagfélaginu mínum það fyrra hafði fyrirsögnina “Það er hægt að læra fyrir utan kennslustofuna og vinna hópvinnu án þess að haldast í hendur”. Það seinna hafði fyrirsögnina “Í leit að tommustokk eða loftvog – hugleiðingar um öðruvísi námsmat fyrir öðruvísi verkefni”.Mig langar að fjalla um það hvernig ég hef þúrt að breyta vinnulagi í hópvinnu meðal annars vegna þess að nemendur þurfa að fara út í bæ til að afla gagna eða tala við fulltrúa jaðarhópa með djúpviðtalstækni. Þá hef ég farið í það að búa til öðru vísi verkefni t.d. “Aktívistaverkefni” – þegar ég er að kenna áfanga um íslensk stjórnmál (það tengist stoðinni um lýðræði) – sem kallar á annað námsmat en próf, málstofu eða greinargerð (ritgerð?). Og mig langar að fjalla um hvernig ég fer að því að meta öðruvísi verkefni öðruvísi.
Elínborg Ragnarsdóttir og Sólveig Einarsdóttir
Skáld skrifa þér – Nýtt námsefni í bókmenntasögu
Þegar við hófumst handa við að semja bókmenntasögu sem spannar tímabilið frá 1920 til nútímans höfðum við aðallega tvennt að leiðarljósi. Við vildum semja námsefni sem væri aðgengilegt nemendum, bæði að efni og formi og er þetta helsta markmið kennslubókarinnar. Við ákváðum líka að bjóða skáldum og rithöfundum að taka þátt í verkinu með því að skrifa bréf, ýmist til annarra skálda eða beint til nemenda. Við teljum að með sendibréfum sé hægt að færa bókmenntasöguna nær nemendum en ella þar sem þau gefa kost á persónulegri nálgun. Bréfin eru tíu talsins. Þau eru bæði frá kven- og karlhöfundum og eru eins ólík og þau eru mörg en með bréfunum byggjum við brýr frá nútímahöfundum til fyrri höfunda og frá núlifandi höfundum til nemenda. Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir skrifar til dæmis afa sínum, Halldóri Laxness, bréf en Einar Már Guðmundsson skrifar til nemenda. Kennslubókinni er ætlað að sýna brot úr bókmenntasögu þess tíma sem fjallað er um og völdum við þau verk og höfunda sem hentuðu best framsetningu og markmiðum bókarinnar. Í grófum dráttum eru helstu markmið kennslubókarinnar, Skáld skrifa þér; eftirfarandi:
- Gera bókmenntasöguna aðgengilega fyrir nemendur og að hafa framsetningu efnisins þannig að það höfði til þeirra.
- Gefa nemendum innsýn í helstu strauma og stefnur hvers tímabils án þess að reyna að gera bókmenntasögunni tæmandi skil.
- Hafa framsetningu efnisins þannig að hægt sé að nýta það til þess að vinna fjölbreytt og skapandi verkefni, til dæmis í ritun.
- Auka lesskilning nemenda og leggja áhersla á að þeir skilji það sem um ræðir hverju sinni og dragi ályktanir af textum sem unnið er með.
Í lok hvers kafla birtum við einnig stutta umfjöllun um fleiri skáld tímabilanna en með því móti nýtist námsefnið enn frekar þeim sem vilja bæta fleirum við í skáldahópinn. Þá höfum við einnig unnið kennsluleiðbeiningar með bókinni.
Elsa Eiríksdóttir
Samanburður á starfsmenntakerfum Íslands og Danmerkur: Hvaða lærdóm má draga af nýlegum umbótum á starfsmenntun í Danmörku?
Í fyrirhuguðu erindi verða starfsmenntakerfi í Danmörku og Íslandi borin saman með það fyrir augum að skoða hvaða lærdóm íslensk menntayfirvöld geta dregið af nýlegum breytingum á starfsmenntakerfi Danmerkur. Haustið 2015 gengu í gegn breytingar á danska starfsmenntakerfinu sem höfðu það að markmiði að (1) auka hlutfall nemenda sem velja starfsmenntun að loknum grunnskóla, (2) fjölga nemendum sem ljúka starfsmenntun, (3) að starfsmenntun geri nemendur eins hæfa og auðið er og (4) að tryggja sjálfstraust og vellíðan nemenda í starfsmenntun. Unnið var að þessum markmiðum í gegnum ólíkar leiðir sem meðal annars lögðu áherslu á að gera starfsmenntun að eftirsóknarverðum valkosti, auka kennslufræðilega hæfni starfsmenntakennara og aðlaga námið að ólíkum nemendahópum. Á Íslandi hefur einnig verið rætt um umbætur í starfsmenntun undanfarin ár, t.d. í Hvítbók um umbætur í menntun (mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2014), og hefur verið áhugi á því hvernig til hefur tekist í Danmörku. Starfsmenntakerfin á Íslandi og í Danmörku eiga margt sameiginlegt, t.d. svipaða stjórnsýslu og sterka hefð fyrir tvískiptu kerfi þar sem hluti námsins fer fram í skóla og hluti á vinnustað. Einnig voru umbæturnar í Danmörku settar fram sem viðbrögð við svipuðum áskorunum og hafa verið í umræðunni á Íslandi, t.d. hvernig hægt er að fá fleiri ungmenni til að velja starfsmenntun og ljúka náminu á tilskyldum tíma (minnka brottfall). Til að skoða hvað Íslendingar geta lært af reynslu dana af nýlegum umbótum í starfsmenntun voru tekin viðtöl við hagsmunaaðila og fræðimenn á sviði starfsmenntunar í Kaupmannahöfn vorið 2017 þegar komin var nokkur reynsla af breytingunum. Einnig var rýnt í ýmsar heimildir um umbæturnar, t.d. opinberar skýrslur, stefnumótunarskjöl, fræðigreinar og fyrirlestra. Í umfjöllun um niðurstöður verður rætt um forsendur breytinganna sem ráðist var í, álitamál sem upp hafa komið við útfærslu og innleiðingu breytinganna, og hvað reynslan af síðustu tveimur árum hefur leitt í ljós.
Eyjólfur Guðmundsson
Starfsnám í smásöluverslun
Mig langar að gera grein fyrir af hverju áhugvert er að skoða starfsnámi í verslun, helstu niðurstöður meistaraprófsrannsóknar minnar og setja þær í samhengi við stöðuna í starfsmenntamálum í dag. Viðfangsefni rannsóknarinnar er starfsnám í smásöluverslun sem er skoðað út frá stöðu þess, þörfum, stefnu og framkvæmd. Staðan er skoðuð út frá atvinnugreininni og menntun innan hennar. Rýnt er í þarfir einkum út frá mati hagsmunaaðila á þeim. Greiningin á stefnunni er aðallega út frá stefnu stjórnvalda en aðkoma hagsmunaaðila og framkvæmdaaðila er einnig skoðuð. Hvað framkvæmdina varðar er áherslan á skóla og fræðsluaðila en þáttur hagsmunaaðila er einnig greindur. Rannsóknaraðferðin er blönduð aðferð sem byggir bæði á eigindlegum og megindlegum hefðum. Rannsóknin er einnig undir áhrifum af tilviksrannsóknaraðferðinni en uppfyllir þó ekki öll skilyrði til að geta talist tilviksrannsókn. Í efnisöflun er leitað víða fanga. Tekin eru viðtöl, unnin könnun á verslun í Sveitarfélaginu Hornafirði, fengin sérunnin tölfræðigögn og rýnt í tölfræðigögn, skýrslur og skjöl sem þegar voru til. Helstu niðurstöður eru þær að starfsmenntun í smásöluverslunum á Íslandi er lítil og það er helst innan stærri verslunarkeðja sem einhver starfsmenntun á sér stað. Þarfir fyrir meiri menntun eru til staðar en þær birtast ekki með skýrum hætti. Stefna stjórnvalda er ómarkviss og það sem þó hefur verið unnið á því sviði hefur í litlum mæli komist í framkvæmd.
