Hvatningarverðlaunin 2020

Ingvi Hrannar Ómarsson og Utís hópurinn fá hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna 2020 fyrir framúrskarandi stuðning við starfsþróun íslenskra kennara með miðlun framsækinna hugmynda um skapandi skólastarf, nýsköpun og upplýsingatækni þar sem nemandinn er í brennidepli.

„Utís er ekki þannig að þú komir bara og fáir, þú tekur þátt og gefur líka af þér.“ Þannig komst Ingvi Hrannar Ómarsson að orði í viðtali um Utís árið 2017. Þá var Utís (skammstöfun fyrir upplýsingatækni í skólastarfi) á sínu þriðja ári og fólst í því að íslenskt skólafólk tók þátt í stórri námsstefnu í nóvembermánuði í Árskóla á Sauðárkróki, heimabæ Ingva Hrannars. Áherslan fyrstu árin var einkum á notkun tækni í skólastarfi. Utís er af mörgum lýst sem hápunkti starfsársins í faglegu lífi þeirra sem ráðstefnurnar sækja, sem vettvang til að læra, nærast og gefa af sér. Það er táknrænt að viðbrögð Ingva Hrannars og Utís-hópsins við heimsfaraldri var að gefa í, tífalda hópinn að stærð og flytja ráðstefnuna á netið.

Utís-hópurinn teygir sig um allt land og langt út fyrir landsteinana. Hann er lærdómssamfélag fjölmargra brautryðjenda í kennsluháttum. Starf hans einkennist af glaðværð, metnaði og gagnkvæmum stuðningi. Ingvi Hrannar er óskoraður leiðtogi hópsins. Honum er lýst sem hlýjum, styðjandi, lífsglöðum og kröfuhörðum félaga. Einn af nánustu samstarfsmönnum hans, og einn af leiðtogum hópsins, orðar það svo: „Að starfa með Ingva er að starfa eftir öðrum leikreglum í skólastarfi en maður hefur vanist. Þetta er hörkuvinna en Ingvi fer létt með það eins og annað. Það eru forréttindi mín að fá að vera með og leggja mitt af mörkum.“

Hér má sjá dæmi um umsagnir þátttakenda í Utís:

Þessu fylgir gífurlegur lærdómur og orkan þar er hreinlega engri annarri lík. Þetta er tækifæri til að fara á dýptina í eigin starfskenningu og virkilega velta fyrir sér kennsluháttum sínum til að breyta og bæta. Þar fæ ég frábært tækifæri til að kynnast öflugu skólafólki og styrkja tengsl við þá sem ég þekki fyrir. Við erum svo ótrúlega heppin hvað skólafólk á Íslandi er frábært og það væri geggjað að fá að vera í þeim hópi sem kemur saman á Utís.

Utís er svolítið eins og líflína fyrir okkur sem starfa í fámennum skólum þar sem við erum oft ein að spá og spekúlera um upplýsingatækni. Ég hef fundið það í vetur að stærra tengslanet sem ég eignaðist á Utís 2019 hefur oftar en ekki bjargað mér þegar ég hef verið að velta fyrir mér allskyns hlutum og nýjum áskorunum. 

Hvað segja kennarar um Utís? Smelltu á myndina til að sjá fleiri dæmi!

Utís-hópurinn er áreiðanlega eitt fjölmennasta lærdómssamfélag skólafólks hér á landi. Á síðari árum hefur áhersla hópsins á viðfangsefni víkkað út og farið í auknum mæli að snúast um fleiri hliðar kennslu en notkun tækninnar. Þannig vex og breytist lærdómssamfélagið með tímanum og aðlagar sig að þeim áskorunum sem mæta kennurunum í starfi á hverjum tíma.

ÍSLENSKU MENNTAVERÐLAUNIN