Marín Björk Jónasdóttir, kennari og sviðstjóri í Borgarholtsskóla 

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2023 

Framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar 

Marín Björk Jónasdóttir, kennari og sviðstjóri í Borgarholtsskóla 

fyrir vinnu við þróun hagnýts iðn- og starfsnáms í Borgarholtsskóla  

Marín Björk lauk B.A. prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands 1991, námi í náms- og starfsráðgjöf sama ár frá sama skóla og M.A. námi í uppeldis- og menntunarfræði frá HÍ 2006. Hún lauk kennsluréttindanámi frá Háskólanum á Akureyri 2011. Marín Björk er nú sviðsstjóri iðn- og starfsnáms við Borgarholtsskóla, en undir sviðið heyrir allt iðn- og starfsnám sem kennt er við skólann (bíltæknibrautir, félagsliðanám, leikskólaliðanám, stuðningsfulltrúanám og málm- og véltæknibrautir). 

Marín Björk hefur með öðrum unnið að endurskoðun námskrár og þróun fjölmargra áfanga og námsbrauta, bæði í dagskóla og dreifnámi. Í starfi sínu hefur hún beitt sér fyrir fjölmörgum nýmælum og verið leiðandi í þróunarstarfi. Hún hefur lagt áherslu á að nám taki mið að af hæfnikröfum og að það sé gert markvissara og hagnýtara. Sem dæmi má nefna að kenna íslensku, ensku og stærðfræði sem nýtist í framtíðarstarfi. Þá má nefna vinnu við gerð rafrænna ferilbóka fyrir vinnustaðanám. Hún hefur verið í virkum samskiptum við aðila á vinnumarkaði og haldið utan um vinnustaðanám nemenda, tekið þátt í erlendu samstarfi og verið í starfsgreinaráði Heilbrigðis, félags og uppeldisgreina. 

Marín Björk hefur brennandi áhuga á öllum iðn- og starfsnámi og segir að eitt af því sem hvetji hana áfram sé að taka þátt í að hefja iðn- og verknám til réttmæts vegs og virðingar. Hún hefur þá sýn að nemendur eigi að vera í forgrunni. 

Í umsögn sem fylgdi tillögu að tilnefningu sagði m.a.: 

Á þeim árum sem hún hefur starfað að verkefninu hefur henni tekist á undaraverðan hátt að sameina málmiðngreina kennara og bíliðnigreina kennara í eina öfluga starfseiningu. Í annan stað hefur henni tekist að byggja upp öfluga liðsheild og styrkja til muna allt innra starf og alla fagmennsku í málm- og bíliðingreinum … Eftir að hún tók við sem sviðsstjóri iðn- og starfsnáms er aðsókn í bíliðngreinar slík að ekki hefur verið hægt undanfarið að verða við öllum umsóknum og átakið í að auka aðsókn stúlkna hefur m.a. skilað sér í því að um tíma voru fleiri stúlkur í námi við bílamálun en strákar …  

Mikil og almenn ánægja ríkir með stjórnunarstörf Marínar og hefur hún áunnið sér mikillar virðingar meðal kennara sviðsins, samstarfsfólks, vinnustaða og nemenda. Sem kvenmaður án sveinsprófs í iðn þurfti hún að sanna sig í augum margra vantrúaðra á að hún gæti stjórnað, skapað sterka liðsheild og byggt upp námið en enginn efast lengur um það. 

 

Scroll to Top