Heiðrún Hámundar

Framúrskarandi kennari

Heiðrún Hámundar, kennari við Brekkubæjarskóla og Tónlistarskólann á Akranesi, er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna 2021, fyrir metnaðarfulla og árangursríka tónmennta- og tónlistarkennslu.

 

Heiðrún er tónmenntakennari í Brekkubæjarskóla og kennari við Tónlistarskólann á Akranesi. Hún hefur í störfum sínum í Brekkubæjarskóla skapað hvetjandi námsumhverfi þar sem allir nemendur eru virkjaðir til þátttöku á eigin forsendum og styrkleikum. Heiðrún stuðlar að árangri og vexti allra nemenda og að þeir fái tækifæri til að koma fram og spreyta sig jafnt í tónlistarflutningi sem og tæknimálum. Hún hefur staðið fyrir skipulagi metnaðarfullra viðburða á borð við reglulegar Morgunstundir, söngleiki og aðra viðburði sem hafa mikið að segja fyrir skólabraginn og menningarlífið á Akranesi. Heiðrún leggur áherslu á tengsl við nærsamfélagið með verkefnum sem brúa grunnskóla og tónlistarskóla, sem og kynslóðir á Akranesi. Hún er einnig virk í alþjóðlegu samstarfi. Heimasíða Heiðrúnar: www.heidrunhamundar.rocks

Úr umsögn sem fylgdi tilnefningu:

Heiðrún er tónmenntakennari sem fer sínar eigin leiðir í kennslu og alltaf með áhuga nemenda að leiðarljósi. Hún hefur einstakt lag á að ná til allra nemenda og hefur þann eiginleika að ná góðum tengslum við fólk á öllum aldri. Allir nemendur fá að blómstra á eigin forsendum og fá tækifæri til að prófa sig áfram hvort sem það er með því að spila á hljóðfæri, syngja eða sjá um tæknimál á öllum viðburðum skólans. Mörg dæmi eru um að nemendur hafi spilað undir söng á stórum morgunstundum í Brekkubæjarskóla án þess að hafa stigið fæti sínum inn í tónlistarskóla. Brekkubæjarskóli hefur sett upp nokkur leikrit þar sem Heiðrún hefur verið einn af handritshöfundum og séð um tónlistina. Við uppsetningu leikrita fá allir nemendur að taka þátt og gera það sem þeir vilja, hvort sem það er að standa á sviði eða stjórna ljósunum. Öll tónlist í þessum leikritum er flutt af hljómsveit skipaðri nemendum sem er á sviðinu, ekkert tekið upp fyrirfram eða „mæmað.“ Heiðrún er hvetjandi og fjölbreytileiki nemendahópsins er kostur í hennar huga og nær hún alltaf að nýta styrkleika hvers og eins. 

 

 

 

Scroll to Top