Flemming Madsen
Bætt námsmat í verk- og listgreinum
Verknámskennarar og aðrir, sem fást við mat á verklegum verkefnum, hafa væntanlega rekið sig á hve erfitt getur verið að sjá til þess að matið sé bæði áreiðanlegt og réttmætt.
Í undanfarin ár og í tengslum við M.ed. verkefni hef ég reynt að bæta námsmat mitt í verklegum greinum, þannig að það sé nemendum til gagns og miði við forsendur þeirra og framfarir.
Námsmatið byggir á því að kennarinn og nemandinn meti verkefnið í sameiningu.Til þess að auka áreiðanleika matsins byggir það á stigakerfi með fáum þrepum. Þar eru t.d. atriði eins og fegurð og handverk metin í sama anda og Eliot Eisners lýsir mati á verkefnum í myndlist.
Námsmatið byggir (auk kennaramats) á spurningalista til nemenda, þar sem eftirfarandi atriði eru í fyrirrúmi: 1. Handverk: Er verkið vel smíðað? 2. Fegurð: Er líklegt að aðra myndi langa til þess að eiga verkið? 3. Sköpun: Hverju þyrfti breyta ef smíða ætti annað eins verk?4. Vinnubrögð: Hvaða vinnubrögð lærðust við að vinna verkið?
Freyja Hreinsdóttir
Úttekt á stærðfræðikennslu í 9 framhaldsskólum
Á árunum 2013-2014 var gerð úttekt, á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytis, á stærðfræðikennslu í 9 framhaldsskólum. Úttektina gerði 6 manna starfshópur og var skýrsla hans birt á vef ráðuneytisins https://www.menntamalaraduneyti.is/media/frettir2014/Uttekt-a-staerdfraedikennslu-i-framhaldsskolum-2014.pdf. Í skýrslunni voru settar fram ýmsar tillögur til úrbóta meðal annars varðandi starfsþróun stærðfræðikennara. Hausti 2014 ákvað Háskóli Íslands að ráðast í átak til eflingar stærðfræðikennslu sem hluta af aðgerðaráætlun um eftirfylgni með ytri matsskýrslu um árangur sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar. Hluti átaksins fól í sér skipulagningu 60 eininga viðbótardiplómu á sviði stærðfræðimenntunar fyrir starfandi stærðfræðikennara sem boðið var upp á árin 2015 – 2017. Við skipulag námsins var m.a. tekið mið af niðurstöðum úttektar á stærðfræðikennslu. Leitast var við að nýta tíma utan kennslutíma framhaldsskólanna (júní og ágúst), hægt var að stunda námið gegnum fjarfundabúnað og kennt var eitt námskeið í einu. Námið hófu um 25 einstaklingar haustið 2015.
Meðan á náminu stóð voru lagðar fyrir þátttakendur nokkrar kannanir. Haustið 2015, að loknu fyrsta námskeiðinu (kynning og upplýsingatækni) var lögð fyrir könnun um notkun upplýsingatækni og viðhorf til notkunar upplýsingatækni við stærðfræðikennslu. Einnig um skoðanir á skipulagi námsins og um ástæður þess að viðkomandi valdi þetta nám. Haustið 2016 var lögð fyrir könnun um námið og um notkun upplýsingatækni. Vorið 2017 þegar náminu var að ljúka var lögð fyrir könnun um námið og skipulag þess. Einnig var spurt um notkun upplýsingatækni við stærðfræðikennslu. Markmið þessara kannana var tvíþætt, annars vegar að kanna hvernig kennsla í hugbúnaðarnotkun hefði nýst nemendum í þeirra eigin kennslu og hins vegar að safna upplýsingum sem gætu nýst við betrumbætur á náminu, en hugsanlega verður boðið upp á það aftur haustið 2018. Í fyrirlestrinum verður skipulagi námsins lýst lauslega og gerð grein fyrir niðurstöðum kannana.
Gerður G. Óskarsdóttir
Samvinna framhaldsskólanemenda í kennslustundum – umfang og skipan
Umfjöllunarefni fyrirlestursins er samvinna nemenda í kennslustundum í framhaldsskóla, umfang hennar og skipan, en lögð er áhersla á hæfni nemenda í samskiptum og samvinnu í aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011. Byggt er á niðurstöðum úr rannsókninni Starfshættir í framhaldsskólum þar sem fylgt var eftir 130 mislöngum kennslustundum í níu framhaldsskólum um landið (167 klst.) Samvinna með einhverjum hætti fór fram í um 17% kennslutímans sem fylgst var með (fjöldi mínútna talinn saman). Fjallað verður um þrenns konar mismunandi skipulag samstarfsins: a) samvinnuverkefni sem kennari lagði fyrir og nemendur ræddu síðan, skipulögðu og unnu að sameiginlega í hópum; b) samvinnu sem kennari sagði fyrir um, en nemendur í einstökum hópum skiptu nær strax með sér verkum og unnu síðan að einslega; c) samvinnu sem nemendur völdu þegar kennari sagði að þau mættu vinna saman í hópum eða tveir eða fleiri nemendur ákváðu að vinna saman til að auðvelda verk. Athygli vakti að skipulögð samvinnuverkefni gáfu nemendum mun meira svigrúm til frumkvæðis en átti við um einstaklingsverkefni. Í um helmingi (51%) þess tíma sem varið var í einstaklingsverkefni reyndi á frumkvæði. Aftur á móti var gert ráð fyrir frumkvæði nemenda í um 84% tímans sem fór í samvinnuverkefni; annað hvort lá engin þekkt lausn fyrir og nemendur höfðu frjálsar hendur innan ákveðins ramma (45%) eða nemendur áttu kost á að velja úr fyrirliggjandi lausnum (39%). Viðhorf nemenda til skipulags samvinnu verða einnig til umræðu (úr viðtölum við 17 nemendahópa með alls 56 þátttakendum).
Gunnar Árnason
Þekking og reynsla stjórnenda framhaldsskóla á geðrækt í skólum
Embætti landlæknis hefur komið á fót heildstæðu heilsueflingarverkefni sem nefnt er „Heilsueflandi framhaldsskólar‟ og er geðrækt einn þáttur þess. Meginmarkmiðið með því er að stuðla að enn betri geðheilsu nemenda og starfsfólks í framhaldsskólum en til þess að ná því eru skólar hvattir til að móta sér langtímastefnu um eflingu heilbrigðis og vellíðunar. Þar sem langflest íslensk ungmenni hefja framhaldsskólanám ætti að vera ljóst að skólinn er mikilvægur vettvangur fyrir geðrækt.
