Leikskólinn Rauðhóll

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2020

Framúrskarandi skólastarf

Leikskólinn Rauðhóll í Reykjavík er tilnefndur fyrir framúrskarandi og fjölbreytt þróunarstarf og nýsköpun, faglegan metnað, starfsþróun og lýðræðislega starfshætti, sem og fyrir miðlun hugmynda til annarra skóla.

Myndin er tekin í útikennslustofu skólans (Björnslundi) og er fengin hjá skólanum.

Leikskólinn Rauðhóll er einn af stærstu leikskólum landsins, tíu deildir á þremur starfsstöðvum. Einkunnarorð skólans eru vinátta, virðing og vellíðan. Leikskólastjóri er Guðrún Sólveig.

Rauðhóll fékk þróunarstyrk frá Skóla-og frístundasviði 2018 fyrir verkefnið Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar. Markmiðið var meðal annars að styrkja og þróa starfshætti leikskólans með því að innleiða aðferðafræði Mihaly Csikszentmihaly um flæði (e. flow) í því augnamiði að auðvelda starfsfólki að skapa námsumhverfi þar sem öllum börnum er mætt á eigin forsendum og þeim gefið tækifæri til að hafa áhrif á eigið nám og auka þannig gleði þeirra og sjálfstæði. Markmið í starfi Rauðhóls er að þegar börn útskrifast frá skólanum hafi þau sterka sjálfsmynd, séu félagslega sterk ásamt því að vera stolt af bakgrunni sínum og menningu.

Afurð verkefnisins var skýrari stefna, endurbætt starfsmannahandbók, starfslýsing fyrir starfsfólk ásamt nýrri skólanámskrá. Þróunarverkefnið var unnið af starfsfólki í þverfaglegum hópum. Einnig var hlýtt á raddir barnanna og viðtöl tekin við foreldra. Segja má að Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar feli í sér að börn og starfsfólk fái tækifæri til að nýta eigin styrkleika og blómstra í leik og starfi. Í Rauðhóli er lagt upp með að vinna sem lærdómssamfélag sem hefur leitt af sér að leikskólinn laðar að sér hæfileikaríkt og metnaðarfullt starfsfólk. Það leggur áherslu á á alhliða nám, heilbrigði, velferð og vellíðan allra barna. Verkefnastjórar verkefninsins voru Elín Guðrún Pálsdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir. Sjá einnig á heimasíðu um verkefnið.

Starfsfólk Rauðhóls hefur verið ötult við að kynna starf sitt og miðla reynslu sinni. Áhersla er á að taka vel á móti gestum sem hafa viljað kynna sér starfið, ásamt því að vera með kynningar og fyrirlestra í ýmsum stofnunum og á ráðstefnum. Haustið 2018 var haldin fjölsótt ráðstefna á vegum skólans þar sem Mihaly Csikszentmihaly og Judit Nuszpl héldu erindi um mikilvægi flæðis í skólastarfi.

Skólinn er einnig kunnur fyrir áherslu sína á útikennslu og að nýta fjölbreytta möguleika í nærumhverfi skólans, meðal annars í útikennslustofunni í Björnslundi. Sjá um starfið þar á þessari vefsíðu.

ÍSLENSKU MENNTAVERÐLAUNIN
Scroll to Top