Hanna Rún Eiríksdóttir

Framúrskarandi kennari

Hanna Rún Eiríksdóttir, kennari við Klettaskóla, er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2021 fyrir framúrskarandi kennslu nemenda með fötlun, meðal annars fyrir að þróa nýjar leiðir til tjáskipta.

 

Hanna Rún er sérkennari í Klettaskóla. Hún hefur lagt áherslu á að þróa óhefðbundnar leiðir til tjáskipta fyrir nemendur og að finna þær leiðir sem henta hverjum og einum nemenda svo að þeir fái tækifæri til að tjá sig og hafa eitthvað um daglegt líf og nám sitt að segja. Hanna Rún hefur þá sýn að allir einstaklingar eigi að hafa möguleika til tjáskipta og hefur lagt sig fram við að veita nemendum tækifæri til þess, til dæmis með augnstýringu og öðrum rafrænum úrlausnum. Hanna Rún hefur leiðbeint starfsfólki skóla víða um land í að skipuleggja óhefðbundin tjáskipti nemenda og haldið fyrirlestra og námskeið um efnið. Hún sinnir starfi sínu af miklum metnaði og ánægju og miðlar hugmyndum og kveikjum til skólafólks á samfélagsmiðlum og á Sérkennslutorgi.

Úr umsögn sem fylgdi tilnefningu:

Hanna Rún eyðir óteljandi klukkutímum fyrir utan vinnutíma sinn til þess að þýða forrit á íslensku svo okkar nemendur og aðrir sem hún fær tækifæri til að kynna leiðir til tjáskipta, fái tækifæri til að nýta tölvur/forrit til tjáskipta. Ég hef á mínum langa starfsferli með nemendum með sérþarfir ekki kynnst öðrum eins fagmanni sem leggur allt sitt líf undir til að veita sínum nemendum tækifæri til óhefðbundinna tjáskipta. Hún kynnir sér allar mögulegar leiðir eins og augnstýringu og tölvur/öpp og telur aldrei eftir sér að halda kynningu/fyrirlestur um tjáskipti innan skólans sem og utan skólans, eins og hjá stofnunum, hjá skólaþjónustum, skólum, sveitarfélögum, búsetuúrræðum, framhaldsskólum og fleirum án þess að taka eitthvað fyrir vinnuna.

 

Scroll to Top