Listrænt ákall til náttúrunnar: Samtal náttúrufræði og listgreina

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2020

Framúrskarandi þróunarverkefni

Listrænt ákall til náttúrunnar er þróunarverkefni þar sem nemendur fjalla um málefni náttúrunnar á skapandi og nýstárlegan hátt með aðferðum list- og verkgreina. Verkefnið byggist á þverfaglegri nálgun þar sem nemendur takast á við álitamál samtímans með gagnrýnu hugarfari.

Dæmi um verk sem nemendur hafa gert í tengslum við LÁN verkefnið.

Listrænt ákall til náttúrunnar (LÁN) er þverfaglegt þróunarverkefni úr smiðju dr. Ásthildar Jónsdóttur og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Verkefnið tengir saman náttúrufræði og listgreinar, með sjálfbærni og umhverfisvitund í brennidepli. Lögð er áhersla á að kynnast málefnum náttúrunnar á skapandi og nýstárlegan hátt, með aðferðum list- og verkgreina í samvinnu við listafólk, hönnuði og vísindamenn. Markmið verkefnisins er að styrkja sjálfsmynd og gagnrýna hugsun nemenda og trú þeirra á eigin getu. Verkefnið ýtir undir nýsköpun og stuðlar að starfsþróun kennara með áherslu á skapandi kennsluhætti. Verkefnið styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og eykur áhuga og meðvitund ungs fólks á náttúrufræði og sjálfbærni.

Verkefnið, sem nú er á sínu öðru ári, er innblásið af Biophilia verkefni Bjarkar Guðmundsdóttur og er skapað og þróað af Ásthildi Jónsdóttur, doktor í listkennslufræðum í samstarfi við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Um þessar mundir taka þrettán skólar þátt; 11 grunnskólar og tveir leikskólar. Fjölbreytt verkefni hafa litið dagsins ljós sem sýnd hafa verið á Barnamenningarhátíð Reykjavíkur. Verkefnin fjalla um áhrif hlýnunar sjávar, mikilvægi skordýra, bráðnun jökla, örplast í sjó, samvinnu manna og dýra og óskir ungmenna um farsæla framtíð jarðar.

Mat á verkefninu eftir fyrsta árið sýndi fram á að þátttakendur efldu trú sína á eigin getu og sýndu áhuga og getu til aðgerða. Niðurstöðurnar gáfu til kynna að þátttakendum var umhugað um að vinna með náttúru og vísindi á skapandi hátt, með aðferðum lista og handverks.

Sjá einnig um verkefnið á heimasíðu og Fésbókarsíðu verkefnisins.

ÍSLENSKU MENNTAVERÐLAUNIN
Scroll to Top