Fréttabréf í nóvember 2020

Íslensku menntaverðlaunin 2020 

Vonandi hefur það ekki farið fram hjá neinum að Íslensku menntaverðlaunin 2020 hafa verið veitt að nýju eftir langt hlé. Verðlaunin voru endurvakin að frumkvæði okkar í Samtökum áhugafólks um skólaþróun og við sjáum einnig um framkvæmd þeirra í samvinnu við fjórtán öfluga aðila. Meðal þeirra sem koma að verðlaununum nú eru forseti Íslands, mennta- og menningarmálaráðherra og sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, þrír háskólanna, auk ýmissa félaga og samtaka.

Þeir aðilar sem standa að verðlaununum tilnefna fulltrúa í viðurkenningarráð sem valdi úr þeim tilnefningum sem bárust og kynnti niðurstöður á alþjóðlega kennaradeginum 5. október. Verðlaunin sjálf voru kynnt í stuttri kvikmynd sem var frumsýnd á samfélagsmiðlum 13. nóvember. Verðlaunahafarnir voru Birte Harksen, kennari við leikskólann Urðarhól í Kópavogi, Dalskóli i Reykjavík, sem er leik-, frístunda- og grunnskóli, fékk skólaverðlaunin og kennarar á unglingastigi í Langholtsskóla fengu verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni. Loks fengu Ingvi Hrannar Ómarsson og Utís-hópurinn sérstök hvatningarverðlaun.

Hægt er að horfa á myndina um verðlaunin á þessari slóð: https://youtu.be/cABYbHTMxqA

Margvíslegar upplýsingar um verðlaunin, verðlaunahafana og þau sem tilefnd voru, er að finna á heimasíðunni okkar á þessari slóð: https://skolathroun.is/menntaverdlaun/ og á Facebook-síðu verðlaunanna: https://www.facebook.com/menntaverdlaunin

Skólaþræðir

Fjölmargar greinar hafa verið að birtast í vefritinu okkar, Skólaþráðum (www.skolathraedir.is), að undanförnu. Enn og aftur hvetjum við ykkur til að skrifa í ritið, senda okkur ábendingar um efni og hjálpa okkur við að kynna það sem víðast, t.d. með því að vekja athygli á greinunum í samfélagsmiðlum og í skólum ykkar eða öðrum menntastofnunum. Ritinu er ætlað að vera vettvangur fyrir skólafólk til að miðla góðum hugmyndum og fyrir gagnrýna umræðu um stefnur og strauma í skólastarfi. Ritið þjónar öllum skólastigum og birtir fjölbreytt efni; langar og stuttar greinar, fréttir, pistla og umræðugreinar. Hægt er að nýta kosti vefmiðils með því að birta einnig hljóð- og myndefni. Þá er gefinn kostur á ritrýndu efni. Alls hafa nú um 140 greinar birst í ritinu sem er að verða fjögurra ára gamalt – og greinarnar eru flestar skrifaðar af starfandi kennurum og öðru skólafólki.

Starfið framundan

Covid hefur sett mark sitt á starf okkar, m.a. urðum við að fresta bæði ágúst- og nóvemberráðstefnum okkar. Vonandi getum við haldið þær báðar á næsta ári, en við erum nú einnig að leita að hugmyndum um hugsanlega viðburði í vetur og vor sem nýst geta áhugafólki um skólaþróun. Við hvetjum félagsmenn til að senda okkur hugmyndir (ingvars@hi.is). Félagssjóðurinn stendur ágætlega svo það er í góðu lagi að setja fram hugmyndir sem fela í sér einhvern kostnað!