Markmið rannsóknarinnar er að kanna hver sé reynsla og þekking stjórnenda framhaldsskóla á geðrækt í skólum. Áherslan er þar á þá þætti sem helst skipta máli í geðrækt ungmenna og snúa að hlutverki skólastjórnenda í geðheilsueflingu. Í rannsókninni er beitt eigindlegri rannsóknaraðferð með fyrirbærafræðilegri nálgun þar sem notast er við viðtöl við gagnasöfnun út frá hálfstöðluðum viðtalsramma. Alls eru tekin viðtöl við níu stjórnendur. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að allir skólastjórnendur sögðu að geðheilsa og vellíðan nemenda væri nauðsynleg til þess að skólinn nái því meginmarkmiði sínu að stuðla að alhliða þroska. Skólastjórnendur töldu jákvæðan skólabrag vera eitt mikilvægasta verkefni geðræktar. Þeir telja hins vegar að geðræn vandamál hafi aukist á síðari árum og hafi veruleg áhrif á suma nemendur. Ánægja með verkefnið „Heilsueflandi framhaldsskóli‟ var almenn en skólastjórnendur taka þó ýmsir fram að utan að komandi stuðningur hefði þar mátt vera meiri hvað varðar fjármögnun og mannafla. Allir skólarnir buðu upp á ýmis konar námskeið tengd geðrækt á geðræktarárinu og flestir flétta hana í áfangann um lífsleikni en samt í mismiklum mæli. Rannsakandi telur að með því að festa verkefnið „Heilsuefland framhaldskóli‟ enn frekar í sessi innan framhaldsskóla geti það stuðlað að betri geðheilsu nemenda og bættum námsárangri og undirbúið þá enn frekar undir þær áskoranir sem fylgja leik og starfi.
Hafþór Guðjónsson
Merkingarbært nám (að skapa merkingu úr textum)
Nám í skólum er að verulegu leyti glíma við texta úr heimi vísindanna, nánar tiltekið greinum á borð við stærðfræði, eðlisfræði og sögu. Almennt hafa greinakennarar gefið lítinn gaum að þessari glímu enda gert ráð fyrir því að nemendur sem kæmu inn í framhaldsskóla ættu að vera orðnir læsir og geta lesið námsbækurnar. Nú hefur komið á daginn að lestur er mun flóknara fyrirbæri en áður talið og að margir nemendur eiga í erfiðleikum með að skilja vísindatexta jafnvel þó þeir leggi sig fram. Í erindi mínu hyggst ég rýna aðeins í þessa hluti og rökstyðja þá skoðun mína að lestur almennt beri að skoða sem merkingarsköpun og lestur vísindatexta sem merkingarsköpun á landamærum ólíkra táknheima: hversdagsheimsins annars vegar og vísindaheimsins hins vegar. Að læra námsgrein felur þá í sér að læra að lesa, tala og skrifa og hugsa á annan veg en hversdagsleg orðræða býður. Í þessari sviðsmynd eru allir greinakennarar tungumálakennarar í vissum skilningi.
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir
Kynjafræðikennsla – KYN 103 tíu ára. Upphaf, framgangur og framtíð
Farið í gegnum ferlið frá því kynjafræði varð valfag í Borgarholttskóla og nú tíu árum seinna er það skyldufag í bóknámi (meira á leiðinni). Farið í gegnum þroskaferli KYN 103. Lærdómur dregin fram. Kennslukona fer í kennslufræðilegt hugflæði um málið.
Haukur Arason
Námsframboð framhaldsskóla í eðlisfræði
Á undanförnum árum hafa komið fram áhyggjur af því að nemendur sem hefja háskólanám sem krefst undirbúnings í eðlisfræði, t.d. verkfræðinám, hafi ekki þann undirbúning sem nauðsynlegur má teljast. Á sama tíma hefur framhaldsskólanám verið stytt úr fjórum árum í þrjú. Þetta kallar á að athugað sé með hvaða hætti framhaldsskólar bjóði upp á undirbúning í eðlisfræði í samhengi við þær kröfur um kunnáttu og færni sem háskólar gera.
Hér verður gerð grein fyrir athugun á námsframboði í eðlisfræði á framhaldsskólastigi. Skoðaðar eru áfangalýsingar úr átta framhaldsskólum og greind efnisatriði og hugtök sem fjallað er um samkvæmt lýsingunum. Þessi atriði eru síðan borin saman við þær upplýsingar sem Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík gefa um nauðsynlegan undirbúning undir nám í raunvísindum, verkfræði og öðrum tæknigreinum. Jafnframt verður greint það framboð á eðlisfræðimenntun sem samkvæmt þessu viðmiði telst ekki undirbúningur undir frekara raungreina- og tækninám en gæti þessi í stað gegnt því hlutverki að efla víðari skilning nemenda á hugtökum og lögmálum eðlisfræðinnar og hugsanlega glætt áhuga á viðfangsefnum greinarinnar. Að lokum er gerð stutt grein fyrir þróun námsframboðs í eðlisfræði í framhaldsskólum á síðustu tuttugu árum með samanburði við útgefnar námskrár menntamálaráðuneytisins.
Hermína Gunnþórsdóttir
Viðhorf kennaranema til skóla án aðgreiningar
Íslensk menntastefna er meðal annars byggð á hugmyndum um skóla án aðgreiningar og jafnrétti til náms en rannsóknir gefa til kynna að viðhorf kennara og það hversu tilbúnir þeir eru að kenna allri flóru nemenda hefur áhrif á kennslu þeirra. Kennaramenntun er mikilvægur farvegur að breyttum starfsháttum í skólum og getur haft áhrif á viðhorf og starfshætti kennara til framtíðar. Íslenskir skólar einkennast af fjölbreytni nemenda og ólíkum forsendum þeirra til náms. Í erindinu verður greint frá rannsókn þar sem kannað var hvaða augum kennaranemar líta fjölbreytileika nemenda og hlutverk sitt sem verðandi kennarar í íslenskum skólum. Rannsóknarspurningin var: Hverjar eru hugmyndir kennaranema um skóla án aðgreiningar og fjölbreytileika nemenda og hvaða áhrif telja þeir að fjölbreytileikinn muni hafa á störf þeirra sem kennara í íslenskum skólum? Gögnin voru 320 ígrundunardagbækur tveggja nemendahópa á haust- og vormisseri 2014 sem sóttu námskeið um nám og kennslu í skóla margbreytileikans í meistaranámi til kennsluréttinda við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Þau voru dulkóðuð og síðan þemagreind í Excel. Fjallað verður um niðurstöður út frá eftirfarandi þemum: Hugmyndir kennaranema um skóla án aðgreiningar; Áhrif persónulegrar reynslu á viðhorf til margbreytileika og Fjölbreytileiki nemenda og áhrif á mig sem kennara.
Nemendur höfðu ólíkar skoðanir á skóla án aðgreiningar og hversu vel eða illa þeir töldu þá hugmyndafræði eiga við um skólastigið sem þeir hyggjast kenna á. Í ljós kom að væntanlegir framhaldsskólakennarar töldu hana síður eiga við um sig en þeir sem stefndu á kennslu í leik- og grunnskólum. Þrátt fyrir skiptar skoðanir kennaranemanna töldu þeir að skóli án aðgreiningar væri rökrétt skref í átt að nútímaskólastarfi og áttu þá við þær lýðræðislegu og félagslegu áherslur sem hugmyndafræðin felur í sér. Einnig töldu þeir samvinnu og teymisvinnu kennara lykilatriði til árangurs og að mikilvægt væri fyrir þá að tileinka sér fjölbreytta kennsluhætti til að geta betur komið til móts við ólíka einstaklinga í námi.
