Fréttabréf í mars 2022

Ágústráðstefnan

Ágústráðstefna Samtaka áhugafólks um skólaþróun verður haldin í Stapaskóla í Reykjanesbæ föstudaginn 12. ágúst nk.

Þema ráðstefnunnar verður:

Með gleðina að leiðarljósi:  Kennarar sem leiðtogar og brautryðjendur í skapandi starfi

Áhersla verður lögð á að kynna skólastarf og þróunarverkefni þar sem kennarar hafa farið inn á nýjar brautir; „út fyrir rammann“.

Skorað er á félagsmenn að bjóða efni: Kynningar, málstofur, sýningar eða vinnustofur. Þeim sem hafa áhuga á að leggja af mörkum er bent á að snúa sér til ritara samtakanna: ingvars@hi.is

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Athygli er vakin á því að opnað hefur verið fyrir tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2022.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skóla- og frístundastarf, kennslu, þróunarverkefni, auk sérstakra hvatningarverðlauna til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Sérstök athygli er vakin á því að í ár bætist við nýr verðlaunaflokkur: Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun, ein verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar. Þessi nýi flokkur er til orðinn að frumkvæði Samtaka iðnaðarins sem nú hafa gengið til liðs við þá aðila sem að verðlaununum standa.

Tilnefningar þurfa að berast fyrir 1. júní, en viðurkenningarráð velur þrjár til fimm tilnefningar í hverjum flokki til kynningar á alþjóðadegi kennara 5. október. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í nóvember og mun RUV sýna frá afhendingunni.

Nánari upplýsingar um verðlaunin og tilnefningarnar er að finna á þessari slóð: https://skolathroun.is/menntaverdlaun/

Nýjar greinar í Skólaþráðum um þróunarstarf í leikskólum

Um þessar mundir birtist í Skólaþráðum, veftímariti samtakanna, greinaflokkur um frjótt og skapandi leikskólastarf (http://skolathraedir.is/). Greinarnar eru afrakstur samkeppni um greinaskrif sem samtökin efndu til á síðasta ári þar sem sóst var eftir greinum um þróunarstarf, nýbreytni, aðferðir, nálganir, skemmtilegar hefðir, námsumhverfi, hugmyndir og hugmyndafræði eða rannsóknir í leikskólum. Í dómnefnd sátu: Anna Magnea Hreinsdóttir (fulltrúi ritstjórnar), Bryndís Garðarsdóttir (menntavísindasviði HÍ, Kristín Dýrfjörð (HA) og Sveinlaug Sigurðardóttir (Krikaskóla).