Læsisfimman er kennsluskipulag yfir kennsluhætti í læsi sem byggist á lýðræðislegu umhverfi, sjálfstæði og sjálfsaga nemenda í námi. Systurnar Joan Moser og Gail Boushey þróuðu þetta kennsluskipulag eftir að hafa kennt í tugi ára. Lögð er áhersla á að kenna nemendum alla þætti í ferlinu, þ.e. hvernig þeir lesa, hvar þeir sitja o.s.frv. Nemendur læra í gegnum fimm þætti:
- Sjálfstæður lestur – nemendur fara í gegnum CAFE og setja sér markmið í lestrinum og ákveða hvaða aðferð er best til þess að ná því. Markmiðin geta verið; lesskilningur, nákvæmni, lesfimi eða aukinn orðaforði.
- Para- eða félagalestur – nemendur lesa fyrir hvorn annan, skiptast á að lesa.
- Hlustun – nemendur hlusta á upplesið efni og lesa samhliða því.
- Orðavinna – nemendur vinna með orð og hugtök á fjölbreyttan hátt, t.d. málfræði, stafsetningu, hugtök, hugtakakort o.fl.
- Ritun – Nemendur skrifa fjölbreyttan texta, ýmist sem þeir velja sjálfir eða unnið er með ákveðið viðfangsefni.
Við innleiðingu læsisfimmunnar er lögð áhersla á úthald, sjálfstæð vinnubrögð og val nemenda. Þegar kennsluskipulagið er komið vel af stað þá getur kennarinn einbeitt sér að færri nemendum í einu, veitt þeim aðstoð og sinnt einstaklingum.
CAFE er skipulag sem snýr að markmiðasetningu og hvernig kennarinn vinnur með nemandanum og fylgir honum eftir. Nemendur setja sér markmið í lestrinum og ákveða með kennara hvaða aðferð sé best til þess að ná því. Þessi markmið eru inn á CAFE skjalinu sem hefur verið þýtt af kennurum Grunnskóla Snæfellsbæjar sem LESA;
Lesskilningur
Efla nákvæmni
Stöðug lesfimi
Auka orðaforða.
Hægt er að lesa meira um Læsisfimmuna og CAFE inn á heimasíðu systranna https://www.thedailycafe.com/ og þær hafa einnig gefið út fjölmargar bækur. Auk þess skrifaði Þorbjörg Halldórsdóttir grein í Skólaþræði um læsisfimmuna. Sjá hér: https://skolathraedir.is/2019/12/23/laesisfimman-namsskipulag-til-ad-thjalfa-laesi-i-fjolbreyttum-nemendahopi/