Snjallt skólastarf – möguleikar og áskoranir nýrrar tækni
Ágústráðstefna samtakanna er að þessu sinni í samstarfi við RANNUM (Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun. Ráðstefnan verður í húskynnum Menntavísindasviðs (Kennó) 14. ágúst. Daginn áður, 13. ágúst, kl. 15.00 flytur opin fyrirlestur, dr. Jennifer Rowsell, prófessor við Háskólann í Bristol, fyrirlestur í Skriðu (Menntavísindaviði Háskóla Íslands). Fyrirlesturinn nefnir hún Feeling Smart & Being Digital: Embracing the possibilities of digital pedagogy in challenging times (Verum snjöll: Tökum tækifærum upplýsingatækni í skólastarfi opnum örmum á ögrandi tímum).
Skráning á ráðstefnuna mun hefjast nú eftir páska en hægt er að fylgjast með undirbúningi á þessari vefsíðu: https://skolathroun.is/radstefnur/snjallt-skolastarf/
Um lestur og læsi í grunn- og framhaldsskólum
Þann 1. apríl sl. var haldin í Hörpu ráðstefna um stöðu og framtíð íslenskukennslu í skólum landsins. Á ráðstefnunni voru kynntar niðurstöður umfangsmestu rannsóknar á stöðu íslenskukennslu sem gerð hefur verið hér á landi. Ritstjórn Skólaþráða, veftímarits samtakanna, falaðist eftir því að fá að birta þau erindi sem flutt voru. Fyrsta erindið, sem fjallar um lestur og læsi í grunn- og framhaldsskólum, hefur nú verið birt í Skólaþráðum: Brynhildur Þórarinsdóttir kallar grein sína „Það drap alveg minn yndislestur að vera í skóla“, sjá hér: http://skolathraedir.is/2019/04/14/thad-drap-alveg-minn-yndislestur-ad-vera-i-skola-um-lestur-og-laesi-i-grunn-og-framhaldsskolum/
Viðurkenning fyrir framúrskarandi starf að menntaumbótum
Stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun hefur að undanförnu, í samvinnu við fjölmarga aðila, unnið að því að koma á fót viðurkenningu fyrir framúrskarandi menntaumbætur og þróunarverkefni. Að þessum undirbúningi hafa komið fulltrúar eftirtaldra stofnana og samtaka: Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Grunnur, félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Félag um menntarannsóknir, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Sprotasjóður.
Til stóð að fulltrúar þessara aðila undirrituðu samkomulag um þessa viðurkenningu 2. maí en því hefur verið frestað og verður gert seinna í mánuðinum.
Markmið viðurkenninganna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi. Viðurkenningarnar verða veittar í tveimur flokkum:
- Framúrskarandi menntaumbætur. Ein viðurkenning veitt stofnun, félagasamtökum, hópi eða einstaklingi sem lagt hefur af mörkum við að stuðla að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
- Framúrskarandi þróunarverkefni. Allt að fjórar viðurkenningar eru veittar í þessum flokki, ein fyrir hvert af fyrstu þremur skólastigunum og ein sem tengist frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum sem hefur ótvírætt uppeldisgildi.
Sjá nánar á þessari slóð: https://skolathroun.is/vidurkenning-fyrir-framurskarandi-menntaumbotastarf/
Við hvetjum félagsmenn til að byrja strax að ígrunda hverjir eiga að hljóta þessar viðurkenningar í ár en opnað verður fyrir tilnefningar eftir 2. maí.