Forseti og verðlaunahafar með tveimur nemendum í Álftanesskóla. Ljósmynd: Mummi Lú.

Embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneyti, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Mennta­vísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Samtök iðnaðarins og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hafa samstarf um að veita árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Verðlaunin heita Íslensku menntaverðlaunin.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum:

A. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

B. Framúrskarandi kennari. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.

C. Framúrskarandi þróunarverkefni. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.

D. Framúrskarandi iðn- eða verkmenntun. Ein verðlaun veitt kennara, námsefnishöfundi, skóla- eða menntastofnun fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar.

E. Hvatningarverðlaun til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Tillögur skulu hafa borist fyrir 1. júní ár hvert.

Viðurkenningarráð (sjá hér) velur þrjár til fimm tilnefningar í hverjum flokki til kynningar á alþjóðadegi kennara 5. október. Tillögur um tilnefningar skal senda ráðinu með því að nýta þessi skráningarform:

  • Tilnefning í A-flokki (skólastarf eða menntaumbætur)
  • Tilnefning í B-flokki (framúrskarandi kennari)
  • Tilnefning í C-flokki (framúrskarandi þróunarverkefni)
  • Tilnefning í D-flokki (framúrskarandi iðn- eða verkmenntun)
  • Tilefning í E-flokki: Hvatningarverðlaun

Einnig má senda tillögur um tilnefningarnar í pósti:

Íslensku menntaverðlaunin
hjá / Ingvar Sigurgeirsson
Sóltún 16
105 Reykjavík
(Merkið umslagið: Íslensku menntaverðlaunin)

Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í nóvember.

Sjá nánar um verðlaunin í samkomulagi þeirra sem að þeim standa.*

Ólafur Ragnar Grímsson stofnaði til Íslensku menntaverðlaunanna og veitti þau á árunum 2005-2011, þegar þau lögðust af í kjölfar efnahagshrunsins. Þegar verðlaunin voru endurreist 2020 lagði forsetaembættið til þeirra öll gögn, m.a. merki og hönnun verðlaunagripa.

* Síðan fyrsti samningur um verðlaunin var gerður hafa Listaháskóli Íslands og Samtök iðnaðarins gengið til liðs við aðstandendahóp verðlaunanna.

Scroll to Top