Hildur Hauksdóttir
Nýliðar í stétt framhaldsskólakennara. Þróunarverkefni í Menntaskólanum á Akureyri
Haustið 2016 hófst þróunarverkefni í Menntaskólanum á Akureyri er nefnist nýliðakaffi og stóð yfir til vors 2017. Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar höfundur vann meistaraprófsritgerð sína um líðan nýliða í stétt framhaldsskólakennara og hvaða stuðnings þeir nutu. Rannsóknin var eigindleg og byggðist á hálf-opnum viðtölum við átta nýja framhaldsskólakennara. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að nýir framhaldsskólakennarar óska eftir og þurfa meiri stuðning en nú er raunin. Þeim mætti lítill stuðningur á vettvangi og fæstir fengu formlega leiðsögn. Fyrsta árið reyndist kennurunum þrautaganga með löngum vinnudegi og miklu starfsálagi. Framundan er mikil endurnýjun í stétt framhaldsskólakennara auk þess sem skólaumhverfi framhaldsskólanna hefur tekið breytingum undanfarin ár. Því er brýnt að nýliðunin takist vel og tekið sé á móti nýliðum með markvissum og árangursríkum hætti. Nýliðakaffi er að finnskri fyrirmynd þar sem stefnt er saman nýliðum og reyndari kennurum nokkrum sinnum á skólaárinu og farið markvisst yfir þær áskoranir sem mæta kennurum í daglegu starfi. Leiðsagnarkennari heldur utan um nýliðakaffi, skipulag þess og efnistök. Áhersla er lögð á að mynda traust samfélag þar sem nýir kennarar geta viðrað líðan sína, leitað ráða hjá reyndari kennurum og velt vöngum. Nýliðakaffi er tiltölulega einföld en árangursrík leið til starfsþróunar fyrir nýja en líka reynda kennara. Í erindinu verður farið yfir hugmyndina sem liggur að baki verkefninu og útfærsluna sem höfundur þróaði ásamt öðrum í MA.
Hjálmar Árnason
Vendinám – flippið
Kynntar verða niðurstöður á könnunum sem gerðar hafa verið um árangur af vendinámi í nokkrum skólum. Reynir verður að svara spurningunni: Hvers vegna að flippa?
Hjördís Þorgeirsdóttir, Már Vilhjálmsson og Ágúst Ásgeirsson
Kennslufræði í þriggja anna kerfi í MS
Breytingastarfið í MS hefur það markmið að skapa námsaðstæður sem auðvelda innleiðingu nýrrar hæfnimiðaðrar námskrár fyrir þriggja ára nám til stúdentsprófs og skapa námsskilyrði sem veita nemendum aukið sjálfstraust, bjartsýni, seiglu og vilja til áframhaldandi náms. Ný skólanámskrá er skipulögð sem 206 Feininga nám til stúdentsprófs, með tveimur námsbrautum, félagsfræðabraut og náttúrufræðibraut, með alls fjórum námslínum; félagsfræði – sögu, hagfræði – stærðfræði, líffræði – efnafræði og eðlisfræði-stærðfræði. Áhersla er lögð á dýptina í námi í lykilgreinum á hverri námslínu en einnig á almenna breidd í náminu með listgrein og umhverfissfræði sem skyldu fyrir alla nemendur. Skólaárinu er skipt í þrjár annir með 12 vikum á hverri önn, 50 kennsludögum og 10 námsmatsdögum sem dreift er yfir önnina. Nemendur eru í fjórum til fimm námsgreinum á hverri önn auk íþrótta. Í hverri námsgrein eru 9 kennslustundir á viku þar af 8 kennslustundir bundnar í töflu nema í íþróttum, þar eru 2 kennslustundir á viku. Áherslan er á kennslufræði um virkni og ábyrgð nemenda á námi sínu í gegnum verkefnabundið nám og fjölbreytt námsmat. Nýtt kerfi skapar tækifæri til að skipulegga styttri skóladag með lengri samfelldum tímum og það auðveldar kennurum að leggja í auknum mæli bæði áherslu á innihald náms og starfshættina í kennslustofunni. Áhersla er á breyttar námsvenjur með aukinni þátttöku nemenda og vinnu jafnt og þétt yfir önnina. Nýtt kerfi skapar einnig svigrúm fyrir vinnu að stærri verkefnum nemenda og vettvangsferðum út fyrir skólann.
Hrönn Baldursdóttir
Styrkur og stefna í námi – hópráðgjöf með útivist í Fjölbrautaskólanum við Ármúla
Markmið verkefnisins var að móta öflugra stuðnings- og ráðgjafarúrræði en hefur verið í boði innan skólans fyrir nemendur í brotthvarfshættu. Við vildum bjóða uppá víðtækari stuðning og ráðgjöf fyrir þann hóp sem hefur ítrekað hætt í námi og nota fjölbreyttari leiðir í vinnu með þeim. Við vildum athuga hvort betri árangur næðist þannig og vildum prófa að nota útivist til viðbótar þeirri einstaklings- og hópráðgjöf sem er notuð í skólanum. Sýnt hefur verið fram á hagnýtt gildi útivistar, líkamlegrar áreynslu og áskorunar til að auka reynslu, efla sjálfsmynd, þor og seiglu þátttakenda. Leiðirnar sem valdar voru til að ná markmiðinu voru þríþættar og skilyrði að þátttakendur tækju þátt í þeim öllum. Í fyrsta lagi var það hópráðgjöf, í öðru lagi nokkurra daga útivistarferð með allan útbúnað á bakinu og að lokum einstaklingsviðtöl á önninni og eftirfylgd önnina á eftir. Hluti verkefnisins felst því í að draga sig út úr þægindum og truflun nútímasamfélags til að fá næði til að auka sjálfsþekkingu og sjálfstraust og samtvinna þannig kosti og ávinning hópráðgjafar og útivistar. Skýrar vísbendingar komu fram um að verkefnið hafi tilætluð áhrif og að markmið verkefnisins hafi náðst, sérstaklega fyrir nemendur sem eru eldri en 18 ára og hafa ítrekað hætt í námi áður.
Ingvar Sigurgeirsson, Elsa Eiríksdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Kennsluaðferðir í 130 kennslustundum í framhaldsskólum
Titill erindis: Kennsluaðferðir í 130 kennslustundum í framhaldsskólum. Á tímabilinu frá því í október 2013 til nóvember 2014 fylgdist hópur rannsakenda með 130 kennslustundum í níu ólíkum framhaldsskólum. Fylgst var með kennslu bæði í bóknáms- og verkgreinum. Athugendur skráðu ítarlegar vettvangslýsingar og héldu til haga fjölmörgum skráningum um hverja kennslustund, m.a. um kennsluaðferðir, samskipti kennara og nemenda, framkomu kennara, námsgögn og miðla, upplýsingatækni og ástundun nemenda. Kennslustundirnar hafa verið greindar með margvíslegum hætti, en í þessari kynningu er sjónum beint að kennsluaðferðunum. Meðal þess sem verður rætt er hvaða kennsluaðferðir voru algengastar og hvað einkennir útfærslu þeirra og beitingu. Einnig verður fjölbreytni kennsluaðferða skoðuð og tengsl á milli kennsluaðferða og faggreina.
