Ágústráðstefnan: Öll börnin okkar: Hvernig komum við til móts við fjölbreyttan nemendahóp?
Vonandi getum við haldið ágústráðstefnu okkar í ár en við urðum að fresta henni í fyrra vegna covid. Flestir sem gáfu kost á efni í fyrra buðu krafta sína aftur nú og ber að þakka það. Nýr aðalfyrirlesari er Donata H. Bukowska, kennsluráðgjafi og sérfræðingur í skólaþróunarteymi mennta- og menningarmálaráðuneytisins en hún nefnir erindi sitt: Á vegamótum framtíðarinnar. Tækifæri sem leynast á ótroðnum slóðum. Er ný menntastefna baggi eða … ?
Skráning á ráðstefnuna mun hefjast um miðjan apríl og félagsmenn munu fyrstir fá orðsendingu þegar skráning hefst.
Sjá annars á þessari slóð: https://skolathroun.is/agustradstefnan-2020-oll-bornin-okkar-hvernig-komum-vid-til-mots-vid-fjolbreyttan-nemendahop/
Skólaþræðir
Fjölmargar greinar hafa verið að birtast í Skólaþráðum að undanförnu. Enn og aftur biðjum við félagsmenn um að aðstoða okkur við að kynna þær greinar sem birtast, t.d. með því að vekja athygli á þeim við samstarfsfólk eða á samfélagsmiðlum. Tilkynningar um nýjar greinar eru birtar á Facebook síðu samtakanna (https://www.facebook.com/skolathroun). Þeir félagsmenn sem ekki eru á Facebook en vilja fá tilkynningar um nýjar greinar í tölvupósti eru beðnir um að láta ritara vita: ingvars(hja)hi.is
Íslensku menntaverðlaunin 2021
Við minnum á að Samtök áhugafólks um skólaþróun hafa umsjón með Íslensku menntaverðlaununum, í samstarfi við fjölmarga aðila innan menntakerfisins, en verðlaunin voru endurvakin á síðasta ári. Hægt er að lesa sér til um verðlaunin og verðlaunaveitinguna á síðasta ári á þessari slóð: https://skolathroun.is/menntaverdlaun/
Á þessari vefsíðu eru líka upplýsingar um tilnefningar á þessu ári. Við hvetjum félagsmenn eindregið til að styðja þetta verkefni með því að leggja kynningu á verðlaununum lið og að sjálfsögðu með því að tilefna. Verðlaunin eru veitt í eftirfarandi flokkum:
- Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
- Framúrskarandi kennari. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
- Framúrskarandi þróunarverkefni.Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.
- Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtakasem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
MenntaStefnumót 10. maí 2021
Þann 10. maí nk. verður efnt til MenntaStefnumóts í Reykjavík en það er hugsað sem uppskeruhátíð þess þróunar- og nýsköpunarstarfs sem hefur sprottið upp í skóla- og frístundastarfi borgarinnar í tengslum við innleiðingu menntastefnu borgarinnar: Látum draumana rætast.
Mótið verður rafrænn viðburður og opinn öllum sem áhuga hafa. Sjá nánar á þessari slóð: https://menntastefna.is/menntastefnumot/
Á Menntastefnumótinu verða kynnt fjölbreytt verkefni úr skóla- og frístundastarfi. Samtök áhugafólks um skólaþróun leggja tvær kynningar til þessa viðburðar. Annars vegar mun Birte Harksen, leikskólakennari á Urðarhóli, kynna þróunarverkefni sitt: Börn og tónlist (sjá hér: https://www.bornogtonlist.net/) og hins vegar mun Freydís Kneif Kolbeinsdóttir, kennari í Gerðaskóla, kynna verkefnið Snillitíma, þróunarverkefni sem beinist að því að efla frumkvæði nemenda í námi og gefa þeim kost á að fást við skapandi verkefni á eigin áhugasviði (sjá nánar hér: https://skolathroun.is/snillitimar-i-gerdaskola/).
Þess má geta að Birte Harksen hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2020 sem framúrskarandi kennari og Snillitímaverkefnið var tilefnt til verðlaunanna sem framúrskarandi þróunarverkefni.
Skólaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 8. nóvember nk.
Í ár eru 25 ár liðin frá því allur rekstur grunnskóla var færður frá ríki til sveitarfélaga. Á þessum aldarfjórðungi hefur skólastarfi og skólaþróun fleygt fram og margháttuð framfaraskref verið stigin. Við þau tímamót þykir ástæða til þess að staldra við og líta yfir farinn veg en þó er fyrst og fremst tilefni til þess að taka stöðuna og horfa fram á veginn til næstu 25 ára. Hvernig við viljum sjá skólastarf þróast til framtíðar og hvernig viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að ná að uppfylla þá framtíðarsýn.
Á þessum tímamótum efnir Samband íslenskra sveitarfélaga til Skólaþings sveitarfélaga 8. nóvember nk. og hefur boðið mennta- og menningarmálaráðuneyti ásamt Samtökum áhugafólks um skólaþróun að eiga aðild að undirbúningi og áherslum í dagskrá.
Fulltrúi Samtakanna í undirbúningsnefnd verður Gerður G. Óskarsdóttir, fv. fræðslustjóri í Reykjavík.