Mikael Marinó Rivera

Tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2022

Mikael Marinó Rivera, kennari við Rimaskóla í Reykjavík

Mikael Marinó Rivera, kennari við Rimaskóla í Reykjavík, er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2022, fyrir áhugaverða kennslu, meðal annars fyrir að þróa fjölbreyttar valgreinar sem hafa höfðað til breiðs hóps nemenda.

Mikael lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands 2008. Hann hefur kennt við leikskóla og grunnskóla, bæði hér á landi og á Spáni. Hann er nú upplýsingatækni- og umsjónarkennari við Rimaskóla í Reykjavík. Mikael hikar ekki við að fara óhefðbundnar leiðir í kennslu sinni og leggur mikla áherslu á að beita fjölbreyttum kennsluaðferðum. Hann nýtir upplýsingatæknina á skapandi hátt og á auðvelt með að vekja áhuga nemenda og hvetja þá áfram og hefur náð sérstaklega góðum árangri, meðal annars með valnámskeiðum sem hann hefur verið að þróa og byggja á áhugasviðum nemenda. Áherslum sínum lýsir Mikael m.a. með þessum orðum:

Ég legg mikla áherslu á að nemendur viti að allir geti náð þangað sem þeir ætla sér, þrátt fyrir allan þann mótbyr sem gæti mætt þeim á leiðinni. Segi þeim að við séum mismunandi og komum úr mismunandi umhverfi og að við förum ekki endilega í sömu átt til þess að elta drauma okkar og markmið.  

Í umsögn um Mikael segir m.a.: 

Mikael Marinó hefur unnið þrekvirki í að efla áhugasvið nemenda sem eru komnir með skólaleiða. Hann er jákvæður, uppbyggjandi og hefur jákvæða sýn á fjölbreytileika í nemendahópi … Hann hefur útbúið margvíslegar valgreinar til að kveikja áhuga nemenda og þar má nefna: Ökuskóli Mikaels (undirbúningur fyrir hefðbundið ökunám), Stangveiði (nemendum eru fræddir um stangveiði, fara í kastkennslu, fá kennslu á veiðibúnað, læra fluguhnýtingar, læra um lífríki í ám og vötnum og fara í veiðiferðir), Gamlir tölvuleikir, Borðspil, Lord of the rings (Kafað dýpra í hugarheim Tolkiens), Hlaðvarp (læra að búa til hlaðvörp frá handriti í útgáfu), Evrópuknattspyrnan (farið yfir leiki vikunnar í stærstu deildum Evrópu). Mikael er boðinn og búinn að aðstoða þegar áskoranir koma upp og hefur verið stoð og stytta fyrir nemendur í unglingadeild.


Scroll to Top