Málarabraut Byggingatækniskóla Tækniskólans 

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar

Málarabraut Byggingatækniskóla Tækniskólans 

fyrir þróun einstaklingsmiðaðs og verkefnastýrðs náms í málaraiðn

 

Byggingatækniskólinn innan Tækniskólans og þá sérstaklega málarabrautin hefur verið framarlega í að innleiða nýjungar og byggja á einstaklingsmiðuðu námi. Virðing er borin fyrir reynslu og þekkingu nemenda og stendur þeim til boða mat á raunfærni sem styttir námstíma þeirra til sveinsprófs. Tekið er tillit til aðstæðna nemenda og boðið upp á fjarnám fyrir landsbyggðarnemendur og kvöldnám fyrir nemendur á höfuðborgarsvæðinu. 

Kennarar í málaraiðn hafa þróað nýtt verkefnastýrt nám sem byggir á því að nemandi leysi verkefni á eigin hraða. Áhersla er lögð á að nemandi sýni fram á getu sína samkvæmt hæfniviðmiðum námsins en sitji ekki hefðbundna áfanga. Námstíminn er háður aðstæðum hvers nemanda. 

Undanfarin ár hefur áhersla verið lögð á nemendamiðaðar kennsluaðferðir. Verkefnalýsingar eru skýrar og nemandinn beitir þekkingu og aðferðum sem hann hefur tileinkað sér til að ljúka verkinu og hefjast handa við það næsta. Verkefnin eru 97 talsins og byrjar nemandinn á verkefni nr. 1 og vinnur sig áfram að verkefni nr. 97. Hægt er að taka námið með vinnu í fjarnámi eða í kvöldnámi.

Verkefnastýrða námið getur farið fram hvar sem er, ef nemendur hafa aðgang að hentugum rýmum og þeim búnaði sem þarf til að leysa verkefnin. Nemendur fá úthlutað tíma í málarastofu og hafa aðgang að kennara. Þeim er einnig frjálst að mæta á öðrum tímum en hafa þá takmarkaðan aðgang að kennara og  þurfa sjálfir að skipuleggja hvernig þeir haga námi sínu. 

Þetta fyrirkomulag hefur í för með sér að nemendur bera aukna ábyrgð á eigin námi. Kennararnir hafa lagt áherslu á reglulega endurgjöf til nemenda sem á að skila þeim auknum skilningi á námsefninu og hugtökum og styðja þá í að taka næstu skref til að bæta gæði verkefnanna. Kennarar hafa haft það að leiðarljósi að valdefla nemendur til að meta nám sitt og framfarir sjálfir svo að þeir reiði sig síður á endurgjöf kennara sem er í samræmi við það sem gerist í atvinnulífinu utan veggja skóla

Úr umsögn sem fylgdi tilnefningu:

Könnun meðal nemenda í dagnámi árið 2022 sýnir að 80% nemenda sem svara könnuninni eru ánægðir með verkefnastýrða námið og 84% nemenda finnst verkefnaálagið hæfilegt og gengur, að sínu mati, vel að stjórna því. Nemandi vildi koma á framfæri í könnuninni: „Metnaðarfullir kennarar, góðir þjálfarar til að kenna okkur í að verða næstu Picasso á vinnumarkaði“.

Fram kom hjá öðrum nemanda í dreifnámi að hann taldi að:  „gott væri að geta fengið að sjá stundum mynd af tilbúnu verkefni í vissum verkefnum, svo maður geti gert sér betur grein fyrir hvað maður á að gera“.

Kennarar í málaradeildinni hafa farið frá því að vera þeir sem stjórna og yfir í að setja sig inn í hvernig nemandinn lærir og leiðbeiðna honum þar sem hann er staddur. Kennarar eru með viðveru í stundatöflu svo nemendur vita hvenær hægt er að hitta á þá. Við það að fara úr hefðbundnu áfangakerfi í verkefnastýrt nám hefur vinna verið lögð í að styrkja samtal í anda lærdómssamfélagsins með það að markmiði að allir séu að vinna að sama marki og hafi nám nemandans að leiðarljósi.Scroll to Top