Garðar Geirfinnsson

Framúrskarandi kennari

Garðar Geirfinnsson, kennari við Grunnskólann í Þorlákshöfn, er tilnefndur il Íslensku menntaverðlaunanna 2021 fyrir áhugaverða og skapandi náttúrufræðikennslu.

 

Garðar er náttúrufræðikennari við Grunnskólann í Þorlákshöfn. Hann hefur kennt náttúrufræði í 5.–10. bekk og uppskorið lof fyrir meðal samstarfsfólks og nemenda. Náttúrufræði er ein vinsælasta námsgrein skólans og viðhorf nemenda til náttúrufræði einkar jákvætt. Garðar leggur mikla áherslu á verkleg verkefni sem höfða til nemenda og að þeir fái tækifæri til að kynna þau fyrir öðrum nemendum. Sérstaka athygli hefur vakið verkefni um sólkerfið sem nemendur í 10. bekk hanna í anda nýsköpunar og miðla til yngri nemenda í þeim tilgangi að læra að koma fram og miðla námsefni.

Úr umsögn sem fylgdi tilnefningu:

Garðar nálgast náttúrufræðikennsluna á fjölbreyttan hátt. Nemendur fá að spreyta sig á verklegum verkefnum auk þess sem þeir fá svigrúm til skapandi nálgunar þegar kemur að verkefnaskilum og námsmati. Hann hefur sinnt starfsþróun sinni af metnaði og er óhræddur við að fara ótroðnar slóðir. Hann tekur nýjungum með opnum huga og er alltaf tilbúinn að þróa kennsluna sína með það að leiðarljósi að vekja áhuga á hinum margbreytilegu viðfangsefnum náttúrufræðinnar. Garðar nær vel til nemenda á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og tekst að vekja upp forvitni og námsáhuga nemenda.