Jóna Guðbjörg Torfadóttir og Sigurrós Erlingsdóttir
Ábyrgir og skapandi nemendur sem taka virkan þátt í kennslustundum
Í aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla, segir að nemendur þurfi „að kunna að sækja sér nýja þekkingu og leikni, jafnframt því að geta beitt þekkingu sinni. Þeir skulu einnig vera meðvitaðir um mikilvægi þess að vera ábyrgir og skapandi í þekkingarleit sinni, ígrunda og rökstyðja.“ (Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011, bls. 23). Við höfum að markmiði að gera nemendur ábyrga og skapandi í námi sínu og viljum að nemendur okkar taki virkan þátt í kennslustundum. Við leitum leiða til að vekja áhuga nemenda á því námsefni sem liggur fyrir. Jafnframt viljum við að nemendur okkar þjálfist í að vinna með öðrum. Við viljum skapa tækifæri í kennslustundunum fyrir krefjandi verkefni nemenda þar sem við kennararnir höfum tækifæri á samtali við nemendur augliti til auglitis. Fyrir tveimur árum ákváðum við að gera tilraun með vendinám í von um að það gerði okkur kleift að ná fram ofangreindum markmiðum okkar. Upphaflega prófuðum við vendinám vegna hvatningar frá samkennurum okkar í íslenskudeildinni en við höfðum áður kynnt okkur lítillega hugmyndir bandarísku fræðimannanna Bergman og Sams um þessa kennsluaðferð. Við höfum komist að því að vendinámið hentar að mörgu leyti vel til að ná fram markmiðum okkar. Við munum kynna starfendarannsókn um innleiðingu okkar á vendinámi í kennslu. Starfendarannsókn okkar byggir á kenningum bresku fræðikonunnar Jean McNiff.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir og Unnur Gísladóttir
Staða og mikilvægi tómstunda- og félagsmálafræða innan framhaldsskóla.
Gætu verið tvo erindi í einni málstofu. (Við óskum eftir að lágmarki 15 mín, hugsanlegt er að skipta erindinu í tvo 10 mín erindi)
Tómstunda- og félagsmálafræði er tiltölulega nýtt fag innan framhaldsskóla á Íslandi. Í erindi verður fjallað um stöðu og mikilvægi tómstunda- og félagsmálafræða og kennslu tómstunda- og félagsmálafræða (einnig nefnt frítímafræði) innan framhaldsskóla. Í dag er boðið upp á meistaranám í menntun framhaldsskólakennara með tómstunda- og félagsmálafræði sem kjörsvið. Rannsóknir benda til þess að ungmenni á framhaldsskóla aldri eigi oft erfitt með að finna stefnu í lífi sínu. Tómstunda- og félagsmálafræði byggist á því að virkja nemendur til þátttöku og ígrundunar um eigið líf og annarra. Horft er til þess hvernig styrkja megi vitund ungmenna um að nýta frítíma sinn á uppbyggilegan hátt og unnið er með leiðtogahæfni hvers og eins. Þannig er tómstunda- og félagsmálafræði góður grunnur fyrir kennslu lífsleikni þar sem unnið er með óformlega námsþætti. Í erindinu er fjallað um verkfærakistu tómstundafræðikennarans, en slík kennsla byggir á því að samþætti formlegt og óformleg nám. Mikilvægt er að virkja nemendur til þátttöku í slíkri kennslu og munu höfundar rýna í eigin reynslu af slíkri kennslu. Höfundar munu færa rök fyrir eftirfarandi: 1) mikilvægt er að efla þekkingu á tómstunda- og félagsmálafræðum innan framhaldsskóla; 2) Æskilegt er að ráða inn kennara með bakgrunn í tómstunda- og félagsmálafræðum; 3) Fjölga ætti framhaldsskólum sem bjóða upp á tómstunda- og félagsmálafræði; 4) Markviss samþætting á formlegu og óformlegu námi styður við jákvæða upplifun nemenda af námi.
Kristjana Stella Blöndal og Atli Hafþórsson, HÍ
Margbreytileiki brotthvarfsnemenda
Í ljósi aukinnar áherslu á menntun í samfélaginu eru þau ungmenni sem ekki ljúka framhaldsskóla verr stödd nú en áður fyrr. Brotthvarf úr framhaldsskóla er óvenjumikið á Íslandi samanborið við önnur OECD ríki. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að greina ólíka áhættuhópa en rannsóknir á sviðinu eru gagnrýndar fyrir að líta á brotthvarfsnemendur sem einsleitan hóp. Slík rannsókn hefur ekki verið gerð áður á Íslandi og mun varpa mikilvægu ljósi á mismunandi einkenni þeirra sem hverfa frá námi. Um er að ræða yfirgripsmikla langtímarannsókn. Hún hófst árið 2007 og nær til 3470 nemenda á aldrinum16 til 20 ára úr öllum framhaldsskólum landsins. Úrvinnsla byggist á klasagreiningu og tvíkosta aðhvarfsgreiningu. Kenningum ber saman um að brotthvarf sé ferli sem lýsi sér í því að nemendur verði smám saman afhuga námi og skóla. Athyglinni er hér beint að skuldbindingu nemenda gangvart námi og skóla (student engagement). Niðurstöður okkar sýna að námsleg og félagsleg skuldbinding, námsárangur og andleg líðan skipa nemendum sem hverfa frá námi í aðgreinanlega hópa. Þar sem brotthvarf er algengara meðal stráka en stelpna og meðal nemenda í starfsnámi en í bóknámi verða niðurstöður jafnframt greindar eftir kyni og námsleið. Rannsóknin varpar ljósi á mikilvægi þess að forvarnir og inngrip taki mið af ólíkum einkennum brotthvarfsnemenda.
Kristín Elva Viðarsdóttir og Bóas Valdórsson
Sálfræðiþjónusta í MH og MA skólaárið 2016-2017
Í stjórnarsáttmála kemur fram að efla sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Skólaárið 2016-2017 varð til sú nýbreytni að sálfræðingar voru ráðnir í MH og MA sem hluti af starfsliði skólanna. Um var að ræða 75% stöðu (MH) og 100% stöðu (MA). Ljóst er að um þróunarstarf er að ræða þar sem boðið er upp á almenna skólasálfræðiþjónustu innan veggja skólanna. Í könnunum á brottfalli íslenskra ungmenna úr framhaldsskóla hefur komið fram að 9-11% nemenda segja andlega erfiðleika vera ástæðu þess að þau hætti í námi (Kristrún Birgisdóttir, 2015; Mennta- og menningarmálaráðuneytið [MM], 2013). Væntingar stóðu til þess að með því að hafa skólasálfræðing í starfsliði skólanna væri hægt að koma til móts við þessa nemendur og draga úr brotthvarfi og hafa uppbyggileg áhrif á geðheilsu þeirra. Í erindi okkar er þessi nýbreytni kynnt. Byrjað verður á að fara stuttlega yfir ferilinn í sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum á Íslandi til þessa (þau módel sem stuðst hefur verið við fram að þessu). Einnig verður farið yfir þörfina fyrir þessa þjónustu og hvernig á að mæta henni. Fjallað verður sérstaklega um hvað gert hefur verið í MH og MA síðastliðið ár, sbr. viðtöl, námskeið, kennsla og annað. Fjallað verður um aðgengi að skólasálfræðingi og hans stöðu innan skólans. Að lokum verður farið yfir samstarf sálfræðinga sem starfa innan framhaldsskólanna og framtíðarsýn. Endað verður á því að fjalla um í hverju framlag skólasálfræðinga eigi að felast og boðið er upp á stuttar umræður um það.
