Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2023
Framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar
Haukur Eiríksson, kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri
fyrir að leiða þróun rafiðnnáms í VMA með áherslu á farsæld nemenda og stöðugar umbætur í námi og kennslu 
Haukur lauk sveinsprófi 1994 og B.Sc gráðu í tölvu- og upplýsingatæknifræði frá Tækniháskóla Íslands 2003 og bætti síðan við sig meistararéttindum í rafeindavirkjun. Haukur hefur kennt við Verkmenntaskólann á Akureyri frá 2015 og er nú brautarstjóri í Rafdeild skólans (Rafiðngreinadeild). Samhliða kennslu hóf hann meistaranám við Háskólann á Akureyri þar sem hann lagði áherslu á hagnýtingu á upplýsingatækni með aukin gæði í námi nemenda að leiðarljósi. Í meistaraprófsverkefni sínu vann hann starfendarannsókn þar sem hann rannsakaði eigið starfsumhverfi og hvernig hann gæti nýtt upplýsingatækni við kennslu, hvaða áhrif slík innleiðing hefði á nám nemenda og upplifun sína sem kennara. Í rannsókninni notaði hann m.a. gagnvirk hermitól (e. simulations) til að sýna nemendum það sem ekki sést með berum augum, eins og rafstrauma og segulsvið. Einnig notaði hann hugbúnað til að fá rauntíma endurgjöf á nám nemenda og ekki síður endurgjöf á eigin kennslu. Haukur segir að uppbygging og hugmyndafræði starfendarannsókna hafi fylgt sér allan sinn kennsluferil.
Haukur segir starfskenningu sína hafa þróast mikið frá því að hann hóf kennslu „og með árunum hefur hún einfaldast og snýr nú fyrst og fremst að hvatningu og vaxtarhugarfari nemenda. Allir nemendur koma í skólann til að læra!!“
Á síðustu árum hafa kennarar Rafdeildar VMA lagt áherslu á farsæld nemenda og stöðugar umbætur í námi og kennslu. Þeir hafa byggt á leiðsagnarnámi, þar sem nemendur fá fjölbreytta sýn á námsefnið og fá tækifæri til að skila verkefnum frá sér á fjölbreyttan máta. Rafdeild VMA hefur í samvinnu við Rafmennt – fræðslusetur rafiðnaðarins stuðlað að því að smáforrit hafa verið þýdd á íslensku til notkunar í námi og starfi. Um þessar mundir er í þróun smáforrit sem hugsað er til að hjálpa nemendum að læra íslensk heiti á verkfærum, efni og hugtökum sem tengjast rafiðnaði. Kennarar og nemendur hafa síðustu ár tekið þátt í Erasmus+ verkefnum þar sem meðal annars hefur verið lögð áhersla á sjálfbærni, endurnýjanlega orku, stafræna hæfni og sjálfvirkni.
Í umsögn sem fylgdi tillögu að tilnefningu sagði m.a.:
Haukur hefur undanfarin ár verið leiðandi í þróun og framsetningu á kennsluefni í rafiðngreinum. Hann var afar hugmyndaríkur og lausnamiðaður í Covid faraldrinum og hélt kennslu gangandi á frumlegan og skapandi hátt. Hann er yfirvegaður og hefur góða nærveru. Fyrir honum eru nemendur allir jafnir og hver og einn fær tækifæri til að nálgast námið á sínum forsendum. Haukur er afar góð fyrirmynd í starfi og einkalífi, bæði fyrir nemendur sína og samstarfsfólk.