Íslensku menntaverðlaunin 2020: Framúrskarandi þróunarverkefni

Fimm verkefni eru tilnefnd sem framúrskarandi þróunarverkefni. Þau þykja standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi. Verkefnin eru:

(Smellið á heiti verkefnanna fyrir nánari upplýsingar)

Frístundalæsi
Þróunarverkefni sem snýr að eflingu máls og læsis barna í gegnum leik á frístundaheimilum og í tómstundastarfi, meðal annars með útgáfu handbóka fyrir starfsfólk og foreldra ásamt gerð vefseturs með hugmyndum og leiðbeiningum.

Listrænt ákall til náttúrunnar: Samtal náttúrufræði og listgreina
Þróunarverkefni, sem er liður í innleiðingu nýrrar menntastefnu í Reykjavík, Látum draumana rætast, og byggist á þverfaglegri nálgun þar sem nemendur fjalla um málefni náttúrunnar á skapandi og nýstárlegan hátt með aðferðum list- og verkgreina.

Smiðjan í skapandi skólastarfi
Þróunarverkefni á unglingastigi í Langholtsskóla í Reykjavík sem beinist að því að auka veg þverfaglegra viðfangsefna með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi.

Vistheimt með skólum
Langtímafræðsluverkefni í grunn- og framhaldsskólum um vistheimt (endurheimt náttúrulegra gæða) og mikilvægi hennar fyrir gróður og jarðveg, líffræðilega fjölbreytni og baráttuna við loftslagshamfarir.

Snillitímar í Gerðaskóla
Þróunarverkefni sem beinist að því að efla frumkvæði nemenda í eigin námi með því að gefa þeim kost á að fást við skapandi verkefni á eigin áhugasviði.

ÍSLENSKU MENNTAVERÐLAUNIN
Scroll to Top