Jón Snæbjörnsson og Lóa Björk Óskarsdóttir
Leiðsagnarmat í stærðfræði í Menntaskólanum á Laugarvatni
Stærðfræðikennarar í Menntaskólanum að Laugarvatni (ML) fengu vorið 2017 styrk úr Sprotasjóði til innleiðingar leiðsagnarmats í öllum stærðfræðiáföngum sem kenndir verða við skólann haustönn 2017.
Markmið sett fram í styrkumsókninni er ítarleg rýni á aðgengilegum kennsluverkfærum sem henta til leiðsagnarmats, svo sem orðadæmum og hugtakaskilningi auk verklegrar stærðfræðikennslu á framhaldsskólastigi. Við stefnum á að kennarinn verði leiðbeinandi við úrlausnir viðfangsefna og að efnið veki sannarlega áhuga nemenda er sjái hagnýtari tilgang með stærðfræðináminu. Að nemendur venjist því að tjá sig um stærðfræðilegar úrlausnir og öðlist færni til að bæði prófa nýjar aðferðir og gera mistök, að nemandinn verði meðvitaðri um nám sitt. Að auka þekkingu okkar sem kennara á hinum stafræna heimi sem auðveldar samskipti nemenda og kennara.
Hér er verkefni sem við vonumst til að geti orðið öðrum fyrirmynd, höfum ekki séð sambærilegt verkefni hérlendis á framhaldsskólastiginu þar sem unnið er kerfisbundið með alla stærðfræðiáfanga einstaks framhaldsskóla í stafrænu skólaumhverfi og þeir aðlagaðir að leiðsagnarmati. Stærð skólans á Laugarvatni gerir hann að heppilegum vettvangi innleiðingar nýjunga. Stærðfræðin er líklega íhaldssamasta kennslugreinin ef litið er til nýjunga í skólastarfi. Allir áfangar verða settir eins upp (stöðluð uppsetning) í námsumhverfi er býður upp á samvinnu nemenda og kennara (OneNote).
Áætlaður afrakstur er námsumhverfi, starfendarannsókn og forsnið fyrir aðra skóla. Vinna við verkefnið fer að mestu fram í ágúst 2017 við undirbúning kennslu haustannar.
Nanna Traustadóttir
K2 – tækni- & vísindaleið við Tækniskólann
Á K2 fá nemendur tækifæri til þess að leggja stund á nám til stúdentsprófs þar sem námsumhverfið hefur tekið stór skref í átt til nútímans og til að mæta kröfum nýs nemendahóps. Aðalmarkmið Tækniskólans með K2 námsleiðinni er að bæði umgjörðin og uppbygging brautarinnar sé krefjandi, áhugaverð og gagnleg nemendum okkar við nám og störf í framhaldinu og í því tilliti hefur komið til samstarfs við bæði HR og fyrirtæki í atvinnulífinu. Á námsbrautinni er hver önn byggð upp af þremur jafn stórum lotum þar sem nemendur einbeita sér að tveimur kjarnagreinum í senn. Kennsla einnar lotu á hverri önn fer fram í húsakynnum HR á Menntavegi. Námið er að miklu leyti verkefnamiðað sem hefur m.a. þýtt að töflukennsla er óveruleg á brautinni auk þess að kennarar setja nemendum fyrir heildstæð verkefni og vinna að því að tengja ólíkar faggreinar. Kennarar leggja mikið á sig til þess að gefa nemendum bæði ákveðinn vinnuramma en jafnframt frelsi til þess að taka eigin ákvarðanir í verkefnavinnunni og efla bæði áhuga og ábyrgðartilfinningu nemenda í hvívetna. Í lok hverrar annar fer fram tveggja vikna krefjandi lokaverkefni í samstarfi við fyrirtæki í atvinnulífinu, verkefnin eru ávallt tengd þeim kjarnagreinum sem farið var yfir á önninni. Námið er að mestu rafrænt og helsta verkfæri nemenda í náminu er fartölva. Í öllum greinum er leitast við að nýta rafrænar bækur og/eða rafrænt efni til námsins, námsumhverfi á vefnum og hin ýmsu forrit til bæði heimildaöflunar og verkefnavinnu. Námið fór af stað haustið 2017 og eftir báðar annir hafa farið fram matsfundir með nemendum í bekknum. Helstu niðurstöður matsfunda gefa til kynna að nemendur hafa skýrar væntingar til þess að námið sé í senn krefjandi, í alla staði rafrænt og óhefðbundið. Nemendum líður vel á K2 og eru ánægðir með námið.
Rakel Dögg Hafliðadóttir
Heilsumarkmiðin mín og aukið heilbrigði í Framhaldsskólanum á Húsavík
Þróunarverkefnið „Heilsumarkmiðin mín“ beinist sérstaklega að nýnemum við Framhaldsskólann á Húsavík (FSH). Verkefnið felst annars vegar í fyrirlögn spurningalista í upphafi og lok skólaárs sem inniheldur spurningar tengdar lifnaðarháttum. Hins vegar felur það í sér að bæði í upphafi haust-og vorannar setja nemendur sér mælanleg markmið innan fjögurra meginþátta; svefnvenjum, andlegri líðan, mataræði og hreyfingu. Markmiðasetning er framkvæmd í einstaklingsviðtali við einn í verkefnisstjórn, sem skipuð er af þremur starfsmönnum skólans og einum aðila frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, þ.e. íþróttakennara, námsráðgjafa/sálfræðikennara, forvarnar-og félagsmálafulltrúa og hjúkrunarfræðingi. Á skólaárinu fara nemendur fjórum sinnum í viðtöl þar sem staða og árangur er metinn. Að auki fer fram markviss fræðsla og verkefnavinna í lífsleiknitímum við skólann er snúa að meginþáttunum fjórum. Áhersla er lögð á meta heilsufarslegan ávinning þess að setja sér skýr markmið um bætta lifnaðarhætti og kenna nemendum að setja sér markmið. Markmiðið með vinnunni er að ýta undir vitund nemenda, ábyrgð þeirra og jákvæðni gagnvart eigin heilsu. Árangur af verkefninu hefur verið metinn af nemendunum sjálfum þar sem nemendur skila inn nafnlausum svörum við eftirtöldum spurningum: Hvað finnst mér jákvætt við verkefnið Heilsumarkmiðin mín?; Hvað finnst mér neikvætt við verkefnið Heilsumarkmiðin mín?; Hvað vil ég sjá öðruvísi í þessu verkefni? Heilt á litið hafa nemendur verið afar jákvæðir í garð verkefnisins, verkefnið hefur þróast í takti við viðhorf og mat nemenda og er verkefnið því alltaf í þróun í takti við nýjan nemendahóp. Samhliða þróunarverkefninu hefur heilsuráð skólans eflst og unnið hin ýmsu verkefni samhliða til að hlúa að heilsueflingu allra nemenda. Helst má nefna Haustlitaferð, Matarworkshop og Þrettándahopp.
Sigrún Svafa Ólafsdóttir og Skúli Brynjólfsson
Vendinám – flippið. Hvað finnst þeim?
Greint verður frá skoðun nemenda og kennara á því að stunda vendinám. Hjá Keili hefur safnast sjö ára reynsla af vendinámi. Nemendur skipta hundruðum. Flestir hafa samanburð við hefðbundna „kennslu“ og því fróðlegt að bera saman reynslu nemenda og kennara af ólíkum aðferðum.
