Leikskólinn Aðalþing

Leikskólinn Aðalþing er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2021 fyrir framsækið, skapandi skólastarf og lýðræðislega starfshætti

Leikskólinn Aðalþing tók til starfa í mars 2009. Í skólanum eru allt að 120 börn á aldrinum eins til sex ára og 30 starfsmenn. Starf skólans hefur einkennst af miklum metnaði, starfþróun og umbótastarfi. Skólinn hefur frá upphafi stefnt að því að vera rannsóknarleikskóli í fararbroddi og þar hefur verið ráðist í fjölmörg þróunarverkefni.

Skólinn er rekinn í anda hugmyndafræði Loris Malaguzzi, oftast kennd við bæinn Reggio Emilia á Ítalíu.  Áhersla er lögð á leikinn sem undirstöðu náms hjá börnunum, skapandi starf og á að umhverfi leikskólans styðji við náttúrulega rannsóknar- og sköpunarþörf barna. Hlutverk starfsfólks er að vera samverkamenn barnanna. Lykilorð í starfinu eru: Ígrundun – lýðræði – náttúra – upplýsingatækni.

Starfið á Aðalþingi hefur vakið athygli á landsvísu og út fyrir landsteinana, m.a. fyrir matarmenningu sína. Áhersla er lögð á að matur sé sem mest unninn  frá grunni í leikskólanum. Börnin borða í sérstakri matstofu í fallegu, heimilislegu umhverfi, börnin velja sér sjálf mat af hlaðborði og ráða hvar þau sitja. Um þetta má fræðast hér.

Úr umsögnum sem fylgdu tilnefningum:

Eitt af því sem hefur verið þróað í Aðalþingi er viðhorf til nýbreytni og aðferðir til að innleiða breytingar sem auðvitað speglast í öllum þeim verkefnum sem þar hafa verið unnin og þróuð síðustu ár. Það sem mér finnst líka afar merkilegt er að leikskólinn er núna á sínu 13 starfsári og enn er verið að taka ný stökk, prófa nýjar hugmyndir. Að mínu mati er í leikskólanum afar virkt lærdómssamfélag þar sem kennarar eru óhræddir við að koma fram með og ræða nýjar hugmyndir og vinnubrögð. Það hefur tekist að skapa frumkvöðlaandrúmsloft sem byggist á trausti og velvild.

Í Aðalþingi er markmiðið að leikskólastarfið þróist í samræmi við nýjar kenningar, rannsóknir og styrk mannauðs skólans. Eitt meginmarkmið skólastarfsins er að sérhvert barn fái bestu umönnun og kennslu sem völ er á. Í upphafi skólagöngu hvers barns er foreldrum kynnt þessi markmið og þau hvött til að gera athugasemdir ef þeir telja skólastarfið ekki standa undir markmiðinu. Mikilvægt hlutverk Aðalþings er að skapa börnunum sem þar eru fjölbreytt námstækifæri. Í skólanum er lögð áhersla á að hvert barn fái tækifæri til að styrkja hugmyndir sínar um sjálft sig, fái trú á og efli eigin getu ….

Skólastjóri Aðalþings er Hörður Svavarsson, en eigendur skólans eru dr. Guðrún Alda Harðardóttir leikskóla- og uppeldisfræðingur og Sigurður Þór Salvarsson fjölmiðlafræðingur.

 

Scroll to Top