Frístundamiðstöðin Tjörnin

Frístundamiðstöðin Tjörnin, skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, er tilefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2021 fyrir framsækið og fjölbreytt þróunarstarf, frumkvæði og nýbreytni

Tjörnin er frístundamiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða og þjónustar tæplega 40.000 manna byggð. Undir Tjörnina heyra 13 starfsstaðir, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar. Starfsmenn eru um 220 talsins og börn sem tengjast miðstöðinni um 3.600.

Markmiðið með starfi frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar er að koma til móts við þarfir ólíkra einstaklinga, stuðla að alhliða þroska þeirra og búa þá undir virka þátttöku í lýðræðissamfélagi sem tekur örum breytingum.

Tjörnin hefur verið framsækin og leitt mörg þróunar- og nýsköpunarverkefni frá því að hún tók til starfa árið 2016 og meðal annars verið leiðandi í lýðræðis og mannréttindavinnu með börnum og unglingum í Reykjavík. Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna 78 og frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar er dæmi um metnaðarfullt verkefni en hún er fyrir börn og unglinga á aldrinum 12-18 ára. Réttindaganga frístundaheimila Tjarnarinnar er farin ár hvert en þá minna börn á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og réttindi barna. Einnig hafa öll frístundaheimili og félagsmiðstöðvar Tjarnarinnar í Vesturbæ hlotið vottun sem réttindafrístundaheimili og félagsmiðstöðvar en þar er vottun frá UNICEF um að unnið sé eftir Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna.

Tjörnin vinnur eftir menntastefnu Reykjavíkurborgar og til þess nýtt stefnumiðuð stjórnun í því skini innleiða alla færniþætti í starfinu. Leitast er við að vinna eftir þeim aðferðum sem kenndar eru við heiltæka nálgun  og samvirkni (e. systematic improvement) og mikil áhersla á samvinnu og samstarf allra í uppeldisumhverfi barnsins. Megináhersla er á að greina og byggja á styrkleikum barna og unglinga. Í starfsáætlun Tjarnarinnar má lesa betur um hvernig unnið er eftir menntastefnu og frístundastefnu Reykjavíkurborgar.

Starf Tjarnarinnar hefur vakið athygli á landsvísu og út fyrir landsteinana.

Nokkur dæmi um þróunarverkefni sem starfsmenn Tjarnarinnar hafa unnið að:

  • Vaxandi valdefling: Efling fagmennsku í frístundastarfi í samstarfi við Háskóla Íslands: Vinnustofur um sjálfseflingu og félagsfærni. Meginmarkmiðið er að finna leiðir í frístundastarfi til að auka vellíðan og farsæld í lífi barna, unglinga og starfsmanna.
  • Hinsegin félagsmiðstöð Tjarnarinnar og Samtakanna 78: Félagsmiðstöðin sinnir öllum þeim unglingum á höfuðborgarsvæðinu sem hafa áhuga á fjölbreytileika.
  • Flotinn, flakkandi félagsmiðstöð: Flotinn er viðbót við almennar félagsmiðstöðvar sem starfa í hverfum borgarinnar á vegum frístundamiðstöðva. Flotinn starfar þvert á borgina og er ekki bundinn við eitt ákveðið hverfi.
  • Treystum böndin: Forvarnarátak: Treystum böndin er samstarf og samtal við foreldra og fræðsla um verndandi þætti í uppeldisumhverfi barna og unglinga. Í tengslum við verkefnið hefur frístundamiðstöðin Tjörnin gefið út handbók fyrir foreldra um foreldrarölt.