Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2023
Framúrskarandi þróunarverkefni
Hinsegin félagsmiðstöð S78 og Tjarnarinnar
Þróunarverkefnið Hinsegin félagsmiðstöð S78 og Tjarnarinnar hófst á vornámuðum 2016 þegar Samtökin 78 óskuðu eftir aðstoð Reykjavíkurborgar við að búa hinsegin ungmennum upp á öruggt athvarf í anda félagsmiðstöðva.
Á upphafsdögunum tóku 15-20 einstaklingar að meðaltali þátt í hvert skipti sem opið var en síðan þá hefur miðstöðin vaxið og dafnað, aðsóknin margfaldast og nú mæta um 120-140 einstaklingar á aldrinum 10-17 ára á hverja opnun.
Opið er öll þriðjudagskvöld frá kl.19.30-22.00 fyrir 13-17 ára aldurshópinn, í Spennistöðinni Barónsstíg 32 A fyrir 13-16 ára og á Suðurgötu 3 fyrir 16-17 ára. Annan hvern fimmtudag er svo starf fyrir 10-12 ára aldurshópinm frá 16:30-18:00 og svipar starfið til þess sem er í öðrum félagsmiðstöðvum borgarinnar að því undanskildu að hinseginleikanum er sérstaklega fagnað, hann er viðmið en ekki frávik. Markmið starfsins er að skapa ungmennunum öruggt rými sem leiði þau til þátttöku í öðru skipulögðu frístundstarfi og um fram allt, styrki þau til frambúðar sem hinsegin ungmenni. Í miðstöðinni er unnið eftir sömu gildum og á öðrum starfsstöðum Tjarnarinnar, með hliðsjón af menntastefnunni, Látum draumana rætast og stefnu Reykjavíkurborgar í frístundamálum.
Hinsegin félagsmiðstöðin heldur úti fjölbreyttri dagskrá sem unglingarnir hafa skipulagt eða óskað eftir. Einnig hefur miðstöðin boðið upp á hópastarf fyrir hinsegin unglinga, til dæmis hin ýmsu viðburðateymi, fræðsluteymi, handavinnuhóp og D&D-hóp. Það eru skipulagðir stórir viðburðir eins og Hinsegin vikan og Hinsegin Prom.
Hinsegin miðstöðin er ein sinnar tegundar á landinu og þjónustar öll þau börn sem tengja við starf félagsmiðstöðvarinnar, óháð búsetu.
Félagsmiðstöðin hefur hlotið hvatningaverðlaun Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, Hvatningaverðlaun Skóla-og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, verið nefnt sem Best Practice youth work af Norrænu ráðherranefndinni, hlotið viðurkenningu Barnaheilla og fleira.
Forstöðukona Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar er Hrefna Þórarinsdóttir.
Í umsögnum sem fylgdi tillögu að tilnefningu segir m.a.:
Í miðstöðinni vinna starfsfólk og sjálfboðaliðar þrotlausa vinnu að tryggja hinsegin ungmennum öruggt rými í jákvæðu andrúmslofti þar sem þau geta verið þau sjálf án þess að upplifa fordóma eða útskúfun …
Starfsemi Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar hefur fengið mikla athygli bæði innan og utan landsteinanna og hefur forstöðumaður hennar haldið fjölmörg fræðsluerindi um framkvæmdina, meðal annars fyrir kennara og félagsmiðstöðvastarfsfólk víðsvegar um landið, stjórnendur annarra sveitarfélaga, fyrir gesti á ráðstefnu Nordic Safe City og á öðrum fjölbreyttum vettvangi fagfólks sem kemur að starfi með ungu fólki. Einnig má nefna margar kynningar og móttökur fyrir nema Háskóla Íslands.