Stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun hefur að undanförnu, í samvinnu við fjölmarga aðila, unnið að því að koma á fót viðurkenningu fyrir framúrskarandi menntaumbætur og þróunarverkefni.
Þegar ljóst varð að mikill áhugi var á þessu máli var erindi með styrkbeiðni sent til mennta- og menningarmálaráðuneytis sem brást við með því að veita styrk til verkefnisins.
Eftirtaldar stofnanir og samtök hafa átt fulltrúa í undirbúningshópi: Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök áhugafólks um skólaþróun. Þá hafa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur ákveðið að leggja verðlaununum lið.
Forseti Íslands hefur nú ákveðið að standa að viðurkenningunni með undirbúningsaðilum og láta í té heitið Íslensku menntaverðlaunin. Forsetaembættið heimilar einnig að notaður verði sami verðlaunagripur og áður var veittur.
Stefnt er að því að í ofangreindir aðilar muni fljótlega undirrita eftirfarandi samkomulag um þessar viðurkenninguá Bessastöðum 5. nóvember 2019:
Samkomulag um Íslensku menntaverðlaunin, árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi menntaumbætur og þróunarverkefni á vettvangi skóla- og frístundastarfs
Embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skóla-þróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhuga-fólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar taka höndum saman um að veita árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Verðlaunin heita Íslensku menntaverðlaunin.
Samkomulag þetta er til fimm ára.
Markmið verðlaunanna er að vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi og auka veg menntaumbótastarfs. Stefnt er að því að veita verðlaunin ár hvert og skulu þau bera ártal þess. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum auk sérstakrar hvatningar til aðila sem stuðlað hafa að framúrskarandi menntaumbótum.
- Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, veitt skóla eða annarri menntastofnun, sem lagt hefur af mörkum við að stuðla að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
- Framúrskarandi kennari. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem lagt hefur að mörkum við að stuðla að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
- Framúrskarandi þróunarverkefni. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hefur ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.
Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem lagt hafa af mörkum við að stuðla að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
Framkvæmd
Skipan viðurkenningarráðs
Þeir aðilar sem standa að verðlaununum tilnefna hver um sig einn fulltrúa í viðurkenningarráð til þriggja ára. Fulltrúi Embættis forseta Íslands skal vera formaður viðurkenningarráðs. Hver aðili ber kostnað af fulltrúa sínum.
Starfsreglur
Ráðið hefur heimild til að setja sér nánari starfsreglur.
Umsýsla
Samtök áhugafólks um skólaþróun sér um umsýslu verkefnisins.
Tilnefningar
Fyrir 15. mars ár hvert auglýsir viðurkenningarráð eftir tilnefningum til verðlaunanna. Tilnefningar skulu berast fyrir 1. júní ár hvert. Ráðinu er einnig heimilt að hafa frumkvæði að því að afla sér upplýsinga um starf eða verkefni sem til greina koma.
Tilnefningum skal fylgja skriflegur rökstuðningur.
Tilnefningum um þróunarverkefni í C-flokki skulu fylgja gögn sem gera valnefnd kleift að leggja faglegt mat á verkefnið (skýrslur, vefsíður, kvikmyndir, greinar).
Val
Viðurkenningarráð velur þrjár til fimm tilnefningar í hverjum flokki til kynningar á alþjóðadegi kennara 5. október. Viðurkenningarráði er heimilt að skipta með sér verkum og tilnefna valnefndir við mat á tilnefningum. Einnig er heimilt að leita utanaðkomandi umsagna eða ráðgjafar, enda sé um það trúnaður. Minnst þrír aðilar skulu koma að mati á viðurkenningum í hverjum flokki og skal þess gætt að kynjahlutföll séu sem jöfnust. Einnig skal gætt hlutleysis, meðal annars með því að tryggja að hagsmunir þeirra sem að matinu koma tengist ekki tilnefndum aðilum.
Afhending verlaunanna
Stefnt er að því að veita verðlaunin við hátíðlega athöfn í nóvember ár hvert í skóla eða öðrum viðeigandi stað.
- Forseti Íslands veitir verðlaun í A flokki.
- Mennta- og menningarmálaráðherra veitir verðlaun í B flokki.
- Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra veitir verðlaun í C flokki.
- Hvatningu veita aðrir fulltrúar viðurkenningaráðs til skiptis.
Forseti og ráðherrar undirrita viðurkenningarskjöl
Kynning
Samstarfsaðilar skuldbinda sig til þess að kynna verðlaunanna með fréttaflutningi, á samfélagsmiðlum, fundum, ráðstefnum eða með öðrum hætti. Stefnt verður að því að koma upp sérstakri vefsíðu fyrir verðlaunin. Leitað verður til fjölmiðla um að kynna viðburðinn og þær menntaumbætur og skólaþróunarverkefni sem verðlaun hljóta hverju sinni.
Bessastöðum, 5. nóvember 2019
Undirritun aðila samkomulagsins:
Embætti forseta Íslands: Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands
Mennta- og menningarmálaráðuneyti: Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti: Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherrra
Félag um menntarannsóknir: Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands
Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa: Helgi Arnarson, formaður Grunns
Kennaradeild Háskólans á Akureyri og Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri: Guðmundur Engilbertsson, staðg. forseta Hug- og félagsvísindasviðs Hákólans á Akureyri
Kennarasamband Íslands: Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands
Menntamálastofnun: Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar
Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands
Samband íslenskra sveitarfélaga: Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Samtök áhugafólks um skólaþróun: Þrúður Hjelm, formaður Samtaka áhugafólks um skólaþróun
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur: Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar
Síðan var síðast uppfærð 21.10. 2019