Leiðsagnarnám

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2021:

Leiðsagnarnám: Þróunarverkefni um eflingu námsmenningar sem stuðlar að aukinni ábyrgð nemenda á eigin námi

Skólaárin 2017–2019 stóð skrifstofa skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur (SFS) fyrir símenntunarverkefni um leiðsagnarnám. Fyrsta árið var vekefnastjórnin í höndum Nönnu Kristínar Christiansen og Eddu Gíslrúnar Kjartansdóttur ogvoru 17 skólar skráðir til þátttöku. Markmiðið var að kynna fyrir kennurum og stjórnendum helstu áherslur leiðsagnarnáms/leiðsagnarmats (e. assessment for learning / formative assessment). Næstu árin fjölgaði skólunum jafnt og þétt svo að meirihluti grunnskóla borgarinnar tók að einhverju leyti þátt í verkefninu. Megintilgangur leiðsagnarnáms er að bæta námsárangur nemenda með því að gera þeim kleift að taka aukna ábyrgð á námi sínu. Í símenntunarverkefni SFS var einkum litið til þróunarstarfs enska menntunarfræðingsins Shirley Clarke, sem hún hefur leitt í samstarfi við þarlenda grunnskólakennara. Áherslur sínar byggir Clarke á niðurstöðum fjölda  rannsókna, en á tímabilinu kom Clarke tvívegis til Íslands á vegum SFS til að halda fyrirlestra og námskeið fyrir kennara og stjórnendur í grunnskólum Reykjavíkurborgar.

Í verkefninu var lagt upp með að í hverjum þátttökuskóla starfaði innleiðingarteymi sem hefði það hlutverk að innleiða leiðsagnarnám í skólastarfið. Fyrstu tvö árin  voru auglýstir ríflega 40 viðburðir tengdir leiðsagnarnámi, auk þess sem verkefninu var fylgt eftir með sérstakri vefsíðu: https://nammedleidsogn.wordpress.com/

Árið 2019 var ákveðið að efla sérstaklega fjóra skóla sem gætu í framhaldinu orðið  þekkingarskólar í leiðsagnarnámi, og þannig stutt við aðra skóla og kennara sem vilja auka þekkingu sína og færni í leiðsagnarnámi. Í hverjum þekkingarskólanna starfaði teymi sem samanstóð af skólastjórnanda og þremur til sex kennurum. Þeir leiddu  þróun leiðsagnarnámsins á hverjum stað og í unnu í  samstarfi við innleiðingarteymi hinna þekkingarskólanna og verkefnastjórann Nönnu Kristínu, sem hafði frá upphafi umsjón með verkefninu.

Verkefnið hefur hlotið styrki úr þróunar- og nýsköpunarsjóði SFS, Endurmenntunarsjóði grunnskóla, Sprotasjóði og  Erasmus+, auk þess sem verkefnastjórinn Nanna Kristín Christiansen hlaut styrk frá Rannsóknarsjóði KÍ til að skrifa bók um leiðsagnarnám og starf þekkingarskólanna og kom hún út fyrr á þessu ári, sjá nánar um bókina: www.leidsagnarnam.is  

Í umsögn sem fylgdi tilnefningu sagði meðal annars:

Þróunarverkefnið um leiðsagnarnám er af mörgum talið eitt  öflugasta og áhrifamesta starfsþróunarverkefni sem sett hefur verið af stað í skólum borgarinnar. Leitun er að þróunarverkefni sem hefur haft eins mikil áhrif á starfshætti og kennsluaðferðir á síðastliðnum árum. Þá er mikilvægt að með verkefninu hefur tekist að virkja nemendur markvisst í eigin námi, tryggja fjölbreyttar aðferðir í kennslu fyrir fjölbreytta nemendahópa og efla trú nemenda á eigin getu … Nánast allir skólar í borginni hafa nýtt sér fræðslu eða leiðsögn varðandi áherslur leiðsagnarnámsins og hafa fjölmargir kennarar og skólastjórnendur lýst yfir gagnsemi þess og jákvæðum áhrifum á nám nemenda, skólabrag og valdeflingu í skólasamfélaginu öllu.

 

Scroll to Top