Fréttabréf 12. september 2019

Ráðstefna um rannsóknir í framhaldsskólum

Samtökin taka þátt í ráðstefnunni MENNTUN TIL FRAMTÍÐAR: RÁÐSTEFNA UM RANNSÓKNIR OG NÝBREYTNI Í FRAMHALDSSKÓLUM sem haldin verður í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þann 20. september 2019, kl. 12:30–17:30. Aðalfyrirlestur flytur Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og nefnir hún erindið „Allir í fjölskyldunni hafa farið í þennan skóla nema ég“: Skólaval, sjálfsmyndarsköpun og áskoranir nemenda í framhaldsskólum í borginni og á landsbyggðinni. Í kjölfarið verða kynningar á nýbreytnistarfi og rannsóknum  í málstofum. Að ráðstefnunni standa: Félag framhaldsskólakennara, Félag stjórnenda í framhaldsskólum, Skólameistarafélag Íslands, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Námsbraut Háskóla Íslands um kennslufræði framhaldsskóla, Rannsóknastofa um þróun skólastarfs.

Sjá nánar um ráðstefnuna og skráningu á þessari slóð: https://skolathroun.is/menntun-til-framtidar/

Snjallt skólastarf – möguleikar og áskoranir nýrrar tækni

Þann 14. ágúst héldu Samtök áhugafólks um skólaþróun ágústráðstefnu sína í samstarfi við RANNUM. Yfirskrift ráðstefnunnar var: Snjallt skólastarf – möguleikar og áskoranir nýrrar tækni. 

Daginn áður, þann 13. ágúst, flutti  dr. Jennifer Rowsell, prófessor við Háskólann í Bristol fyrirlestur í tengslum við ráðstefnuna, sem hún nefndi: Feeling Smart & Being Digital: Embracing the possibilities of digital pedagogy in challenging times (Verum snjöll: Tökum tækifærum upplýsingatækni í skólastarfi opnum örmum á ögrandi tímum). Sjá nánar um fyrirlesturinn hér.

Ráðstefnan var haldin í húsakynnum Menntavísindasviðs (áður Kennaraháskóli Íslands) og sóttu 300 þátttakendur ráðstefnuna.

Skólaþræðir

Fjölmargar greinar hafa birst í vefritinu okkar í sumar.

Sigrún Lilja Jónasdóttir, stærðfræðikennari í Austurbæjarskóla, skrifar þrjár greinar þar sem hún segir frá heimsókn sinni í tvo framhaldsskóla í Toronto í Kanada. Sigrún beinir sjónum einkum að stærðfræðikennslunni. Í fyrstu greininni, sjá hér, fjallar hún um hvernig unnið er með nemendum með annað móðurmál en ensku eða frönsku. Í annarri greininni, sjá hér, fjallar hún um skólana, stærðfræðikennara og vinnuaðstöðu þeirra og í þeirri þriðju um námsefni í stærðfræði, kennsluaðferðir og fleira, sjá hér.

Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, birtir grein um snjallt skólastarf, sjá hér og Helgi Skúli Kjartansson, prófessor emerítus við Háskóla Íslands skrifar um álitamál sem tengjast hópvinnubrögðum, sjá hér. Birna María B. Sveinbjörnsdóttir, Hildur Hauksdóttir og María Steingrímsdóttir segja frá áhugaverðum námskeiðum sem tengjast starfsþróun kennara og hafa verið í boði við Háskólann á Akureyri, sjá hér. Anna Magnea Hreinsdóttir skrifar um styrkleika leikskólastigsins á Íslandi í ljósi skýrslu Eurydice, sjá hér.

Þema ársþingsins í nóvember: Starfsþróun kennara – hvar eru tækifærin?

Undirbúningi ársþingsins okkar 6. nóvember er að mestu lokið. Þingið verður haldið í samvinnu við Félag um starfendarannsóknir, en ákveðið hefur verið að leggja síðarnefnda félagið niður og hvetja félagsmenn þess til að ganga í það fyrrnefnda.

Á þinginu, sem haldið verður í Menntaskólanum við Sund, 6. nóvember, kl. 15.00-19.30 verða ræddar þær leiðir sem kennarar og annað fagfólk í skólum getur farið til starfsþróunar – einkum það sem vel hefur gefist! Heiðursgestur og aðalfyrirlesari verður Hafþór Guðjónsson, fv. dósent við Menntavísindasvið, en hann hefur öðrum fremur unnið að því að innleiða starfendarannsóknir í skólastarf hér á landi.

Þinginu lýkur með sameiginlegum kvöldverði og léttum veitingum í boði samtakanna.

Sjá dagskrá og upplýsingar um skráningu á þessari slóð: https://skolathroun.is/starfsthroun-kennara-hvar-eru-taekifaerin/

Íslensku menntaverðlaunin

Eins og áður hefur verið greint frá hafa samtökin verið að beita sér fyrir því að koma á árlegri viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf eða annað menntaumbótastarf. Stefnt er að undirritun samkomulags um þetta verkefni fljótlega.

Viðurkenningarráð verðlaunanna er þannig skipað

  • Embætti forseta Íslands: Gerður Kristný Guðjónsdóttir (formaður)
  • Mennta- og menningarmálaráðuneyti: Björk Óttarsdóttir
  • Félag um menntarannsóknir: Oddný Sturludóttir
  • Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa: Anna Magnea Hreinsdóttir
  • Kennaradeild Háskólans á Akureyri: Sigríður Margrét Sigurðardóttir
  • Kennarasamband Íslands: Ragnar Þór Pétursson
  • Menntamálastofnun: Þóra Björk Jónsdóttir
  • Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Anna Kristín Sigurðardóttir
  • Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri: Laufey Petrea Magnúsdóttir
  • Samband íslenskra sveitarfélaga: Klara E. Finnbogadóttir
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti: Sigtryggur Magnason
  • Samtök áhugafólks um skólaþróun: Hafþór Guðjónsson
  • Starfsmaður ráðsins: Ingvar Sigurgeirsson

Árgjald félagsins

Árgjald til félagsins, kr. 2000.- verður sett í innheimtu fljótlega. Við minnum á að árgjaldið veitir afslátt af ráðstefnugjöldum og er aðgöngumiði að ársþingi samtakanna. Með árgjaldinu styrkja félagsmenn útgáfu Skólaþráða, veftímaritsins okkar, auk þess að styðja við margs konar verkefni sem beinast að því að bæta skólastarf í landinu. Félagsmenn eru nú 800 og við hvetjum ykkur til að vekja athygli á félaginu.