Frístundalæsi

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2020

Framúrskarandi þróunarverkefni

Frístundalæsi er þróunarverkefni sem snýr að eflingu máls og læsis barna í gegnum leik á frístundaheimilum og í tómstundastarfi. Verkefnið byggist meðal annars á útgáfu handbóka fyrir starfsfólk og foreldra ásamt heimasíðu með hugmyndum og leiðbeiningum.

Hugmyndin að baki verkefninu beinist að því að nýta sóknarfæri í frístundastarfi til að efla málþroska og lesskilning barna. Þróun þess hófst árið 2014 þegar höfundar unnu að eflingu máls og læsis í frístundaheimilinu Glaðheimum i samstarfi við nærliggjandi leik- og grunnskóla og verkefnastjóra af skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Verkefnið lýtur að þróun heildstæðrar áætlunar um leiðir til að efla mál og læsi og leiðir til að virkja foreldra til þátttöku.

Árið 2018 stóðu höfundar, í samstarfi við Háskóla Íslands og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar að rannsókn sem beindist að því að skoða hvort tækifæri fælust til eflingar máls og læsis á frístundaheimilum og þá með hvaða hætti. Helstu niðurstöður gáfu til kynna að sóknarfærin væru mörg og í kjölfarið réðust höfundar í ritun handbókar og gerð vefsvæðis með fræðilegu efni, hagnýtum hugmyndum og ítarefni. Höfuðáhersla er lögð á vandað og hagnýtt efni fyrir starfsfólk frístundaheimila til eflingar máls og læsis í gegnum leik, nýtingu upplýsingatækni og markvissa notkun smáforrita af margvíslegri gerð. Frístundalæsi byggir á hugmyndafræði reynslunáms með virka þátttöku barna að leiðarljósi.

Á heimasíðu verkefnisins segir: „Til þess að efla mál og læsi barna er mikilvægt að skapa aðstæður þar sem börn fá tækifæri til að efla færni sína í samskiptum við jafnaldra, rökræða og gagnrýna. Frítími er mikilvægur í þessu samhengi. Þegar börn nota frítíma sinn á jákvæðan og uppbyggilegan hátt getur það aukið lífsgæði þeirra og framtíðarmöguleika.“

Verkefnið hefur hlotið styrki úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og Sprotasjóði ásamt því að hafa verið tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands árið 2019.

Sjá nánar um verkefnið á heimasíðu þess, í skýrslu um verkefnið sem og í handbók á heimasíðu Reykjavíkurborgar og í lokaskýrslu til Sprotasjóðs.

ÍSLENSKU MENNTAVERÐLAUNIN
Scroll to Top