Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022
Leikskólinn Akrasel
fyrir markvissa, skapandi og faglega vinnu við umhverfismennt og öfluga þróunarvinnu
Leikskólinn Akrasel á Akranesi hóf starfsemin haustið 2008 og hefur frá upphafi haft umhverfismennt og sjálfbærni að leiðarljósi og vinnur á virkan hátt eftir hugmyndafræði um flæði, umhverfismennt og heilsueflandi leikskóla. Skólinn býður upp á skapandi og hvetjandi námsumhverfi og virkjar nemendur sína til þátttöku og umhugsunar um mikilvægi umhverfismenntar. Unnið er ötullega og af metnaði að ýmsu þróunarstarfi sem tengist markmiðum hans.
Frá opnun skólans hefur verið unnið samkvæmt alþjóðlega umhverfisverndarverkefninu „Skólar á grænni grein“ og leikskólinn hefur verið þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi leikskóli síðan 2019. Jóga er fastur liður í skólastarfinu þar sem börnin þjálfa sig í að tengja saman huga og líkama. Þau læra m.a. að setja öðrum mörk og virða þau mörk sem aðrir setja. Stuðst er við kenningar John Dewey um lýðræði í leikskólastarfi og lögð er áhersla á opinn efnivið auk þess sem tónlistarstarf er öflugt. Akrasel er í þróunarvinnu með kenningar Mihaly Csikszentmihalyi um flæði og er jafnframt fyrsti leikskólinn á landinu sem hlýtur nafnbótina Unesco skóli. Þá er í skólanum unnið að Heimsmarkmiðum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er alþjóðlegur vegvísir að sjálfbærri þróun til að tryggja jarðarbúum betra líf án þess að fara illa með jörðina.
Úr umsögn um skólann:
Leikskólinn Akrasel er framúrskarandi og leiðandi í menntun til sjálfbærni sem er rauður þráður í gegnum allt leikskólastarfið, með það að leiðarljósi hefur starfsfólk og börn unnið að því hörðum höndum síðustu ár, farið í gegnum grænfánaskrefin sjö, sett sér markmið og fundið leiðir til þess að ná markmiðunum sínum og stuðla þannig að menntun til sjálfbærni á fjölbreyttan hátt. Á liðnu tímabili vann Akrasel mörg og krefjandi verkefni tengt sjálfbærni, ormarnir margfrægu, moltugerð og erlend samstarfsverkefni. Leikskólinn Akrasel hefur fundið samlegðaráhrif milli menntaumbótaverkefna og hefur hann síðustu ár verið að tengja Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna við starfið og kynnt Barnasáttmálann fyrir elsta árgangi leikskólans.
Leikskólinn Akrasel flaggaði sínum fyrsta grænfána 2011. Árið 2022 tók skólinn á móti sjötta Grænfána Landverndar. Samhliða því hlaut skólinn einnig viðurkenningu sem UNESCO skóli, fyrstur leikskóla á Íslandi. Grænfána vinnan og umhverfismenntin er grunnurinn að öllu starfi í leikskólans.
Heimasíða skólans: https://www.akrasel.is/