Fréttabréf 15. maí 2019

Snjallt skólastarf – möguleikar og áskoranir nýrrar tækni

Myndin er tekin af heimasíðu Kópavogsskóla

Við minnum á ráðstefnuna miðvikudaginn 14. ágúst nk. Skráning er í fullum gangi en við vekjum athygli á því að aðeins 300 komast á ráðstefnuna svo ef þið viljið tryggja ykkur sæti er rétt að hafa hraðann á.

Nánari upplýsingar og skráning er á þessari slóð: https://skolathroun.is/radstefnur/snjallt-skolastarf/

Í tengslum við ráðstefnuna flytur dr. Jennifer Rowsell, prófessor við Háskólann í Bristol, fyrirlestur í Skriðu (Menntavísindaviði Háskóla Íslands) þann 13. águst, kl. 15.00. Fyrirlesturinn nefnir hún Feeling Smart & Being Digital: Embracing the possibilities of digital pedagogy in challenging times (Verum snjöll: Tökum tækifærum upplýsingatækni í skólastarfi opnum örmum á ögrandi tímum). Sérstök skráning er á fyrirlesturinn, sjá nánar hér: https://skolathroun.is/radstefnur/snjallt-skolastarf/feeling-smart-being-digital-embracing-the-possibilities-of-digital-pedagogy-in-challenging-times/

Íslensku menntaverðlaunin

Eins og ykkur er væntanlega kunnugt hafa samtökin verið að beita sér fyrir því að koma á árlegri viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf eða annað menntaumbótastarf. Nú hafa orðið þau tíðindi að forseti Íslands hefur boðið samstarf um slíka viðurkenningu undir merkjum Íslensku menntaverðlaunanna sem embættið veitti hér á árum áður og síðast 2012. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur veitt styrk til verkefnisins og fjölmargir aðrir aðilar leggja þessu lið. Umsýsla verðlaunanna verður í höndum samtakanna. Eins og mál standa nú verða verðlaunin svona:

  1. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein viðurkenning er veitt í þessum flokki. Viðurkenning fyrir framúrskarandi menntaumbótastarf er veitt skóla eða annarri menntastofnun, sem lagt hefur af mörkum við að stuðla að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
  2. Framúrskarandi kennari. Ein viðurkenning er veitt í þessum flokki til kennara sem lagt hefur að mörkum við að stuðla að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
  3. Framúrskarandi þróunarverkefni. Viðurkenningar fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veittar verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hefur ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.

Að auki verður veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem lagt hafa af mörkum við að stuðla að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.

Skólaþræðir

Ánægjulegt er að segja frá því að margar greinar í tímaritinu okkar hafa vakið umtalsverða athygli. Sú grein sem mesta athygli hefur fengið er grein Rannveigar Oddsdóttur þar sem hún gagnrýnir hraðapróf og hraðaviðmið í svokölluðum lesfimiprófum. Samkvæmt teljara hefur greinin verið skoðuð 10739 sinnum. Grein Rannveigar má finna á þessari slóð: http://skolathraedir.is/2018/02/21/hversu-hratt-er-nogu-hratt/

Grein Baldurs Sigurðssonar um læsi hefur verið opnuð 7900 sinnum! Grein Baldurs á þessari slóð: http://skolathraedir.is/2017/09/24/punktar-um-laesi-i-vidum-skilningi/

Nýjasta greinin í Skólaþráðum er fyrsta grein af þremur þar sem Sigrún Lilja Jónasdóttir, kennari í Austurbæjarskóla, segir frá heimsókn sinni í tvo framhaldsskóla í Torontó í Kanada fyrr á þessu ári. Í þessari fyrstu grein segir Sigrún Lilja frá því hvernig komið er til móts við nemendur með annað tungumál en ensku eða frönsku, sjá hér: http://skolathraedir.is/2019/05/04/horft-a-mottoku-nemenda-med-annad-modurmal-en-ensku-eda-fronsku-skoli-margbreytileikans-i-toronto-med-staerdfraedigleraugum/

Ársþingið í nóvember verður helgað starfsþróun

Ákveðið hefur verið að halda næsta ársþing samtakanna miðvikudaginn 6. nóvember nk. Þingið verður haldið í húsakynnum Menntaskólans við Sund. Þemað verður starfsþróun kennara. Sjónum verður meðal annars beint að starfendarannsóknum og öðrum leiðum til að þróa sig í starfi eða bæta kennslu sína.

Ráðstefna um rannsóknir í framhaldsskólum

Samtökin taka þátt í ráðstefnunni MENNTUN TIL FRAMTÍÐAR: RÁÐSTEFNA UM RANNSÓKNIR OG NÝBREYTNI Í FRAMHALDSSKÓLUM sem haldin verður í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þann 20. september 2019, kl. 12:30–17:30. Á ráðstefnunni verður Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands með aðalfyrirlestur. Í kjölfarið verða kynningar á nýbreytnistarfi og rannsóknum  í málstofum.

Hér með er auglýst eftir kennurum og öðrum sem vilja segja frá rannsóknum sínum á framhaldsskólastarfi eða tala um nýbreytni og þróunarstarf í framhaldsskólum. Áhugasömum er boðið að senda útdrátt úr erindi sínu þar sem gerð er grein fyrir rannsóknarspurningum eða markmiðum, aðferðum og helstu niðurstöðum og ályktunum í  200–300 orða ágripi. Erindin verða 10–15 mínútur hvert og í kjölfarið stuttar umræður. Undirbúningsnefnd áskilur sér rétt til að takmarka fjölda erinda eða velja þær tillögur sem henta best þema ráðstefnunnar.

Óskir um málstofuerindi skal senda í síðasta lagi þann 3. júní á vefsvæði Skólameistarafélags Íslands, sjá https://www.dropbox.com/request/6fuyCcd4CrB4VlmcV4VE

Nánari upplýsingar veita Ólafur Hjörtur Sigurjónsson starfsmaður Skólameistarafélags Íslands, netfang smi@smi.is og Guðrún Ragnarsdóttir hjá Menntavísindasviði HÍ netfang: gudrunr@hi.is.

Að ráðstefnunni standa:

  • Félag framhaldsskólakennara
  • Félag stjórnenda í framhaldsskólum
  • Skólameistarafélag Íslands
  • Samtök áhugafólks um skólaþróun
  • Námsbraut Háskóla Íslands um kennslufræði framhaldsskóla
  • Rannsóknastofa um þróun skólastarfs
Scroll to Top