Solveig Guðmundsdóttir
Jarðfræði og söguslóðir Eyrbyggja sögu í Fjölbrautaskóla Snæfellinga
Í þverfaglegum áfanga sem kallast Jarðfræði og söguslóðir Eyrbyggja sögu var stefnt saman íslenskum miðaldabókmenntum og jarðfræði. Söguslóðir þessarar Íslendingasögu eru á Snæfellsnesinu norðanverðu þar sem nemendur búa og er hún meðal þekktari Íslendingasagna. Sagan samanstendur af nokkrum stuttum þáttum eða sjálfstæðum sögum sem gerast á mismunandi stöðum á Snæfellsnesi. Í ljósi þess að Snæfellsnesið býr yfir ágætu sýnishorni af jarðfræði Íslands var upplagt að samþætta þessi tvö fög, íslensku og jarðfræði, og kenna námsefnið í einum og sama áfanganum. Við þennan samruna breyttust áherslur og nærumhverfi nemenda var sett í brennidepil. Þá var einnig áhersla lögð á tjáningu og miðlun upplýsinga því lokaverkefni nemenda fólst í að skipuleggja leiðsögn um Snæfellsnesið og fór hópurinn í rútuferð í byrjun maí þar sem nemendur sáu alfarið um fræðslu og leiðsögn. Helstu kostir samþættingarinnar voru t.d. þeir að nemendur gátu nýtt jarðfræðiþekkingu sína betur og yfirfært hana á annað umhverfi og aðra staði og þeir áttu auðveldara með að skilja, rifja upp og endursegja söguna. Loks mætti nefna að viðhorf nemenda til bókmenntaarfsins var umtalsvert jákvæðara en alla jafna og þar skilaði jarðtenging Eyrbyggja sögu sér ótvírætt.
Súsanna Margrét Gestsdóttir
Hvað gera íslenskir sögukennarar til að stuðla að sögulegri hugsun nemenda?
Um árabil hefur söguleg hugsun verið mikilvægur þáttur sögunáms á framhaldsskólastigi víða um lönd. Markmiðið er að nemendur skilji að sú saga sem lesa má í skólabókum er mannanna verk, fremur en samsafn þekkingaratriða. Til þess þurfa þeir að koma auga á ólík söguleg sjónarhorn, gera sér grein fyrir því hvað ræður sögulegu mikilvægi, geta stundað heimildarýni og greina breytingar og stöðugleika, svo eitthvað sé nefnt. Rannsóknir hafa sýnt að þó að sögukennarar séu allir af vilja gerðir reynist þeim þó stundum erfitt að átta sig á því hvað felst í kennslu á þessum nótum. Í þessu erindi verður sagt frá þróun greiningartækis, Teach-HTR (Historical Thinking and Reasoning) sem gerir kleift að greina það sem kennarar gera til að stuðla að sögulegri hugsun nemenda sinna. Tækinu var beitt á 57 sögutíma í íslenskum framhaldsskólum og verður fjallað um niðurstöðurnar. Í ljós kemur að margt af því sem fellur undir sögulega hugsun er hluti langflestra kennslustunda en annað vantar. Leitað verður skýringa, svo sem í menntun sögukennara hér á landi og þróun íslenskra námskráa. Rannsóknin er hluti af doktorsrannsókn við Háskólann í Amsterdam undir stjórn Cörlu von Boxtel og Jannet van Drie.
Valgerður Ósk Einarsdóttir
Ný námskrá, breytt nám í Menntaskólanum á Tröllaskaga
Umræða um nýja námskrá framhaldsskóla hefur einskorðast við lengd námsins fremur en innihald þess. Við þróun náms í Menntaskólanum á Tröllaskaga hefur megináherslan frá upphafi árið 2010 verið á heildstætt nám til stúdentsprófs. Skólinn lauk vorið 2017 sjöunda starfsári sínu með sinni 14. útskrift og hefur þá útskrifað alls 160 nemendur. Nemendur sem hafa lokið háskólanámi telja sig hafa hlotið góðan undirbúning fyrir háskólanám og þau sem ekki fóru í háskóla telja sig hafa lært vinnuaðferðir sem nýtast þeim í starfi. Einkunnarorðin Frumkvæði – Sköpun – Áræði endurspeglast í öllu starfi og eru áþreifanleg og hvetjandi. Kennsluaðferðir skólans eru fjölbreyttar og misjafnt hvað er notað í mismunandi áföngum en allir áfangar nýta sér leiðsagnar- og símat. Vendikennsla er stór þáttur í skólanum, nánast allir áfangar eru bæði í fjar- og staðnámi. Tímaramminn fyrir verkefnavinnu er mjög stífur, hver vika hefur sín verkefni og þeim skal lokið fyrir sunnudagskvöld, það er ekki í boði að skila of seint. Þrátt fyrir þennan stífa ramma þá eru verkefni mjög fjölbreytt og verkefnaúrlausnir geta verið nánast hvað sem er. Allir nemendur eru með tölvur við námið og farsímar eru töluvert notaðir. Nemendur læra verklag í námi en síðan er lögð áhersla á að þeir leiti leiða til að finna góð forrit eða aðferðir til að leysa verkefni í stað þess að vera með bein fyrirmæli um verkfæri og úrlausn verkefna. Skóli eins og Menntskólinn á Tröllaskaga mun aldrei verða búinn að þróast því allt starfið byggir á stöðugri þróun og nauðsynlegt að stjórnendur og allir starfsmenn séu sífellt að leita að nýjum og betri aðferðum. Framundan eru enn stærri og áhrifameiri breytingar en við höfum séð og erum við að undirbúa nemendur undir störf og samfélag sem við þekkjum ekki ennþá.
Valgerður S. Bjarnadóttir
Tækifæri nemenda til að hafa áhrif á nám sitt: Menntun til lýðræðis eða ógn við námsmarkmið?
Í nýlegum framhaldsskólalögum kemur fram að nemendur eigi rétt á því að koma á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Jafnframt skal taka tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er. Þessi grein laganna er nýjung – rétt eins og grunnþættir menntunar, sem eiga það sameiginlegt að byggja á hugmyndum um sterkari stöðu nemandans og getu og vilja til að hafa áhrif á samfélag sitt. Þessar áherslur vekja meðal annars eftirfarandi spurningar: Hvernig ná þessar áherslur til nemenda? Á hvað geta nemendur haft áhrif og hvernig? Þessar spurningar verða ræddar út frá hugmyndum um markmið menntunar, félagslega mismunun og aukna einstaklingshyggju. Notast verður við gögn úr viðamikilli rannsókn á níu íslenskum framhaldsskólum til að varpa ljósi á viðfangsefnið, auk etnógrafískra gagna úr einum framhaldsskóla. Helstu niðurstöður eru þær hugmyndir um aukin áhrif nemenda virðast almennt ná illa til nemendanna sjálfra og formlegar leiðir til áhrifa eru óljósar og jafnvel gagnslausar í hugum þeirra. Tilraunir nemenda til að stytta kennslustundir eða finna leiðir til að vanrækja námsmarkmið virðast bera meiri árangur en óskir þeirra um leiðir til að öðlast betri skilning á námsefninu. Tækifæri nemenda til að hafa áhrif á námstilhögun byggja oftar en ekki á einstaklingsframtaki þeirra og ógna ekki hefðbundinni valdauppbyggingu í hinu félagslega rými skólastofunnar.
