Fréttabréf 22. október 2020

Nóvemberráðstefnu aflýst

Í ljósi faraldursins – Covid 19 –  hefur verið ákveðið að efna ekki til ráðstefnu í nóvember, eins og hefur verið regla í starfi okkar frá upphafi. Stjórnin óskar eftir hugmyndum um viðburði sem félagsmenn hafa áhuga á og telja að unnt sé að efna til við núverandi aðstæður.

Íslensku menntaverðlaunin afhent

Íslensku menntaverðlaunin verða afhent á Bessastöðum 13. nóvember nk. Verðlaunin hafa verið endurvakin að frumkvæði okkar í Samtökum áhugafólks um skólaþróun og við höfum umsjón með framkvæmd þeirra. Verðlaunin voru stofnuð af Ólafi Ragnari Grímssyni og hann veitti þau 2005–2011, en þá lögðust þau því miður af þegar bakhjarlar þeirra brugðust. Nú standa alls þrettán aðilar að verðlaununum og skipar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, formann viðurkenningarráðs, sem nú er Gerður Kristný, skáld og rithöfundur.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Sú breyting hefur verið gerð við endurreisn verðlaunanna að þau ná til þriggja fyrstu skólastiganna og til félags- og tómstundastarfs með börnum, auk listnáms, en náðu áður aðeins til grunnskólastigsins.

Viðurkenningaráð tilnefndi á kennaradaginn (5. október sl.) fimm skóla, kennara og þróunarverkefni til verðlaunanna 2020. Einnig verða veitt sérstök hvatningarverðlaun. Sá háttur verður á hafður að forseti Íslands afhendir verðlaun fyrir framúrskarandi skólastarf, mennta- og menningarmálaráðherra kennaraverðlaunin og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra viðurkenningu fyrir framúrskarandi þróunarverkefni.

Við viljum hvetja félagsmenn okkar til að kynna verðlaunin sem víðast. Bent er á heimasíðu þeirra á þessari slóð: https://skolathroun.is/menntaverdlaun/

Hugmynd að merki fyrir samtökin

Auglýst er eftir hugmyndum að merki fyrir samtökin. Ekki þarf að vera um fullmótaða tillögu eða tillögur að ræða heldur hugmyndir sem hægt er að leggja fyrir teiknara eða hönnuð. Hvaða tákn á að nota fyrir skólaþróun? Þeir sem senda inn bitastæðar hugmyndir mega eiga von á glaðningi!

Nýjar greinar í Skólaþráðum

Við minnum á veftímaritið okkar, Skólaþræði og hvetjum ykkur til að skrifa í ritið, sem og að kynna það og þær greinar sem þar birtast. Eins að senda ritstjórn ábendingar um áhugavert efni. Ritstjórn skipa: Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjúnkt við Háskóla Íslands (amh(hja)hi.is), Inga Mjöll  Harðardóttir, sérkennari, Hagaskóla (Inga.Mjoll.Hardardottir(hja)rvkskolar.is), Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Háskóla Íslands (ábm.) (ingvars(hja)hi.is), Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor (valgerdur(hja)unak.is) og Vigfús Hallgrímsson, þróunarfulltrúi grunnskóla, Hafnarfjarðarbæ (vigfushallgrimsson(hja)gmail.com).

Nýjustu greinarnar Í Skólaþráðum eru þessar:

Umsögn stjórnar um tillögu að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla

Stjórn Samtakanna hefur fjallað um tillögu að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram og ákvað að senda umsögn um hana. Áríðandi er að efla móðurmálskennslu og kennslu náttúrugreina, en stjórnin er mótfallin því að það sé gert á kostnað valgreina á unglingastigi og sveigjanleika skólanna til að ráðstafa kennslustundum. Hér verði að finna aðrar leiðir. Umsögnina er að finna á þessari slóð: https://skolathroun.is/umsogn-samtaka-ahugafolks-um-skolathroun-vid-tillogu-ad-breytingu-a-vidmidunarstundaskra-grunnskola/  

 

Scroll to Top