Íslensku menntaverðlaunin 2022
Leikskólinn Rauðhóll
fyrir fagmennsku, gæði í leikskólastarfi og öflugt þróunarstarf
Í leikskólanum Rauðhóli er starfsfólk hvatt til sjálfstæðis og því er gefið umboð til athafna. Þar hefur á undanförnum árum verið unnið að þróun leiks og námsumhverfis innan dyra sem utan, með hugmyndafræði Mihaly Csikszentmihalyi um flæði að leiðarljósi. Þessar hugmyndir hafa meðal annars verið nýttar í þróunarverkefninu Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar.
Stjórnendateymi skólans er þekkt fyrir markvissa vinnu við að efla leikskólastigið með því að hvetja ungt fólk til þess að sækja sér menntun í leikskólakennarafræðum, auk þess sem það hefur unnið með leikskólaskrifstofu Reykjavíkurborgar að því að skapa vettvang fyrir sumarstarfsfólk í leikskólum Reykjavíkur. Þá hefur teymið starfað með fjölmörgum nemum í leikskólakennarafræðum, ásamt því að kenna og kynna leikskólastarf á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Miðlun þekkingar og reynslu til vettvangs er snar þáttur í starfi Rauðhóls. Fjölmargir gestir, innlendir og erlendir, heimsækja skólann á hverju ári til að skoða hann og kynna sér starfið. Ráðstefnuhald og útgáfa efnis um þróunarverkefnið Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar er liður í því að miðla af reynslu starfsmanna til annarra. Stjórnendur leita allra leiða til að tengjast samfélagi sínu, þvert á „kerfi“ og fagstéttir.
Úr umsögn um leikskólann:
Leikskólinn er þekktur fyrir samstarf starfsfólks á grundvelli gleði, jákvæðni og sveigjanleika auk þess sem hugmyndir um flæði í leik og starfi hafa verið raungerðar í starfi leikskólans í þróunarverkefninu Rauðhólsgleðin þar sem unnið var að þróun leiks og námsumhverfis innan dyra sem utan með hugmyndafræði Mihaly Csikszentmihalyi um flæðið að leiðarljósi. Með því að skipuleggja námsumhverfi og viðfangsefni barna út frá kenningum hans er lagður grunnur að því að börnin læri að þekkja sig sjálf, móta sína eigin sjálfsmynd og finna út sín áhugasvið. Í góðu námsumhverfi læra börn að hafa stjórn á sínu eigin lífi, taka ábyrgð og öðlast betri trú á eigin getu þar sem utanaðkomandi einstaklingar eða aðstæður hafa minni áhrif á líðan þeirra … Meðal þess sem leikskólinn gerði í þessu verkefni var að standa fyrir ráðstefnu þar sem Mihaly Csikszentmihalyi hélt fyrirlestur. Ráðstefnuna sótti fjölbreyttur hópur fólks sem kom víða að úr atvinnu- og fræðasamfélaginu. Þá hefur leikskólinn unnið ötullega að þróun útináms í Björnslundi sem er einstök paradís fyrir börn, með skógarhúsi þar sem börnin skiptast á að vera, ein deild í einu, þar sem þau fá að efla sjálfstraust sitt, seiglu og félagsþroska í gegnum skapandi og frjálst útinám. Guðrún Sólveig og samstarfsfólk hennar í Rauðhól hefur unnið markvisst að því að gera leikskólakennarastarfið aðlaðandi fyrir ungt fólk, en meðal þess sem þau hafa unnið að á liðnum árum er að vinna með styrkleika og áhugasvið starfsfólks í leikskólanum til þess að laða fram það besta í hverjum og einum en umhverfið hefur verið hvetjandi fyrir ungt fólk til að sækja sér nám í leikskólakennarafræðum.
- Heimasíða skólans: https://www.raudhollinn.is/
- Um þróunarverkefnið Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar: https://raudholsgledin.com/um-raudhol/