Ágústráðstefnan 2022: Með gleðina að leiðarljósi: Kennarar sem leiðtogar og brautryðjendur í skapandi starfi

Ágústráðstefna Samtaka áhugafólks um skólaþróun verður haldin í Stapaskóla í Reykjanesbæ föstudaginn 12. ágúst nk. (kl. 9.00-16.00).

Þema ráðstefnunnar er:

Með gleðina að leiðarljósi: Kennarar sem leiðtogar og brautryðjendur í skapandi starfi

Áhersla verður lögð á að kynna skólastarf og þróunarverkefni þar sem kennarar hafa farið inn á nýjar brautir; „út fyrir rammann“.


Fullbókað er á ráðstefnuna í Stapaskóla – en hægt að skrá sig til að fylgjast með aðalfyrirlestrum í streymi (skráning hér) – einnig er hægt að skrá sig á biðlista (skráning hér)


Dagskrá ráðstefnunnar

Árdegis munum við kynnast þróunarstarfinu í Stapaskóla. Unglingastigsteymi skólans flytur erindi sem þau nefna Samþætting og sköpun í framsæknu skólaumhverfi og fjallar um hvernig tekist hefur til með samþættingu námsgreina, vinnu með skapandi heimanám, teymiskennslu og hvernig skólaumhverfið hefur áhrif á starfið.

Starfsfólk Menntaskóla Borgarfjarðar kynnir skólaþróunarverkefnið Menntun fyrir störf framtíðar. Þar hefur farið fram endurskoðun á skólanámskrá með það að markmiði að efla þátt stafrænnar miðlunar, sköpunar og STEAM greina (vísindi, tækni, nýsköpun, listir og stærðfræði). Einnig er lögð stóraukin áhersla á lykilhæfni og lífsleikni (lífsnám). Þá er verið að þróa í skólanum svokallað Framtíðarver með aðstöðu til margs konar tæknivinnu, miðlunar og sköpunar.

Ólöf Ása Benediktsdóttir, kennari við Hrafnagilsskóla, segir frá fjölbreyttum verkefnum á unglingastigi skólans þar sem áhersla hefur verið lögð á samþættingu, samvinnu, samræður nemenda og skapandi skil. Ólöf Ása nefnir erindi sitt: Það er draumur að vera í skóla: Að auka hlutdeild nemenda í eigin námi með gleði og sköpun.

Hörður Svavarsson, leikskólastjóri í Aðalþingi flytur erindi sem hann kallar Vefarinn mikli og allt hans hafurtask … og lýsir því svo að hann ætli að láta móðan mása um ýmislegt sem hann hefur mis mikið vit á en finnst gaman að tala um, eins og skapandi starf, misskilninginn um lýðræðið, þróunarstarf og Menntaverðlaunin sem björguðu skólanum.

Ráðstefnugjald er kr. 5.000.- fyrir félagsmenn í Samtökum áhugafólks um skólaþróun og kr. 7.500.- fyrir utanfélagsmenn. Gjaldið má greiða með því að leggja greiðslu inn á þennan reikning: 0323–26–002277, kt. 451205-0720 og senda tilkynningu um greiðslu á þetta netfang: skolastofan(hja)skolastofan.is

Árdegisdagskrá og síðdegisdagskrá í sal verða sendar út í streymi. Þeir félagar í Samtökum áhugafólks um skólaþróun sem vilja nýta sér það greiða kr. 2.000.- fyrir aðgang að streymi, en utanfélagsfólk, kr. 4.000.-

ÁRÍÐANDI ER AÐ TILKYNNA FORFÖLL MEÐ FORMLEGUM HÆTTI MEÐ TILKYNNINGU Á ÞETTA NETFANG: SKOLASTOFAN(HJA)SKOLASTOFAN.IS

Scroll to Top