Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022
Framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar
Kennarar á hársnyrtibraut Verkmenntaskólans á Akureyri fyrir áhugaverða þróun vinnustaðanáms
Alþekkt er að mörgum iðnnemum hefur reynst erfitt að komast á samning. Kennarar á hársnyrtibraut Verkmenntaskólans á Akureyri brugðust við þessu með því að þróa áfanga sem kenndir eru við vinnustaðanám. Markmiðið var að nemendur kæmust í kynni við fyrirtæki sem gæfu nemendum kost á að spreyta sig í verkefnastýrðu námi í samvinnu við kennara brautarinnar.
Vinnustaðanámið er þrepaskipt. Á þriðju önn heimsækja nemendur tíu mismunandi fyrirtæki einu sinni í viku og er þetta fyrirkomulag kennt við hringekju. Áfanginn heitir Áhorf og áhersla lögð á að fylgja eftir mentor á vinnustað. Nemendur kynnast vinnustaðnum og læra meðal annars að taka á móti viðskiptavinum, meðferð og umhirðu áhalda og tækja, ýmis vinnubrögð og skýrslugerð, auk þess að kynna sér vörur og þjónustu fyrirtækisins. Á fjórðu önn fara í nemendur í tólf vikur, tvo daga í viku, í tvö mismunandi fyrirtæki. Þessi áfangi heitir Aðstoð enda eru nemendur þá farnir að aðstoða mentor við almenn störf. Á fimmtu og sjöttu önn eru nemendur í vinnustaðanámi tvo daga í viku, auk þess að fara eina heila vinnuviku í mánuði á vinnustað. Þessi áfangi heitir Ábyrgð, en þá eru nemendur farnir að taka fulla ábyrgð á verkefnum sínum undir handleiðslu mentors.
Nú er komin fjögurra ára reynsla á þetta fyrirkomulag. Kennararnir á hársnyrtibrautinni hafa lagt á sig mikla vinnu við að undirbúa þessa breytingu og hrinda henni í framkvæmd. Þeir hafa meðal annars skrifað áfanga- og verklýsingar, samið verkefni fyrir verkefnastýrt nám, gert samninga við fyrirtæki og þróað samskiptaleiðir við fyrirtækin. Margt bendir til þess að þetta þróunarstarf geti orðið öðrum fyrirmynd.
Úr umsögn:
Í kjölfar allra þessara breytinga og samstarfs tel ég að nemendur sem brautskrást frá VMA séu vel undirbúnir undir starf sitt í faggreininni. Þeir byggja þekkingu sína og hæfni á því sem þeir læra í skólanum sem og þeim fjölbreyttu hársnyrtistofum sem taka þátt hverju sinni. Þannig eru þeir jafnframt betur upplýstir um það sem er að gerast á vinnumarkaðnum.
Hugmyndin kviknaði innan hársnyrtibrautinarinnar … Eftir samtal við nokkur fyrirtæki fór að myndast skýr sýn á hvað þyrfti til. Í framhaldi af því var ráðist í mikla vinnu og þekkingaleit sem kennarar hársnyrtibrautarinnar hafa aflað sér til að bæta íslenskt menntakerfi er einstakt. Þær hafa tekið þátt í nokkrum Erasmus verkefnum til að undirbúa sig og safna þekkingu og hæfni sem nauðsynleg er til að ráðast í svona stórar umbætur á íslensku starfsnámi. Samskiptahæfni þeirra og viðhorf til samstarfs við atvinnulífið er framúrskarandi. Þær leggja sig fram við að hlusta, leysa þau mál sem upp koma af fagmennsku og hafa ómælda þolinmæði við að byggja upp traust og góð samskipti. Þær þurfa að vera vel læsar á þann starfsanda sem ríkir í hverju fyrirtæki fyrir sig og vera tilbúnar að mæta öllum á miðri leið. Ég vona af öllu hjarta að öll sú vinna sem þær stöllur á hársnyrtibrautinni hafa lagt í þessar umbætur á námi í iðngreininni verði öðrum til fyrirmyndar.
- Heimasíða námsbrautarinnar: https://www.vma.is/is/namid/idnnamsbrautir/harsnyrtiidn-gnh