Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2023
Leikskólinn Ugluklettur í Borgarnesi
fyrir þróun lýðræðislegs og skapandi leikskólastarfs
Leikskólinn Ugluklettur tók til starfa árið 2007. Starf leikskólans byggir á skólanámskrá sem unnin var af starfsfólki, börnum og foreldrum á lýðræðislegan hátt. Markvisst er unnið að því að virkja þessa aðila í daglegu starfi og byggt er á gildunum leikur, virðing og gleði. Hefur mikil vinna verið lögð í að þróa starfið í anda þessara gilda, m.a. með þróunarverkefnum. Má þar nefna verkefnin Vináttu og vellíðan og Lýðræðislegt innra mat í leikskólanum Uglukletti, sem bæði voru styrkt af Sprotasjóði. Auk þess sem nýlega hófst verkefnið Stilla – hæglátt leikskólastarf, en meginmarkmið þess er að þróa leikskólastarf og dýpka þekkingu og skilning á upplifun barna á tíma og gefa þeim svigrúm til að kanna heiminn og prófa hugmyndir sínar. Stuðst er við aðferðir starfendarannsókna og uppeldisfræðilegar skráningar.
Í leikskólanum er opið dagskipulag sem hefur það markmið að börnin hafi áhrif á daginn sinn sjálf, þau ákveða hvaða viðfangsefni þau velja sér og hversu lengi þau fást við það. Börn og starfsfólk vinna saman á jafnréttisgrundvelli. Uppgötvunarnám, könnunarleikir og leikur með opinn efnivið skipa stóran sess í starfinu.
Mikil ánægja er meðal foreldra með skólann og metnaður starfsfólks til þess að sækja sér aukna menntun er mikill. Ytra mat var framkvæmt í leikskólanum árið 2021 sem sýndi að í Uglukletti fer fram metnaðarfullt og faglegt starf. Innra mat Uglukletts er kerfisbundið og samofið daglegu starfi og er hugsað sem samstarfsvettvangur þeirra sem starfa í leikskólanum og reglulega er leitað eftir sjónarmiðum barna, starfsfólks og foreldra um það sem betur má fara í starfinu.
Leikskólastjóri Uglukletts er Kristín Gísladóttir.
Í umsögn sem fylgdi tillögu að tilnefningu sagði m.a.
Starf leikskólans einkennst af miklum metnaði og sífelldri þróun starfsins með virkri þátttöku starfsfólks, foreldra og barna … Gróska einkennir starf skólans og hafa margir starfsmenn verið við nám í leikskólakennarafræðum bæði við Háskóla Íslands og við Háskólann á Akureyri og fengið mikla hvatningu frá stjórnendum sem einnig hafa verið iðnir við nám. Hafa stjórnendur á síðastliðnum árum skrifað meistararitgerðir tengdar starfinu og tekið að sér stundakennslu við Menntavísindasvið ásamt því að halda námskeið fyrir starfandi leikskólastjóra, bæði hjá Reykjavíkurborg en einnig í Hafnarfirði, Garðabæ og Mosfellsbæ um skólanámskrágerð og lýðræðislegt innra mat. Leikskólinn hefur tekið virkan þátt í samfélagslegum verkefnum innan Borgarbyggðar og verið vel tengdur nærsamfélaginu.