Vanda Sigurgeirsdóttir
Að vinna með félagslegan vanda í framhaldsskólum
Um 15 – 30% barna glíma við félagslegan vanda af einhverju tagi, svo sem vinaleysi, einmannaleika, höfnun og einelti. Sum þessara barna lenda í erfiðleikum í framhaldsskóla og mörg gefast upp. Í erindinu verður greint frá þróunarstarfi í grunnskólum sem miðar að því að finna þessi börn og vinna með þau. Nú þegar hefur aðferðin verið kynnt í þremur framhaldsskólum þar sem hún hefur vakið athygli og áhuga. Um er að ræða forvarnarverkefni sem hefur það markmið að hafa jákvæð áhrif á líf barna og ungmenna með því að virkja kennara og veita þeim verkfæri. Framhaldsskólar hafa verið nokkuð “stikk frí” í eineltisumræðunni undanfarna áratugi. Örugglega er verið að vinna gott starf á mörgum stöðum en það er að mestu í hljóði. Umræðan er lítil og ekki er mikið um rannsóknir á einelti í framhaldsskólum. Því þarf að breyta, því kennarar og starfsfólk framhaldsskóla hafa tækifæri á að hafa veruleg áhrif á velferð ungmenna í félagslegum vanda.
Vibeke Svala Kristinsdóttir, Jóna Svandís Þorvaldsdóttir og Björk Ingadóttir
Jafnrétti í framhaldsskólum. Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ
Við sækjum um að vera með málstofu til að kynna þróunarverkefnið Jafnrétti í framhaldsskólum sem við höfum unnið að síðustu misseri. Verkefnið var unnið í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ, þar sem við kennum, en það hefur hlotið styrk frá Framkvæmdasjóði jafnréttismála sem nýttur verður til að útfæra verkefnið fyrir alla framhaldsskóla á Íslandi. Við höfum þróað sjálfsmatskerfi til að leggja mat á og efla jafnréttisvitund í framhaldsskólum. Um er að ræða tvo kvarða; sjálfsmatskvarða skóla sem framhaldsskólar geta notað til þess að meta stöðu jafnréttismála í víðum skilningi og sjálfsmatskvarða kennara sem kennarar geta notað til að meta samskipti sín, fagmennsku og skipulag. Um leið og það gefur innsýn í stöðu jafnréttismála í skólanum hefur fyrirkomulagið hvetjandi áhrif til að halda á lofti grunnþættinum jafnrétti. Verkefnið felur í sér ákveðið ferli sem ákjósanlegt væri að skólar nýttu sér í heild. Útlistun á þessu ferli, ásamt fyrstu útgáfu sjálfsmatskvarðanna og leiðbeiningum um notkun þeirra, verður aðgengileg á vefsíðu verkefnisins í haust. Því er gott að byrja strax að kynna verkefnið fyrir áhugasömu skólafólki.
Þorlákur Axel Jónsson
Innritun í framhaldsskóla: endurnýjun félagslegrar aðgreiningar eða lyktir sanngjarnrar samkeppni?
Innritun í framhaldsskóla felur í sér mikilvæg umskipti í námsferli nemenda og fær athygli í fréttum og umræðu þjóðfélagsins. Fræðilegar rannsóknir á innrituninni hafa samt sem áður verið takmarkaðar. Skólakerfið er skipulagt í samræmi við meginreglur um framgang í krafti hæfni. Í erindinu er sett fram greining á þeim félagslegu ferlum sem eru að verki við innritun nýnema í framhaldsskóla. Markmið erindisins er að greina innritunina með því að horfa til meginstrauma í félagsfræði menntunar. Varpað verður fram ólíkum skýringarmöguleikum. Ber að lýsa innritunarferlinu sem frjálsum og sanngjörnum skólamarkaði jafnra tækifæra? Á frekar að líta á hana sem ójafnan leik á vettvangi þar sem millistéttin nýtir sér uppsafnaðan auð sinn til þess að tryggja færslu félagslegra yfirráða milli kynslóða? Sett verður fram lýsing á skólavali nemenda á höfuðborgarsvæðinu fyrir um áratug bæði í heild og fyrir einstaka framhaldsskóla á grunni aðhvarfsgreiningar á sambandi innritunarinnar við fyrri námsárangur nýnemahópa, félagslegrar stöðu þeirra og hreyfanleika milli svæða við innritunina (N 2235). Fram kemur að við innritunina greinast nemendur í félagslega einsleita hópa sem náðu áþekkum námsárangri í grunnskóla. Báðar skýringartilraunirnar hafa nokkuð til síns máls. Hugmyndin um stéttleysi innritunarinnar fær þó varla staðist eftir þessa athugun.
Þorsteinn Kristjáns Jóhannsson
Khan Academy í stærðfræðikennslu
Þorsteinn K. Jóhannsson hefur verið að leiða þróunarstarf innan Tækniskólans þar sem Khan Academy er notað í stærðfræðikennslu. Engin próf, engin töflukennsla, engar kennslubækur. Nemendur vinna á sínum hraða og í sömu kennslustund geta nemendur verið á mörgum mismunandi stærðfræðistigum. Hlutverk kennarans er utanumhald og verkstjórn. Einnig er hlutverk kennarans að aðstoða þá sem eru í vandræðum en yfirsýn kennarans á stöðu nemenda er hans helsta verkfæri. Nú hefur þetta verið notað í eitt ár í K2 námsleiðinni með góðum árangri. Á næstu misserum verður þetta innleitt að hluta í almennu námi í Tækniskólanum.
Þuríður Jóhannsdóttir
Fjarmenntaskólinn, samstarfsnet framhaldsskóla á landsbyggðinni.
Kynnt verður rannsókn á Fjarmenntaskólanum, samstarfsvettvangi þrettán framhaldsskóla á landsbyggðinni sem ætlað er að tryggja fjölbreytt framboð náms og styrkja fámenna skóla með fjarnámi. Samstarfsnetið er m.a. skiptimarkaður þar sem nemendur geta tekið áfanga í fjarnámi á milli skóla. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á starfsemi og þróun Fjarmenntaskólans og gildi hans fyrir starfsemi lítilla skóla á landsbyggðinni. Rannsóknarspurningarnar eru: Hvaða aðstæður í ytra umhverfi skólanna leiddu til stofnunar Fjarmenntaskólans og hvernig hefur hann þróast? Hvernig getur skilningur á gildi starfsemi Fjarmenntaskólans og greining á möguleikunum sem felast í samstarfsnetinu orðið til að efla skólana til að takast á við þær áskoranir sem breyttar þjóðfélagsaðstæður skapa? Gögnin sem byggt er á eru skráð gögn um starfsemi Fjarmenntaskólans og upplýsingar um áhrif hans á starfsemi þeirra skóla sem að honum standa sem aðgengileg eru á heimasíðum skólanna svo og með símaviðtölum við áfangastjóra og/eða fjarnámsstjóra skólaárið 2016-2017. Beitt er menningar- og sögulegri kenningu (e. cutural-historical theory) við að greina áhrifaþætti sem skipt hafa máli og hafa áhrif á mögulega framtíðarþróun. Rannsóknin leiðir í ljós hvernig samstarfsnetið hefur styrkt faglegt skólastarf á marga vegu en jafnframt að það er ólíkt hvernig samstarfið hefur gagnast skólum. Niðurstöður skýra hvernig Fjamenntaskólinn hefur átt þátt í að efla skólastarf á landsbyggðinni og þá möguleika sem samstarfið hefur til að takast á við nýjar áskoranir.