Hilmar Friðjónsson

Framúrskarandi kennari

Hilmar Friðjónsson, kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri, er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2021 fyrir að þróa frjóar og áhugavekjandi leiðir í stærðfræðikennslu.

 

Hilmar er kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri. Hann hefur lagt áherslu á að þróa nýjar og óhefðbundnar leiðir til að auðvelda nemendum stærðfræðinám. Sérstaka athygli vekja stutt myndbönd sem Hilmar hefur unnið og útskýra ýmsa þætti í stærðfræðinni í tali og myndum. Alls hefur hann útbúið um 700 slík myndbönd og hafa allir nemendur við VMA aðgang að þeim á innra vef skólans. Fyrirmynd Hilmars að þessu leyti er Bandaríkjamaðurinn Salman Khan sem vakið hefur heimsathygli fyrir myndbönd sín og starf sitt á kahnacademy.org. Hilmar er vinsæll bæði meðal nemenda og samstarfsmanna, þykir einstaklega hjálpsamur og áhugasamur um að hjálpa nemendum sem eiga erfitt uppdráttar.

Úr umsögn sem fylgdi tilnefningu:

Hilmar er mikill áhugamaður um margmiðlun sem hann hefur nýtt mikið í störfum sínum bæði í kennslunni og með því að miðla til nemenda og samstarfsfólks. Hann hefur alla tíð náð einstaklega vel til nemenda sem standa höllum fæti í námi og sérstaklega í stærðfræði. Hann nálgast nemendur með fagmennsku, út frá styrkleikum þeirra með fjölbreyttum kennsluaðferðum og umhyggju. Hann er frábær samstarfsfélagi, alltaf tilbúin að hjálpa og miðla til allra. Hann hefur verið leiðandi í notkun upplýsingatækni í kennslu við skólann og komið með nýjar nálganir og hugmyndir inn í starfsmannahópinn. Alltaf tilbúin til að leiðbeina og prófa nýja hlutii. Hann setur sig auðveldlega í spor nemenda, eflir þá út frá styrkleikum þeirra og nær þannig árangri með nemendum. Í stærðfræðikennslu hefur hann einstakt lag á að hvetja nemendur áfram til árangurs og hafa margir nemendur þakkað honum fyrir að hafa komið sér áfram í náminu og að skilja stærðfræði.

Scroll to Top