Ágústráðstefnan
Því miður urðum við að fresta ágústráðstefnunni okkar að þessu sinni en hún átti að fjalla um kennslu í fjölbreyttum nemendahópum. Fullbókað var á ráðstefnuna og langur biðlisti. Vonandi getum við haldið hana að ári í samvinnu við Kennarasamband Íslands og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir ákvörðun um frestun var ákveðið að senda út einn aðalfyrirlesturinn, fyrirlestur dr. Barböru Laster, þar sem hún fjallaði um aðferðir til að efla orðaforða barna. Fyrirlesturinn, sem fluttur var mánudaginn 24. ágúst, var tekinn upp og er hægt að horfa á hann á þessari slóð: https://hi.cloud.panopto.eu/Panopto/Pages/Viewer.aspx?id=c8eb3ef8-dc15-49ad-ab8d-ac210134f522
Þá er rétt að nefna að Félag sérkennara á Íslandi hefur tekið að sér að standa fyrir viðburði nú í haust eða snemma vetrar um hvernig betur má koma til móts við fjölbreytta leikskólahópa.
Nóvemberráðstefna
Vegna ríkjandi aðstæðna hefur stjórn samtakanna frestað ákvörðunum um viðburð í nóvember en áform höfðu verið uppi um að efna til hugarflugsfundar um helstu sóknarfæri í skólastarfi.
Skólaþræðir
Veftímaritið okkar, Skólaþræðir, hefur nú verið gefið út í bráðum fjögur ár, en fyrstu greinarnar birtust í desember 2016. Alls hafa nú verið birtar 124 greinar sem flestar fjalla um þróunarstarf í skólum eða álitamál í skólastarfi. Við viljum eindregið hvetja félagsmenn til að skrifa í ritið. Greinar má senda til ritstjórnarmanna, sjá á þessari slóð: www.skolathraedir.is
Eins biðjum við ykkur um að aðstoða okkur við að vekja athygli á greinum sem birtast.
Íslensku menntaverðlaunin
Viðurkenningarráð Íslensku menntaverðlaunanna, sem samtökin hafa umsjón með í samvinnu við fjölmarga aðila, vinnur nú úr tilnefningum, en veitt verða verðlaun í þremur flokkum: framúrskarandi skóla- eða menntaumbótastarf, kennari og þróunarverkefni, auk hvatningarverðlauna. Tilnefningar verða kynntar á alþjóðlega kennaradeginum, 5. október, og verðlaunin afhent föstudaginn 6. nóvember, væntanlega á Bessastöðum.
Samtökin höfðu frumkvæði að því að endurvekja þessi verðlaun og þess vænst að veiting þeirra dragi athygli að mikilvægi öflugs skólastarfs. Um verðlaunin má lesa á þessari slóð: https://skolathroun.is/menntaverdlaun/
Félagsgjöld
Innheimta vegna félagsgjalda á að hafa borist ykkur í heimabanka. Félagsgjöld eru kr. 2 þús og er innheimtukostnaður tekinn af gjaldinu. Til hagræðingar eru ekki sendir út greiðsluseðlar – en kröfurnar birtast í heimabanka. Við vonum að félagsmenn hafi skilning á þessari tilhögun.