Guðríður Sveinsdóttir

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Guðríður Sveinsdóttir, kennari við Giljaskóla á Akureyri

Guðríður Sveinsdóttir, kennari við Giljaskóla á Akureyri, er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2022, fyrir framúrskarandi skapandi kennslu og fyrir að deila námsefni og reynslu með öðrum kennurum.

Guðríður lauk B.A. prófi í hagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands 2007 og kennaraprófi frá Háskólanum á Akureyri 2010. Þá hefur hún lagt stund á framhaldssnám um stærðfræðimenntun við Háskóla Íslands. Auk kennslu við Dalvíkurskóla og Giljaskóla hefur hún unnið á leikskóla og fengist við þjálfun í fimleikum. Guðríður hefur verið leiðbeinandi á námskeiði fyrir stærðfræðileiðtoga á vegum Menntafléttunnar. Auk stærðfræðimenntunar hefur hún lagt sig sérstaklega eftir upplýsingatækni og nýtir hana markvisst í kennslu sinni. Jafnframt leggur hún mikla áherslu á vellíðan nemenda sinna og að virkja áhuga þeirra í náminu.  

Guðríður hefur leitt þróunarstarf meðal annars um stærðfræðimenntun og upplýsingatækni í kennslu. Hún hefur verið ötul við að deila reynslu sinni með öðrum kennurum bæði með fyrirlestrum og á heimasíðum sem hún heldur úti:  

Í umsögn um Guðríði sagði m.a.: 

Guðríður er framúrskarandi kennari sem margt er hægt að læra af. Henni er umhugað um að allir nemendur hennar nái árangri og til að ná því besta fram í nemendum er hún sífellt að þróa sig í starfi. Hún hefur lagt sig fram um að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum sem hún er ævinlega tilbúin til að deila með samstarfsfólki sínu, jafnt í eigin skóla sem annars staðar. Guðríður er ein þeirra kennara sem af mikilli fagmennsku hefur m.a. tekist að tileinka sér notkun rafrænna kennsluhátta á fjölbreyttan og skapandi máta þannig að þeir auðgi námsaðstæður nemenda og styðja þá í að ná framförum. 

Guðríður hefur sýnt að hún er leiðtogi á marga vegu og áhrifa fagmennsku hennar gætir víða í skólastarfi; hún er ein af þeim fyrstu sem nýtti sér speglaða kennslu með því að taka upp kennslumyndbönd í stærðfræði og deildi með nemendum og foreldrum. Þannig auðveldaði hún m.a. þátttöku foreldra í námi barna sinna. Frá upphafi menntabúða #Eymennt hefur hún hvatt og stutt við aðra kennara með því að vera ávallt viðbúin til að deila þekkingu sinni og reynslu … Hún hefur því með áhuga sínum, áræðni og elju lagt sitt af mörkum við að hvetja til þátttöku og stutt á marga vegu við uppbyggingu á námssamfélögum kennara og þar með átt þátt í að auka fjölbreytni í kennsluháttum svo allir nemendur hafi tækifæri til að ná framförum.


Scroll to Top